15.1.2009 | 22:34
Margrét Jónsdóttir opnar sýningu í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 17. janúar kl. 15 opnar sýning á verkum leirlistakonunnar Margrétar Jónsdóttur í Listasafninu á Akureyri. Margrét (f. 1961) hefur unnið að listsköpun sinni á Akureyri síðan 1985, en hún lærði leirlist í Danmörku við Listiðnaðarskólann í Kolding frá 1980-1984. Árið 1992 hlaut Margrét styrk til námsdvalar við Haystack School of Arts and Crafts í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á flísagerð. Árið eftir var hún valin bæjarlistamaður Akureyrar og sótti á þeim tíma mósaíknámskeið í Ravenna á Ítalíu. Margrét vinnur jöfnum höndum að gerð nytjahluta, stærri listmuna og listskreytinga. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum bæði heima og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar. Hvítir Skuggar í Listasafninu á Akureyri er stærsta einkasýning hennar fram til þessa.
Margrét settist að í heimabæ sínum, Akureyri, og gerðist þar brautryðjandi á sínu sviði. Fyrst í stað stundaði hún lágbrennslur á jarðleir í gömlum ofni sem hún hafði með sér frá Danmörku; m.a. var hún meðal fyrstu leirlistarmanna hér á landi til að stunda rakú-brennslu. Í árslok 1986 hafði Margrét komið sér upp stórum hábrennslu rafmagnsofn, sem gerði henni kleift að vinna með steinleir og postulín.
Margrét hefur gert ótal tilraunir með samspil leirs og annarra efna, svo sem steinsteypu, kopars, silfurs og mósaíks. Á ferli sínum hefur hún komið sér upp persónulegum og afar þokkafullum skreytistíl, m.a. með gyllingum, en á tímabili urðu þær eins konar aðalsmerki hennar sem leirlistarmanns. Margrét hefur einnig komið að rýmis- og umhverfismótun með gerð gólf- og veggflísa, handlauga og skírnarsáa fyrir kirkjur. Áhrifa hennar gætir því víðar en á Akureyri, jafnt í umhverfinu sem annarri leirlist.
Margrét sker sig frá þeirri tilhneigingu að draga girðingar milli lífs og listar. Hún blygðast sín ekki fyrir að sýna einlægni og hlýju, sem virðist eitur í augum þeirra sem sigra vilja heiminn. Og það sem meira er, hún deilir ástfóstrum sínum með fólki á þann hátt að notkun og áhorf fellur saman í eina sæng. Sýning Margrétar gefur út vissa yfirlýsingu til listheimsins sem löngum hefur haft tilhneigingu til að taka sig of alvarlega. Verk hennar hampa þeim eiginleikum sem samtímalistin lítur vanalega hornauga nema þeir séu umvafðir afsakandi kaldhæðni. Margrét gerir út á mýkt, kímnigáfu og tilfinningasemi án nokkurs háðs. Hún skapar verk sín af einlægni og minnir um leið hæversklega á, að það er aldrei til of mikil fegurð í heiminum.
Í tilefni af sýningunni hefur Listasafnið á Akureyri gefið út glæsilega 176 síðna bók um listakonuna með greinum eftir Hannes Sigurðsson, Shaunu Laurel Jones, Aðalstein Ingólfsson og Sigurð Örn Guðbjörnsson. Inn fjárfesting styrkir útgáfuna. Bókin fæst í Listasafninu.
Sýningin stendur til 9. mars. Ókeypis er í Listasafnið á Akureyri. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður, í síma 461-2610. Netfang: hannes@art.is
15.1.2009 | 22:03
Finnur Arnar sýnir í Laxdalshúsi

Opnunin hefst kl: 16:00 og verða léttar veitingar í boði.
15.1.2009 | 21:43
Íslandsdeild Letterstedtska sjóðsins auglýsir styrki
Hjálagðar eru upplýsingar um ferðastyrki sem unnt er að sækja um til Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins og um styrki til ráðstefnuhalds, útgáfu og þýðingu á fræðiritum o.fl. sem sækja má um til aðalstjórnar Letterstedtska sjóðsins í Svíþjóð. Umsóknarfrestur rennur út 15.febrúar.
Sjá frekari upplýsingar á slóðinni http://www.letterstedtska.org/anslag_allmant.htm
Umsóknum til Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins ber að skila á íslensku en til aðalstjórnar sjóðsins á sænsku, dönsku eða norsku.
Vinsamlegast kynnið þessar upplýsingarnar starfsmönnum, umbjóðendum og tengdum stofnuninni sem gagn mættu hafa af.
Með kveðju,
Snjólaug Ólafsdóttir
ritari Íslandsdeildar Letterstedtska sjóðsins
Kaldar strendur heitir straumar
Kaldar strendur - heitir straumar er nafn á samsýningu 12 listamanna frá Íslandi og Noregi. Sýningin var sett upp á þremur stöðum í Norður Noregi á sl. ári og verður opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 17. janúar.
Hugmyndin að sýningunni kviknaði í samstarfi listamanna á vegum menningarráðanna á Austurlandi og í Vesterålen. Í nokkur ár hafa listamenn frá Austurlandi annars vegar og Vesterålen hins vegar skipst á að heimsækja hvern annan. Ferðalögin yfir hafið eru kveikjan að sýningunni sem listamennirnir eiga sjálfir frumkvæði að.
Listamennirnir sem sýna eru: Agnieszka Sosnowska, Svandís Egilsdóttir, Aino Grib, Oili Puolitaival, Ingrid Larssen, Ove Aalo, Íris Lind Sævarsdóttir, Ólöf Björk Bragadóttir, Myriam Borst, Kristín Scheving, Ingunn Reinsnes og Siv Johansen.
Kaldar strendur heitir straumar vísar í fjarlægðina sem landfræðilega skilur þessa listamenn að og samtímis þá strauma sem liggja á milli þeirra og sameina þá hér í listinni. Straumar og samstarf listamannanna sem hefur styrkst og þroskast í gegn um listina.
Sýning hóf ferðalag sitt í Gallerí Apotheket í Stokmarknes í Norður Noregi 12. september síðast liðinn og síðan var hún sett upp í Gallerí Hildreland í Bø. Í nóvember opnaði sýningin svo í Harstad Kunstforening.
Sýningin "Heitir straumar - kaldar strendur" opnar nú í Sláturhúsinu/Menningarhúsi Egilsstöðum, laugardaginn 17. janúar klukkan 17:00.
Styrktaraðilar sýningarinnar eru; Menningarráð Austurlands og Vesterålen, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, og Þjóðhátíðargjöf Norðmanna Forsætisráðuneytinu, Sláturhúsið Menningarsetur ehf.
Sýningin er mjög fjölbreytt og býður upp á málverk, textílverk, ljósmyndir og vídeóverk.
Sýning verður opin daglega frá 14 - 18 og um helgar frá 14 -18. Henni lýkur 8. febrúar.
Allir velkomnir
Mynd af Egilsstöðum: Skarphéðinn G. Þórisson.