Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýnir skúlptúra og lágmyndir í réttinni við Freyjulund

Helgina 21.- 22. Júní 2008 verður “Réttardagur “ í Reistarárrétt við Freyjulund, Arnarneshreppi.
 
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýnir skúlptúra og lágmyndir í réttinni við Freyjulund undir yfirskriftinni “Réttardagur” 50 sýninga röð.

Sýningin er sú fyrsta í röð 50 sýninga sem settar verða upp víða um heim á næstu fimm árum og fjalla um íslenska menningu.

Laugardaginn 21 júní kl 14.00 er opnum með léttum veitingum, kl.15.00 munu gestalistamennirnir  á “Réttardeginum” Anna Gunnarsdóttir, Jónína Sverrisdóttir, Jan Voss og Hanna Hlíf Bjarnadóttir sýna túlkun sína á sauðkindinni. Einnig verður myndbandsverk DRA. sýnt, og hljóðupptaka Mirjam Blekkenhorst.

Sunnudaginn 22. Júní er opið frá kl 14.00 – 18.00. Sýningin mun standa fram yfir Jónsmessu eða næstu tvo daga ef veður leifir.


Undanfarin ár hef ég verið að undirbúa sýningu eða uppákomu sem ber yfirskriftina Réttardagur. Þessi töfrum líki dagur þegar fé er safnað af fjalli og rekið í réttir. Upphaf nýs tímabils, menning og allsnægtir.
Verkefnið á uppruna í mínu nánasta umhverfi þar sem ég bý 20 metra frá Reistarárrétt í Arnarneshreppi, Eyjafirði. Ég er alin upp á Siglufirði þar sem afasystir mín og maðurinn hennar stunduðu fjárbúskap á túninu heima. Við áttum heima ofarlega í bænum, fyrir ofan kirkjuna alveg við fjallsrætur. Sem barn fékk ég að hjálpa til við þau störf sem fylgja búskapnum ýmist úti eða inni.
Síðan þá hafði ég hvorki hugsað sérstaklega um kindur né búskap fyrr en ég flutti nánast í réttina. Þá fann ég hvað æskuminningarnar sóttu á mig og ég upplifði réttirnar og sveitalífið á alveg nýjan máta. Merkilegt hvað fjárbúskapurinn á sér sterkar rætur í þjóðarsál Íslendinga. Innan um alla nýsköpun heldur sauðkindin velli.
Í dag er ég áhugamanneskja um náttúruvæna og þjóðlega atvinnuvegi eins og búskap. Sjálf hef ég hagað lífi mínu þannig að ég lifi í sátt við náttúruverndarsamvisku mína. Ég flokka sorpið mitt og nýti til listsköpunar margt af því sem fellur til á heimilinu. Ég nota hvorki eiturefni í listsköpun né þrifum. Þegar ég hóf að vinna þrívíð verk lagði ég leið mína á gámasvæðið á Akureyri til að leita að hráefni. Það kom til af peningaleysi en ekki síður endurvinnsluhugmyndum. (Það er umhugsunarefni að í fimmtánþúsund manna samfélagi fyllast margir gámar af húsgögnum, heimilistækjum og timbri á hverjum degi. )
Mér líkar tilhugsunin um að vera hluti af heild. Að setja saman skúlptúra úr timbri sem  smiðir hafa sagað niður og jafnvel málað er skemmtilegur leikur, og gefur verkunum að mínu mati aukna vídd.
Ýmsar myndir mannlífs hafa verið viðfangsefni mitt alla tíð. Fyrst á tvívíðan flöt, en nú í seinni tíð þrívíðan. Þegar ég hef sett upp sýningar, hef ég gjarnan fengið allskyns fólk til liðs við mig. Fyrirlesara, tónlistarfólk, börn og unglinga, leikara, ljóðskáld og aðra myndlistamenn. Þannig fæ ég breiðara sjónarhorn á það sem ég er að gera og óvæntir hlutir gerast, eins og fyrir töfra.
Á réttardaginn stefni ég einmitt saman skapandi fólki úr ýmsum greinum sem sameinast undir þessu þjóðlega merki.

Á “Réttardeginum” verða til sýnis yfir 100 skúlptúrar og lágmyndir unnar á undanförnum árum.

Næstu sýningar eru í Safnasafninu á Svalbarðsströnd,
12. Júlí kl: 14.00.
Boekie Woekie, Amsterdam, Holland, í September.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Sími: 865-5091 / 462-4981
adalheidur@freyjulundur.is
freyjulundur.is

Menningarráð Eyþings styrkir sýningarnar, Menntamálaráðuneytið, Húsasmiðjan og Ásprent/Stíll.


Hlynur Hallsson opnar sýningu í bæjarstjórnarsal ráðhúss Akureyrar

Hádegisopnun
Gallerý Ráðhús
Geislagötu 9
600 Akureyri


Hlynur Hallsson
Allskonar kræsingar, fjall án kinda, fleiri myndir og sprey


Hlynur Hallsson opnar sýninguna "Allskonar kræsingar, fjall án kinda, fleiri myndir og sprey" í bæjarstjórnarsal ráðhúss Akureyrar fimmtudaginn 19. júní klukkan 12:15

Þar gefur að líta sex ljósmynda/textaverk úr myndröðinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES" ásamt nýju spreyverki sem Hlynur hefur gert sérstaklega fyrir bæjarstjórnarsalinn.
Hlynur vann myndirnar á árunum 2002-2007 og í sumar kemur einmitt út bók með allri myndröðinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES" hjá forlagi höfundanna. Hlynur hefur gert spreyverk síðustu ár, það fyrsta í Texas 2002 og nú síðast á sýningunni "Bæ, bæ Ísland" í Listasafninu á Akureyri. Þann 16. ágúst verður opnuð yfirlitssýning á verkum Hlyns í Nýlistasafninu.

Brot úr texta eftir Claudiu Rahn úr bókinni "MYNDIR - BILDER - PICTURES":
"Frásagnir Hlyns, sem eru samsettar úr einföldum aðal- og aukasetningum, ná í einfaldleika sínum samstundis til áhorfandans. Áhrifamáttur frásagnarinnar byggist fyrst og fremst á þeirri miðlunarleið sem listamaðurinn velur. Til dæmis segir Hlynur frá loftbelgsferð sem Hugi sonur hans fékk í tíu ára afmælisgjöf. Sagan byrjar sem saklaus frásögn en breytist fljótt í harmsögu og tapar þar með léttleika sínum þegar listamaðurinn minnist bókarinnar "Eilíf ást" eftir Ian McEwan. En í þeirri bók endar loftbelgsferðin jú ekki vel."

Hlynur Hallsson er fæddur á Akureyri 1968. Hann stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík, Hannover, Hamborg og í Düsseldorf. Hann hefur á síðustu 10 árum sett upp um 60 einkasýningar og tekið þátt í um 80 samsýningum. Hlynur hlaut verðlaun Kunstverein Hannover 1997, verðlaun ungra myndlistarmanna í Neðra-Saxlandi 2001 og verðlaun Sparda Bank árið 2006. Hann hefur fengið 6 mánaða listamannalaun 1997, 2002 og 2003 og tveggja ára starfslaun 2006. Hlynur var útnefndur bæjarlistarmaður Akureyrar árið 2005. Verk Hlyns eru í eigu Listasafns Reykjavíkur, Listasafns Íslands, Nýlistasafnsins, Listasafnsins á Akureyri, Listasjóðs Dungals, Listasafns Flugleiða, Samlung Howig í Zürich auk nokkurra einkasafna í Evrópu. Hlynur vinnur með ljósmyndir, texta, innsetningar, sprey, gjörninga og hvað eina, allt eftir því sem hentar í hverju tilfelli. Nánari upplýsingar um Hlyn og verk hans er að finna á heimsíðunni www.hallsson.de.

Allir velkomnir
Léttar veitingar

Verkefnastjóri Jóna Hlíf Halldórsdóttir
sími 6630545


Hannah Kasper opnar í galleríBOXi

the_search_continues


galleríBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri

Laugardaginn 21. júní klukkan 16:00 opnar Hannah Kasper í BOXinu. Hannah er gestalistamaður í gestavinnustofu Gilfélagsins.
Sýningin stendur til 29. júní. Opið er alla laugardaga og sunnudaga frá 14:00 til 17:00.


"Innblásin af draumum, bíómyndum, gömlum byggingum, bernskuminningum og ímyndunum eru málverk Hönnuh Kasper af yfirgefnu innanhúsrými laustengd atburðarrás í ímynduðu ævintýri. Samhengi ævintýrisins ræðst af nærveru óséðrar söguhetjunnar sem er í stöðugri leit að einhverju eða einhverjum. Viðfangsefni málverkanna eru leikmunir sem tengjast atburðarrás sögunnar og gjarnan minningum, draumum eða ótta listamannsins. Rýmið er notað til að búa til leiksvið þar sem áhorfendur geta nýtt sér sjónrænar vísbendingar sem gefnar eru og skapað þær frásagnir sem þeir vilja.
Hér er á ferðinni hugleiðing um hið yfirgefna og jafnframt afneitun vitræns raunsæis en einnig samspils ljóss og sjónarhorns. Málningin er lagskipt og stundum skafin upp til að afhjúpa teikninguna eða yfirborð viðarins sem er undirliggjandi eins og beinagrind yfirgefinnar byggingar eða þokukenndrar minningar.
Ákvörðunin um að myndgera umhverfi sem byggist á ímyndunarafli umbreytir rýminu af meðvitaðu óraunsæi.
Hannah Kasper er fædd í New York 1981. Hún útskrifaðist með MFA gráðu frá Glasgow School of Art í Skotlandi og er með BFA gráðu í málaralist úr Tyler School of Art í Philadelphia og Róm"

www.artistsstudio.blogspot.com
Jóna Hlíf
6630545
--
galleriBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
www.galleribox.blogspot.com


Bloggfærslur 18. júní 2008

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband