15.5.2008 | 22:46
Sýningin HLASS opnar í Öxnadal 20. júní 2008
H L A S S
Opnun 20.06.2008
18:00-20:00
21.06 - 21.07 2008
Hlynur Hallsson // Huginn Arason // Jóna Hlíf Halldórsdóttir // Karlotta Blöndal // Karen Dúa Kristjánsdóttir // Níels Hafstein // Unnar Örn Jónsson Auðarson
www.hlass.blogspot.com
Hugmyndin á bak við sýninguna er að setja óvenjulegan bæjarviðburð í hversdagslegt sveitaumhverfi. Hvetja fólk til þess að koma að Hálsi, njóta náttúrudýrðarinnar, ganga upp að Hraunsvatni, minnast ljóða Jónasar Hallgrímssonar og fá sér góðan mat á Halastjörnunni. Hlaðan stendur í dag að miklu leyti ónýtt en með því að halda þar sýningu er hægt að sýna möguleikana sem felast í þessum ónýttu rýmum til sýningarhalds eða annarra viðburða, en þannig er farið með fleiri hlöður á landinu en að Hálsi. Þannig er hægt að glæða þær lífi og skapa úr þeim nýtt umhverfi, og koma þannig lífi í þessar undirstöður sveita landsins. Það er þekkt fyrirbæri að menningarviðburðir á fáförnum slóðum dregur fólk að, og sáir skapandi frjókornum í huga þeirra sem þangað koma. Þannig ganga gömul rými oft í endurnýjun lífdaga og fá á endanum nýtt hlutverk eftir að listamenn hafa bent á möguleikana sem í því felast.
Verkefnastjóri er Jóna Hlíf Halldórsdóttir
sími 6630545
15.5.2008 | 21:50
Inga Björk Harðardóttir opnar í Dalí Gallery föstudaginn 16. maí
Inga Björk Harðardóttir opnar myndlistasýninguna Brýr í DaLí Gallery föstudaginn 16. maí kl. 17-19. Inga sýnir stórar landslagsmyndir málaðar með olíulitum. Myndirnar eru hluti af útskriftaverki Ingu Bjarkar frá Myndlistaskólanum á Akureyri, en útskrift hennar fór fram í gærkvöldi. Sýningin stendur til 31. maí
Inga Björk um verk sín:
Brýr eru táknrænar og á lífsleiðinni förum við yfir margar slíkar. Frá bernsku til fullorðinsára verða á vegi okkar hindranir og erfiðleikar sem við verðum að yfirstíga - þær brýr eins og hinar raunverulegu eru mislangar og misgreiðar yfirferðar.
Mér þykja gamlar brýr sérstaklega fallegar. Bogalínur og fallegar steinhleðslur skapa skemmtilegt samspil ljóss og skugga, svo eru gömlu brýrnar smám saman að hverfa, þær molna og gróðurinn flæðir yfir.
Inga Björk Harðardóttir s.8621094
Dagrún og Lína í DaLí Gallery
http://daligallery.blogspot.com
15.5.2008 | 08:26
Facing China í Listasafninu á Akureyri
Laugardaginn 17. maí kl. 13 verður sýningin Facing China ( Augliti til auglitis við Kína ) opnuð í Listasafninu á Akureyri. Heiti sýningarinnar endurspeglar meginstef hennar, manninn og andlitið, sem sjá má í málverkum og skúlptúrum eftir níu kínverska samtímalistamenn sem vakið hafa alþjóðlega athygli og sett hvert sölumetið á fætur öðru í uppboðshúsum heimsins. Listamennirnir sem verk eiga á sýningunni eru Chen Qing Qing, Fang Lijun, Liu Ye, Tang Zhigang, Wei Dong, Yang Shaobin, Yue Minjun, Zhang Xiaogang og Zhao Nengzhi.
Öll verkin á sýningunni koma úr fórum hollenska listaverkasafnarans Fu Ruide. Hann hefur reynst Listasafninu á Akureyri mikill haukur í horni við mótun og undirbúning sýningarinnar og bætti við mörgum nýjum verkum í safn sitt til að gera hana sem best úr garði. Af þessu tilefni hefur verið gefin út glæsileg 270 síðna bók í hörðu bandi á ensku og kínversku sem í rita, auk forstöðumanns Listasafnsins og eiganda verkanna, Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, hinn þekkti bandaríski listfræðingur Robert C. Morgan og virtasti gagnrýnandi kínverskrar myndlistar, Li Xianting, sem stundum er kallaður guðfaðir samtímalistarinnar þar í landi. Þá hefur Listasafnið gefið út dagblað sem hefur að geyma valda texta á íslensku og myndir í áðurnefndri bók. Sýningin er sett upp í tengslum við Listahátíð í Reykjavík, sem árið 2008 er að miklu leyti helguð alþjóðlegri myndlist. Frá Akureyri ferðast sýningin víða um lönd og verður hún meðal annars sett upp í söfnum í Austurríki, Þýskalandi, Noregi, Finnlandi og Svíþjóð. Skandinavíuför hennar lýkur árið 2010, en þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt listasafn á frumkvæðið að skipulagningu alþjóðlegrar farandsýningar af þessari stærðargráðu. Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri.
Verkin úr safni Fu Ruide voru ekki einvörðungu valin vegna verðleika sinna, heldur einnig til að þau væru í samræmi við stef sýningarinnar, sem er manneskjan, fas hennar og fés, og þar af sprettur heitið, Facing China . En þótt líta megi á sýninguna harla bókstaflega í þessu tilliti, er heitið einnig margrætt með ráðnum hug, jafnvel eilítið ógnvænlegt, þar eð það að standa augliti til auglitis við eitthvað þýðir að takast á við veruleikann. Sýningin býður því birginn að mögulega kvikni einhverjar væntingar til kínverskrar listar um að hún sé annaðhvort sprottin af eintómri pólitík eða seiðandi exótísk og öðrum hefðbundnum grillum. Málverkin og skúlptúrarnir á sýningunni eru ekki til marks um Kínverjaskap þessara listamanna. Þess í stað afhjúpa þau stereótýpur, beina sjónum okkar frá hinu dálítið kunnuglega að djúpri sjálfshygli þegar við leiðum augun um andlitin og líkamana sem bregður fyrir í verkunum. Þau afhjúpa persónulegar og andlegar sneiðmyndir af fólkinu sem þau sýna, og mannlega eiginleika sem eru almennari en áhorfandinn kann að gera sér í hugarlund við fyrstu sýn.
Nánari upplýsingar sýninguna er að finna á vefsíðu Listasafnsins: www.listasafn.akureyri.is. Einnig er hægt að hafa samband við Hannes Sigurðsson í síma 899-3386 (netfang: hannes@art.is). Aðalstyrktaraðili sýningarinnar er Samskip sem veitti aðstoð við flutning á verkunum til landsins. Sýningunni lýkur 29. júní og er safnið opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12 17.
![]() |
Tilraunastofa lista og vísinda |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |