17.1.2008 | 13:42
Búdda er á Akureyri: Opnun í Listasafninu á Akureyri
Búdda er á Akureyri:
Oft var zen en nú er nauðzen
Laugardaginn 19. janúar kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýning sem hefur lífsspeki búddismans að leiðarljósi, en listamennirnir á henni eru Halldór Ásgeirsson, Erla Þórarinsdóttir, Finnbogi Pétursson og hinn heimskunni bandaríski vídeólistamaður Bill Viola, sem hér sýnir í fyrsta sinn á Íslandi.
Listasafnið á Akureyri hefur oft farið ótroðnar slóðir í sýningarhaldi og er þessi sýning engin undantekning frá þeirri reglu. Henni er ætlað að vera fræðandi og til þess fallin að skapa áhugaverða umræðu og jafnvel deildar meiningar. Af þeim sökum fylgir veglegt blað með henni sem hefur að geyma talsverðar upplýsingar um búddisma og þróun hans (rúmlega 26.000 orð). Til er gríðarlegt magn af efni um búddisma á öðrum tungumálum, en því miður mjög lítið á íslensku og ætti því að vera nokkur fengur að blaðinu.
Til að gera sýninguna nærtækari íslenskum áhorfendum var leitað á náðir kunnra íslenskra myndlistarmanna sem hafa tileinkað sér búddisma (Halldór Ásgeirsson), þekkja vel til hans og nota það innsæi í list sinni (Erla Þórarinsdóttir), eða virðast smellpassa í þetta tiltekna samhengi (Finnbogi Pétursson). Á henni er einnig að finna nokkra hefðbundna búddíska hluti. Sérstakur gestur sýningarinnar er Bill Viola, einn virtasti myndlistarmaður heims. Viola hefur lengi verið kenndur við búddisma og setur verk hans á sýningunni, Lostalotning (Observance, 2002), hana í alþjóðlegt samhengi.
Sigurður Skúlason leikari, sem er búddisti, skrifaði fróðlegan pistil um sögu búddismans af þessu tilefni og gerði skrá yfir ýmis hugtök sem þar bregður oft fyrir. Hannes Sigurðsson, sýningarstjóri og höfundur verkefnisins, skrifar einnig ítarlega grein um búddisma og hugmyndafræði hans, einkum og sér í lagi tantrískan búddisma, og kemur víða annars staðar við á yfirreið sinni, auk þess að fjalla um listamennina og setja þá í samhengi við búddisma. Þá er í blaðinu að finna samandregna endursögn hans á tveimur af mörgum bókum indverska ólíkindatólsins Oshos (1931-1990), en þessi andlegi meistari var þyrnir í augum bandarísku alríkislögreglunnar sem vísaði honum úr landi og var honum í framhaldi meinað að stinga niður fæti í tuttugu öðrum þjóðríkjum.
Blaðið setur sýninguna í víðtækt samhengi og opnar fyrir fjölbreytilega túlkun á listaverkunum sem á henni eru. Á sýningunni geta áhorfendum einnig upplifað búddisma á eigin skinni, ef svo má segja. Boðið verður upp á ókeypis Body-Balance æfingar í safninu í samvinnu við heilsuræktina Átak, sem í þessu samhengi alveg eins mætti nefna Art Movements þar sem fólk getur teygt sig og notið listarinnar á sama tíma og ætti það að vera kjörið tækifæri til að koma stirðum skammdegiskroppum aftur á hreyfingu eftir allar jólakrásirnar. Þeir sem vilja frekar melta inntak sýningarinnar að zenbúddískum sið geta tyllt sér í hugleiðsluhorn sem útbúið hefur verið í miðsal safnsins.
Sýningin stendur frá 19. janúar til 9. mars. Opið alla daga nema mánudaga frá 12-18. Aðgangseyrir kr. 400. Ókeypis á fimmtudögum. Máttarstólpi sýningarinnar er Eymundsson. Aðrir styrktaraðilar eru: Átak, Flugfélag Ísland, Ásprent, KPMG, Securitas, Eimskip, ISS, Sparisjóður Norðlendinga, Flügger litir og Hótel Akureyri.
Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma 899-3386. Netfang: hannes(hjá)art.is
Ný sýning í galleriBOXi á laugardag
ÞÓRUNN E. SVEINSDÓTTIR opnar sýninguna BLÍÐLYNDI
laugardaginn 19.janúar kl.16:00
Þórunn Elísabet Sveinsdóttir hefur unnið við leikhús í um tvo áratugi en einnig gert búninga fyrir sjónvarp, tónlistarmyndbönd, auglýsingar og kvikmyndir. Hún gerði t.d. búninga fyrir kvikmyndirnar 101 Reykjavík, Ikingut og Hafið. Henni voru veitt Grímuverðlaunin 2004 - Íslensku leiklistarverðlaunin fyrir bestu búninga ársins í sýningu Vesturports á Romeó og Júlíu. Meðal leiksýninga sem Þórunn hefur unnið búninga fyrir við Þjóðleikhúsið eru Gauragangur, Snædrottningin, Taktu lagið Lóa, Sjálfstætt fólk og Krítarhringurinn í Kákasus. Nýleg verkefni Þórunnar við Þjóðleikhúsið eru búningar fyrir Rambó 7 og fyrir Klaufa og kóngsdætur (H.C. Andersen), en fyrir þá búninga var hún tilnefnd til Grímunnar 2005. Nýjustu verk hennar innan Þjóðleikhússins eru Umbreyting, Stórfengleg!, Sitji guðs englar, Leitin að jólunum, Leg og nú er í vinnslu Baðstofan, sem frumsýnd verður í febrúarbyrjun og unnin er af sama hópi og gerði Leg, en fyrir þá sýningu fékk hún Grímuna og kosin Búningahöfundur ársins 2007. Á Listahátíð 2007 var hún einn höfunda leiksýningarinnar Gyðjan í vélinni sem vakti mikla athygli, fékk mjög lofsamlega umfjöllun og var tilnefnd ein besta sýning ársins.
Frá unglingsárum hefur Þórunn fundið útrás listsköpunar í teppasaumi og óhætt að fullyrða að þar hefur hún þróað sérstakan og persónulegan stíl. Eftir hana liggja mörg hundruð teppi hérlendis og erlendis, en hér er eru nú sýnd örfá af nýjustu teppunum hennar.
Sýningin stendur til 3.febrúar.
Opið er laugardaga og sunnudaga frá 14-17.
--
galleriBOX
Kaupvangstræti 10
600 Akureyri
www.galleribox.blogspot.com
Populus tremula kynnir:
Þorvaldur Þorsteinsson
“LEIKMYNDIR”
Myndlistarsýning, bók, kvöldskemmtun
Laugardaginn 19. janúar kl. 14:00 opnar Þorvaldur Þorsteinsson myndlistarsýninguna Leikmyndir í Populus tremula. Um leið kemur út bókin Mónólógar eftir Þorvald.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 20. jan. kl. 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.
Að kvöldi sama dags, kl. 22:00, verður kvöldskemmtun þar sem stórleikarar lesa úr nýútkominni bók ásamt höfundi og Sickbird leikur eigin tónlist með stórsveit, skipaðri þeim Arnari Tryggvasyni, Kristjáni Edelstein, Ingva Rafni Ingvasyni, Pálma Gunnarssyni og Togga skyttu.
Húsið verður opnað kl. 21:30 og malpokar leyfðir.
Aðgangur ókeypis, sem endranær í vinnustofu okkar.
http://poptrem.blogspot.com