Færsluflokkur: Menning og listir

Eyfirski safnadagurinn 1. maí

 

Eyfirski safnadagurinn nýtur mikilla vinsælda

Vertu gestur í heimabyggð!

Söfnin í Eyjafirði opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 1. maí. Hin síðari ár hefur þessi dagur notið mikilla vinsælda og hafa fjölskyldur og aðrir gestir nýtt tækifærið til að kynnast söfnunum á Akureyri og nágrenni, fræðast, skemmta sér og hitta mann og annan. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á fjölbreyttum, skemmtilegum og áhugaverðum söfnum í Eyjafirði. Þau munu þennan dag kynna starfsemi sína og að þessu sinni verður megin áherslan á hús. Af því tilefni verður leiðsögn um Kirkjuhvol, húsnæði Minjasafnsins á Akureyri, spjall um húsvernd og húsakönnun auk þess sem gengið verður með leiðsögn frá Minjasafninu í Friðbjarnarhús og Gamla spítala. Á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík verður fjallað um hús og jarðskjalfta. Í Gamla bænum Laufási verður örsýning á fatnaði í anda hússins, frá u.þ.b. 1900 til 1930 Á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði verða öll þrjú safnahúsin opin auk þess sem stýrishús og lúkar Týs verður opið gestum og gangandi í fyrsta sinn, byggingariðnaður á liðinni öld verður kynntur á Iðnaðarsafninu og á Safnasafninu verður, auk fjölda sýninga, gjörningur Önnu Hallin og Olgu Bergmann. Auk þess bjóða söfnin uppá margt annað áhugavert þar má til dæmis nefna flug, kveðskap, leiðsögn, myndskreytingar og fyrirlestra.

 

Fjölbreytt safnaflóra
Eftirfarandi söfn verða opin frá 11-17 og aðgangur er ókeypis: Davíðshús, Flugsafn Íslands, Friðbjarnarhús, Gamli spítalinn, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Gamli bærinn Laufás, Holt – hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey, Hús hákarla-Jörundar í Hrísey, Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar, Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Útgerðarminjasafnið á Grenivík og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Safnasafnið verður opið frá 14-18.

 

Safnarútur
Safnarúta 1:
Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 11

Fer á Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Heimkoma um 13.30.

Safnarúta 2: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 13.30.

Fer á Útgerðarminjasafnið á Grenivík og Gamla bæinn Laufás. Leiðsögumaður í ferðinni er Björn Ingólfsson. Heimkoma um 17.30.

Safnastrætó : Frá Nætursölunni kl. 13, 14, 15 og 16 á milli safnanna á Akureyri.

 

Verkefnið er afrakstur samstarfs safnafólks í Eyjafirði sem hefur unnið ötullega að því að styrkja og kynna safnastarf á Akureyri og í nágrenni. Í ár verður eyfirski safnadagurinn haldinn með pompi og prakt í fjórða sinn!

 

Dagskrá eyfirska safnadagsins í heild sinni má finna á slóðinni www.sofn.is

 

Tengiliðir: Arndís Bergsdóttir, Iðnaðarsafninu, s: 462 3600 & 699 0870 og Kristín Sóley Björnsdóttir, Minjasafninu á Akureyri, 846-5338.


Opinn fundur um stefnu í menningarmálum á Akureyri

myndlistafelagid-heil17-10_copy.jpg

Myndlistafélagið boðar til fundar með fulltrúum framboðanna til sveitastjórnarkosninga á Akureyri 2010, í Deiglunni miðvikudaginn 28. apríl kl. 20:00.

Hver er stefnan í menningarmálum?
Á að selja Ketilhúsið?
Er 50% niðurskurður á starfslaunum bæjarlistamanns réttlætanlegur?
Hvenær fer Listasafnið á efri hæðina?
Hver er heildarkostnaður við byggingu Hofs?

Fundarstjóri: Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur

ALLIR SEM LÁTA SIG GILIÐ OG MENNINGU VARÐA ERU HVATTIR TIL AÐ MÆTA

Stjórn Myndlistafélagsins


13 nýjar sýningar í Safnasafninu

syning2_1400

Á Eyfirskum safnadegi, laugardaginn 1. maí kl. 14.00, verða opnaðar 13 nýjar sýningar í Safnasafninu á Svalbarðsströnd

Á bílastæði verður afhjúpuð bifreið sem 5 félagar í Geðlist, Akureyri, hafa umbreytt og kynna undir yfirskriftinni: Inn og út um gluggann. Þessi framsetning er liður í dagskrá hátíðarinnar Listar án landamæra

Í Austursal er haldið upp á 80 ára afmæli Sólheima í Grímsnesi með fjölbreyttri sýningu, sem er framlag til Listar án landamæra og viðleitni safnsins til að halda tengslum við sérstæða listsköpun

Í Miðrými er nýstárleg safnkynning þar sem blandað er saman framsækinni nútímalist, alþýðulist, vöruhönnun, handverki, leikföngum, minnjagripum o.fl.

Í Brúðusafni er endurgerð grunnsýning með þjóðbúningabrúðum, brúðuhúsi, leikföngum og fatnaði

Í Veitingasal eru regnbogamyndir eftir börn í Leikskólanum Álfaborg, Svalbarðseyri, og leikföng sem í sólskini mynda regnboga og upplýsta litafleti

Í Vestursal er samsýning á listaverkum eftir Önnu Hallin og Olgu Bergmann,  Reykjavík. Þær fremja gjörning í garði safnsins á opnunardegi kl. 15.00.

Í Svalbarðsstrandarstofu er haldið upp á aldarafmæli Ungmennafélagsins Æskunnar með sýningu á eldri og yngri gögnum, og er sýningin afrakstur af umfangsmikilli heimildaleit, yfirlestri og frumrannsóknum - sem bíða frekari umfjöllunar og úrvinnslu

Í Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co er kynning á útsaumi Þórveigar Sigurðardóttur frá Sleitustöðum, Skagafirði, einnig á öskupokum í eigu safnsins, keyptum úr dánarbúi Halldórs Hansen barnalæknis og tónlistarunnanda, Reykjavík, útsaumaðir og málaðir af móður hans á fyrsta fjórðungi 20. aldar 

Í Bókastofu er safnsýning á málverkum eftir  Jón Ólafsson, Reykjavík, pappaskúlptúrum eftir Söru Vilbergsdóttur, Reykjavík, og sérstæðu skópari eftir Atla Viðar Engilbertsson, Akureyri

Í Langasal er sýning á tálguverkum o.fl. eftir Hálfdán Ármann Björnsson, Hlégarði í Aðaldal, máluðum steinum eftir ekkju hans, Bergljótu Benediktsdóttur, og klippimyndum eftir ömmu hans, Þóreyju Jónsdóttur

Í Norðursölum eru 3 einkasýningar, þrívíð verk eftir Þór Vigfússon, Djúpavogi, ljósmyndir af fossum eftir Rúrí, Reykjavík, og innsetning eftir Níels Hafstein, Þinghúsinu, Svalbarðsströnd

Styttur Ragnars Bjarnasonar taka svo á móti gestum á pöllunum fyrir utan eins og undanfarin ár. Unnið er að viðgerð þeirra og sjá gestir þess glögg merki

Þann 11. júlí, á Íslenskum safnadegi, verða opnaðar 2 nýjar sýningar í Norðursölum, a.v. á 80 teikningum og grafíkmyndum eftir 43 innlenda og erlenda höfunda, og h.v. á fjölfeldinu Listveislu 1, með verkum eftir 23 listakonur í Eyjafirði og á höfuðborgarsvæðinu. Listveisla 1 er gerð að frumkvæði safnsins, styrkt af Menningarsjóði kvenna (Hlaðvarpanum), Menningarráði Eyþings og Rarik

Safnasafnið er opið daglega frá 14.00 - 17.00 í maí, en 10.00 - 18.00 frá byrjun júní fram á haust, sjá nánar á www.safnasafnid.is, en þar eru einnig upplýsingar um inngangseyri, tilboð, veitingar, salaleigu, verslun, verð á íbúð, innra starf safnsins, kort og uppdrættir. Sýningaskráin verður gefin út í júní og færð inn á vefsíðu um leið.


Stjórn Myndlistarfélagsins mótmælir 50% niðurskurði Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna

box_983369.jpg


Á erfiðum tímum sem þessum er menningin mikilvægur þáttur í uppbyggingu þess samfélags sem við viljum skapa. Hún er tæki sem við getum notað til breytinga og vaxtar. Fyrir 20 árum síðan fór hópur áhugafólks um menningu af stað með framsæknar hugmyndir og nýja sókn. Listagilið varð til. Þar var áður mikill iðnrekstur á vegum Kaupfélags Eyfirðinga sem hafði flutt starfsemi sína. Sennilega er þetta eitt mesta framfaraskref í menningarmálum Akureyrarbæjar. Hugmyndir spruttu úr grasrótinni og urðu að veruleika með dyggri aðstoð bæjaryfirvalda. Allir vildu verkefninu vel og lögðu fjölmargir fram krafta sína og byggðu upp Gilið. Síðan hefur margt runnið til sjávar og er nú öflug listastarfsemi í Listagilinu.

En til þess að listin geti þjónað hlutverki sínu í okkar samfélagi sem uppspretta nýrra og frumlegra hugmynda, þarf hún frelsi til að þróast. List á ekki bara að veita ánægju, og vekja aðdáun, það er einnig hlutverk hennar að vera ögrandi, spyrja spurninga, koma á óvart og benda á það sem við hefðum annars ekki komið auga á, eða viljum jafnvel ekki koma auga á. Grundvöllur nýsköpunar og öflugs listalífs er að sem flestir taki þátt í menningarlífinu. Listin á stóran þátt í því að gera bæjarlífið spennandi, áhugavert og skemmtilegt.

Mikilvægt er að styrkveitingar bæjarins til listalífsins taki mið af því að mörkin milli listforma og ólíkra menningarheima eru í sífelldri endurskoðun. Við teljum það lykilatriði og hlutverk bæjaryfirvalda í menningarlífi að vera í góðum tengslum við grasrótina og þá sem stunda hefðbundnari listsköpun. Auk þess að styðja verkefni sem hafa sannað gildi sitt og fundið sinn farveg, þarf bærinn að hlúa að grasrótar- og tilraunastarfsemi, sem oft er vísirinn að því sem koma skal. Til þess að listalíf bæjarins geti blómstrað þarf einnig að vera fyrir hendi hentug vinnu- og sýningaraðstaða á viðráðanlegum kjörum fyrir yngri sem eldri listamenn. Þar þjónar Gilið mikilsverðu hlutverki sem staður viðburða og sköpunar.

Stjórn Myndlistarfélagsins lýsir yfir áhyggjum sínum vegna skerðingar Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna og öðrum styrkjum til menningarmála og listaverkakaupa. Við teljum brýnt á tímum sem þessum að efla frumkvæði og sköpunarkraft með öllum tiltækum ráðum.  Þá er mjög athyglisvert  að skoða sáttmála meirihlutaflokkana í ljósi niðurskurðarins.

Leiðarljós meirihlutaflokkanna í menningarmálum er menningarstefna sem gildir til ársins 2008. Markmiðið er að Akureyri verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga í menningarmálum með stuðningi ríkisvaldsins, atvinnumennska listamanna verði efld og fjölbreytni í menningar- og listastarfsemi aukin. Vilji er til að tryggja jafnan aðgang íbúa að menningarstarfsemi og sérstök áhersla lögð á þátttöku barna. Sérstök verkefni á kjörtímabilinu eru:

  • Við endurnýjun samnings við ríkið um menningarmál frá áramótum 2006 – 2007  verður lögð áhersla á aukin framlög ríkisins m.a. vegna reksturs menningarhúss og Gásaverkefnisins auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Leikfélags Akureyrar, Amtsbókasafnsins og Listasafnsins.
  • Safnastarfsemi í bænum verður efld og söfnin gerð  aðgengilegri, bæði með nútímatækni, margmiðlun og opnunartíma. Jafnframt verður hugað að uppbyggingu safna í Hrísey.
  • Framlög í Menningarsjóð verða aukin sem og vægi fastra rekstrarsamninga við einstaklinga og félagasamtök.. Samvinna við frjáls félagasamtök verður aukin, t.d. með umsjón og rekstri skýrt afmarkaðra verkefna, s.s. Listasumars, Akureyrarvöku og annarra viðburða. Framlag bæjarins í Húsverndarsjóð verður aukið til að hvetja til uppbyggingar og endurgerðar gamalla húsa
  • Lögð verður aukin áhersla á kynningarmál Akureyrarbæjar og tækifæri nýtt sem gefast þegar stórir viðburðir eru á lista- eða íþróttasviðinu eða í öðrum greinum afþreyingar. Stofnanir sveitarfélagsins og félög, sem eru samningsbundin því á einn eða annan hátt, eiga að nýta sér sameiginlegar kynningarleiðir og fá þannig aukinn slagkraft.
  • Vinabæjarsamstarf Akureyrar verður nýtt betur til að auka viðskiptatengsl, koma á fyrirtækjastefnumótum og gera samanburðarrannsóknir á búsetuskilyrðum og lífsgæðum íbúa.
  • Árlega verða sett upp  umhverfislistaverk í sveitarfélaginu í samvinnu við skapandi einstaklinga og samtök.
  • Samstarf menningarstofnana, listamanna og grunnskóla verður eflt og fé veitt í þróunarstarf á sviði sköpunar í grunnskólum. Kannaðir verða möguleikar á að halda Alþjóðlega barnamenningarviku að vori til, fyrst árið 2008.


Samt og þrátt fyrir þetta hefur komið til skerðingar á starfslaunum listamanna og öðrum styrkjum til myndlistar og listaverkakaupa. Starfslaun listamanna Akureyrarbæjar eru 190.000 þús á mánuði í formi verkatakagreiðslna og hafa verið hingað til greiddir 12 mánuðir til tveggja listamanna. Til samanburðar eru listamannalaun sem eru greidd af ríkinu 266.737 kr.  Nú á að skera þetta niður í 6 mánuði og aðeins einn listamaður hlýtur launin. Við erum öll meðvituð um stöðu mála í dag og skiljum vel að einhversstaðar þurfa að bregða hnífnum á. En við verðum að passa okkur á því að drepa ekki niður frumkvæði og viljan til framkvæmda. Akureyrarbær hefur unnið sér nafnið menningarbær og við viljum öll tryggja að svo verði áfram. En þetta eru því miður skýr skilaboð til þeirra listamanna sem búa á Akureyri. Stjórn Myndlistarfélagsins mótmælir 50% niðurskurði Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna.


Virðingarfyllst

Stjórn Myndlistarfélagsins


Aska í öskju lýkur um helgina

ade622cac828faa.jpg


Aska í öskju
SÝNING Á DUFTKERUM Í BOXinu, SAL MYNDLISTARFÉLAGSINS, LISTAGILINU, AKUREYRI.
Tuttugu og einn félagi í Leirlistarfélagi Íslands sýna fjölbreyttar gerðir af duftkerum.

Síðustu sýningardagar verða um páskahelgina, en það eru skírdagur, föstudagurinn langi, laugardagur, páskadagur og annan í páskum og opið er frá kl. 14.00 - 17.00 alla dagana.
Allir velkomnir.

Sýningin sem um ræðir ber heitið Aska Í Öskju og viðfangsefni listamannanna í félaginu eru duftker.
Duftker eru ker með ösku fólks eftir bálför. Einn af hverjum fimm Íslendingum láta brenna sig eftir andlát en erlendis er sú tala mun hærri. Félagsmenn Leirlistarfélagsins hafa gert margvíslegar útgáfur af duftkerum bæði fyrir fólk og gæludýr.
Sýningin Aska í Öskju var í Bókasafni Mosfellsbæjar í mars og apríl 2009 og ennfremur var hluti verkanna á HönnunarMars09, hér og hvar í verslunargluggum við Laugarveginn í Reykjavík. Þessi sýning á Akureyri inniheldur bæði verk frá 2009 og 2010 og er um leið hluti af HönnunarMars 2010. Félagar hafa gefið út myndabækling sem verður dreift á útfararstofur landsins þar sem hægt verður að panta íslensk  duftker gerð af leirlistarfólki.


Sýnendur eru : Anna S. Hróðmarsdóttir, Auður Inga Ingvarsdóttir, Bjarnheiður Jóhannsdóttir, Bjarni Viðar Sigurðsson, Erna Jónsdóttir, Guðrún Indriðadóttir, Hafdís Brandsdóttir, Dóra Árna, Helga (Gegga) Birgisdóttir, Hrefna Harðardóttir, Inga Elín, Katrín Valgerður Karlsdóttir, Kristbjörg Guðmundsdóttir, Margrét Jónsdóttir, Ragnheiður Ingunn Ágústsdóttir, Rannveig Tryggvadóttir, Sigríður Ágústsdóttir, Sigríður Helga Olgeirsdóttir, Steinunn Marteinsdóttir, Svafa Björg Einarsdóttir, Þóra Breiðfjörð.


Nánari upplýsingar á Akureyri : Margrét Jónsdóttir, Sigríður Ágústsdóttir, Hrefna Harðardóttir.


Jónas Viðar sýnir í Jónas Viðar Gallery

mosi_paskar_2010.jpg


Fimmtudaginn 1. apríl (Skírdag) kl. 15.00 opnar Jónas Viðar málverkasýningu
í innri sal (vestursal) í Jónas Viðar Gallery í Listagilinu.

þér og þínum er boðið

Sýningin stendur frá 1. apríl til 5. apríl


Yfirstandandi sýning í fremri sal "Ferðalangur" Þórarinn Blöndal

20. mars - 18. apríl


OPIÐ UM PÁSKA Í JÓNAS VIÐAR GALLERY

skírdag 15.00 - 18.00 föstudaginn langa 13.00 - 18.00
laugardaginn 3 apríl 13.00 - 18.00 páskadag  13.00 - 18.00
annan í páskum 13.00 - 18.00


______________________________________________

Jónas Viðar
sími: 8665021
Heimasíða: http://www.jvs.is
Jónas Viðar Gallery: http://www.jvs.is/jvgallery.htm


Rut Ingólfsdóttir sýnir ljósmyndir í Populus tremula

rut_svarthvit_mynd.jpg


Á skírdag, fimmtudaginn 2. apríl, kl. 14:00 opnar Rut Ingólfsdóttir ljósmyndasýninguna ANNARS KONAR LANDSLAG í Populus tremula.
Rut hefur fengist við ljósmyndun árum saman, tekið þátt í sýningum og stundar nú nám í grafískri hönnun við Listaháskóla Íslands. Á sýningunni eru þrjár myndraðir sem ganga út frá mismunandi þáttum.

Sýningin verður opin alla páskahelgina frá kl. 14:00-17:00.


Kristján Pétur Sigurðsson opnar sýninguna “Rauðaþögn á ferð og flugi“ á Café Karólínu

_burstafelli_1.jpg

 

Kristján Pétur Sigurðsson            

 

Rauðaþögn á ferð og flugi

 

03.04.10 - 30.04.10

 

Café Karólína // Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755

 

 

Kristján Pétur Sigurðsson opnar sýninguna “Rauðaþögn á ferð og flugiá Café Karólínu laugardaginn 3. apríl klukkan 15.

 

Sýningin samanstendur af ljósmyndum, sem teknar eru af litlum skúlptúr (Rauðaþögn), hér og þar á ferðinni um landið ísa.

Kristján Pétur byrjaði á þessu ljósmyndaverkefni fyrir þremur árum og því lýkur seint.

Þessi sýning er sú fyrsta af nokkrum fyrirhuguðum með sömu yfirskrift og yrkisefni.

Kristján Pétur er að mestu sjálfmenntaður í listinni, en hefur undanfarin ár sýnt oft einn eða með öðrum og einkum í Listagilinu og nágrenni.

Nánari upplýsingar veitir Kristján Pétur í síma 895 9546 eða tölvupósti: strandkp(hjá)simnet.is

 

Sýningin stendur til föstudagsins 30. apríl og allir eru velkomnir.

 

Næstu sýningar á Café Karólínu:

 01.05.10 - 04.06.10          List án landamæra

05.06.10 - 02.07.10           Hanna Hlíf Bjarnadóttir

03.07.10 - 06.08.10           Hrefna Harðardóttir

07.08.10 - 03.09.10           Arnþrúður Dagsdóttir

04.09.10 - 01.10.10           Margrét Buhl


Þórarinn Blöndal sýnir í Jónas Viðar Gallery

Laugardaginn 20. mars kl 15.00 opnar Þórarinn Blöndal myndlistarsýningu í Jónas Viðar Gallery í Listagilinu á Akureyri.


Sýningin ber yfirskriftina "Ferðalangur" (innsetning skúlptúrar teikningar og ljósmyndir) og stendur frá 20. mars til 18. apríl og er opin á laugardögum frá kl 13.00 til 18.00 eða eftir samkomulagi við Þórarinn...

______________________________________________

Jónas Viðar
sími: 8665021
Heimasíða: http://www.jvs.is
Jónas Viðar Gallery: http://www.jvs.is/jvgallery.htm


Umsóknarfrestur um Starfslaun listamanna á Akureyri rennur út 19. mars

sitelogo


Stjórn Akureyrarstofu auglýsir eftir umsóknum listamanna um starfslaun fyrir tímabilið 1. júní 2010 til 31. maí 2011. Starfslaunum verður úthlutað til eins listamanns og hlýtur viðkomandi sex mánaða laun. Ætlast er til að að listamaðurinn helgi sig list sinni eða einstökum verkefnum á vettvangi hennar á starfslaunatímanum og einungis listamenn sem eiga lögheimili á Akureyri koma til greina.
Umsækjendur skili, ásamt umsókn, upplýsingum um listferil sinn og greinargóðum upplýsingum um hvernig starfslaunatíminn skal notaður. Umsóknum skal skilað í þjónustuanddyri ráðhússins að Geislagötu 9. Nánari upplýsingar veitir Hulda Sif Hermannsdóttir verkefnisstjóri viðburða- og menningarmála hjá Akureyrarstofu í netfanginu huldasif@akureyri.is.
Fyrir tímabilið 2009-2010 hlutu Guðný Kristmannsdóttir myndlistarkona og Björn Þórarinsson tónlistarmaður starfslaun til að sinna list sinni í sex mánuði hvort.
Umsóknarfrestur er til og með 19. mars nk.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband