Færsluflokkur: Menning og listir
6.5.2011 | 15:31
Opnanir í Safnasafninu
Laugardaginn 7. maí kl. 14 verða opnaðar margar nýjar sýningar í Safnasafninu Svalbarðsströnd.
Þrenningarsjálfsmynd Sölva Helgasonar: Hreinlífur, Skírlífur, Dagbjartur. Þjóðminjasafn Íslands. Þjms. 8839
Ég er gull og gersemi,
gimsteinn elskuríkur.
Ég er djásn og dýrmæti,
Drottni sjálfum líkur.
Í Vestursal er sýning á myndverkum Sölva Helgasonar (1820 1895).
Sölvi Helgason, eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið, heillandi utangarðsmaður í lífshlaupi sínu og listsköpun.
Flakkari, fræðimaður og listamaður, en líka kenjóttur sérvitringur sem fór á svig við mannanna lög og reglur. Hann ferðaðist um landið með allt sitt hafurtask á bakinu, samanbrjótanlegt borð, bækur og málunargræjur, gisti á bæjum og skildi stundum eftir blómaflúraða mynd í þakkarskyni.
Er sýningin á verkum Sölva unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands sem geymir eitt stærsta safn mynda eftir Sölva, en einnig eru nokkur verk fengin frá Landsbókasafninu og Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.
Þessi sýning er þáttur í verkefninu Söfn í söfnum, þar sem verk úr safneign eins safns eru sýnd í öðru safni, til að varpa ljósi á menningarsöguleg tengsl safnanna.
Í Austursal er sýning á verkum Katrínar Jósepsdóttur, eða Kötu saumakonu, þær eru fengnar að láni frá Listasafni Akureyrar í tengslum við verkefnið Söfn í söfnum, en 2. júlí mun svo opna sýning Safnasafnsins í Listasafni Akureyrar.
Veggmynd máluð með blaðgrænu eftir Elsu Dórótheu Gísladóttur.
Í Svalbarðsstrandarstofu er innsetning Elsu Dórótheu Gísladóttur, en hennar sýning teygir sig út í gróðurreitinn við hlið Safnasafnsins, sem fagnar 100 ára afmæli í ár. Verk Elsu Dórótheu fjallar um gróður jarðar og lífsorkuna og er að hluta unnin með íbúum sveitarfélagsins og skólabörnum. Á opnunardaginn mun Elsa Dóróthea planta eplatrjám.
Í Norðursölum sýnir Hreinn Friðfinnsson innsetningu með bergkristöllum, steingervingum og sérstakri, syngjandi tíðniskál, Andrea Maack sýnir teikningar og Erla Þórarinsdóttir sýnir olíumálverk og granítskúlptúra.
Í Langasal sýnir Ragnhildur Stefánsdóttir innsetningu með verkum úr gifsi, gúmmíi og silíkoni, form sem byggja á líkama mannsins og líffærum.
Aðrir sýnendur eru Úlfar Sveinbjörnsson með útskorna fugla, Guðný Guðmundsdóttir með klippimyndir, Atli Viðar Engilbertsson með fólk úr pappa, Helgi Björnsson með tálgað fólk og húsdýr, Gloría López með útsaum, Björn Guðmundsson með útskorið og málað fólk, Hálfdán Ármann Björnsson með birkifólk og nemendur úr Hrafnagilsskóla sýna blómaskúlptúra undir áhrifum frá Sölva Helgasyni.
Í endurgerðri verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar verða sýndar hannyrðir eftir Jóhönnu Níelsdóttur og Jóhönnu Bjarnadóttur, en margt áhugaverðra muna leynist í hirslum verslunarinnar sem forvitnilegt er að skoða.
Að venju er svo sýning á skúlptúrum Ragnars Bjarnasonar, úrvali brúða úr Brúðusafninu og fjöldi annarra gripa úr safneign, í nýstárlegum myndheimum þar sem blandað er saman ólíkum hlutum úr fjölbreytilegum efnum svo úr verður ein heild.
Safnasafnið er opið daglega yfir sumarmánuðina frá 14 17, leiðsögn ef óskað er.
6.5.2011 | 11:57
Sýningin "Góðgæti" opnar í sal Myndlistarfélagsins
"Góðgæti" er sýning á verkum nemenda í Oddeyrarskóla á Akureyri sem verður opnuð laugardaginn kl. 14:00 í Sal Myndlistarfélagsins einnig verður þar listasmiðja fyrir börn.
í BOXI sýnir Aðalheiður S. Eysteinsdóttir lágmyndir.
Í glerskáp eru leikföng frá Leikfangasafninu Friðbjarnarhúsi.
ALLIR VELKOMNIR!
Mjólkurbúðin Fjöllótt
Dagrún Matthíasdóttir opnar myndlistarsýninguna Fjöllótt laugardaginn 7.maí kl.14. Á sýningunni eru olíumálverk og vatnslitaskissur.
Dagrún Matthíasdóttir rekur Mjólkurbúðina sem er sýningarými í Listagilinu á Akureyri, í sama húsi og Listasafnið á Akureyri. Áður var hún annar eigenda DaLí Gallery á Akureyri og hefur verið virkur þáttakandi í sýningarhaldi, haldið einkasýningar og tekið þátt í hinum ýmsu samsýningum auk þess sem hún starfar í stjórn Myndlistarfélagins.
Sýningin Fjöllótt stendur til 22.maí og allir velkomnir
Mjólkurbúðin Listagili er opin:
Laugardaga og sunnudaga kl.14-17 meðan sýningar standa yfir. Hægt er að taka á móti hópum eftir samkomulagi þess utan.
Nánari upplýsingar:
Mjólkurbúðin Dagrún Matthíasdóttir s.8957173
dagrunm@snerpa.is
Þann 7. maí opnar Listasafnið á Akureyri sérstaklega spennandi sýningu sem er yfirlitssýning á verkum Kristínar Gunnlaugsdóttur. Undanfarið hefur Kristín leitað nýrra leiða til að opna myndheim sinn og í myndlist hennar hafa orðið róttækar breytingar. Hún hefur lagt olíumálverkið á hilluna, í bili að minnsta kosti, og snúið sér að útsaum á striga.
Kristín útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1987 og fór þá beint í framhaldsnám til Ítalíu. Þar lærði hún m.a. íkonagerð í klaustri í Róm og stundaði nám í Ríkisakademíunni í Flórens árin 1988-1993. Kristín hefur síðustu 15 árin haldið margar einkasýningar og tekið þátt í mörgum sýningum, hér heima og erlendis. Hún hefur hlotið ýmsa styrki og viðurkenningar og hlotið nokkrum sinnum listamannalaun frá Menntamálaráðuneytinu, síðast árið 2009. Hún hefur verið valin bæjarlistamaður Akureyrar og einnig bæjarlistamaður Seltjarnarness 2008.
Eftir Kristínu má finna verk í eigu helstu listasafna landsins, opinberra stofnana, kirkna, m.a. sem altaristöflur og fjölda einstaklinga. Verk hennar hafa gegnum tíðina verið aðallega stór málverk á striga, eggtemperur á tré, íkonar og teikningar. Námsárin voru lituð af áherslum samtímalistar og minimalisminn var allsráðandi. Sunnar í álfunni kynntist Kristín ólíkum stefnum og hugmyndaheimur miðevrópskrar miðaldahefðar varð sá skóli sem hafði einna mest mótunaráhrif á hana. Djúpstæður áhugi á dýpt vitundarinnar hefur verið undirliggjandi tónn í verkum hennar, aðskilnaður mannsins við Guð, einsemd hans og leit.
Kristín var bæjarlistamaður Akureyrar 1996-1997. Hún hefur haldið fjölda sýninga og hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína. Kristín fæddist á Akureyri árið 1963 en býr nú og starfar á Seltjarnanesi.
Kaupvangsstræti 12 600 Akureyri Sími: +354 461 2610 GSM: +354 844 1555 |
2.5.2011 | 10:01
Ragnar Hólm sýnir vatnslitamyndir í Populus tremula

Laugardaginn 7. maí kl. 14:00 opnar Ragnar Hólm sýningu á nýjum vatnslitamyndum í Populus tremula. Meginstef myndanna er ljós og skuggar í náttúru Eyjafjarðar þótt leikurinn með ljósið berist víðar. Þetta er önnur einkasýning Ragnars.
Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 8. maí kl. 14:00-17:00. Aðeins þessi eina helgi.
28.4.2011 | 16:54
Vöknun - sýningarlok í Listasafninu á Akureyri
Sunnudaginn 1. maí kl. 17 lýkur sýningunni Vöknun í Listasafninu á Akureyri.
Á sýningunni eru verk eftir Katrínu Elvarsdóttur og Pétur Thomsen. Tvo myndlistarmenn sem hafa valið sér ljósmyndina sem miðil og virðast á stundum hafa allt að því fullkomna stjórn á miðlinum, í það minnsta upp að því marki sem raunverulega er mögulegt að hafa stjórn á honum.
Með því að stilla verkum þeirra Péturs og Katrínar upp hlið við hlið er athygli áhorfenda beint að einu þeirra einkenna ljósmyndarinnar sem gerir hana að áhugaverðum listmiðli. Verk þeirra tala beint inn í umræðu samtímans um mörk veruleika og þess sem stendur utan hans, um tilbúinn heim og raunverulegan, um einstaklinginn, manninn og menninguna andspænis náttúrunni. Þrátt fyrir að myndefnin, og þar með tilgangur listamannanna, séu við fyrstu sýn ólík, eiga þau Pétur og Katrín það sameiginlegt að snerta veruleikann undur varlega í verkum sínum.
Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) hefur á síðustu árum haft mótandi áhrif á stöðu ljósmyndarinnar innan íslenskrar samtímalistar. Sýningar hennar hafa vakið verðskuldaða athygli og orðið tilefni til umræðna um stöðu og möguleika ljósmyndarinnar sem listmiðils. Katrín er með BFA gráðu frá Art Institute í Boston í Bandaríkjunum.
Pétur Thomsen (f. 1973) hefur vakið athygli, bæði á Íslandi og erlendis, fyrir verk sem fjalla um manninn andspænis, og í náttúrunni, og tilraunir hans til að móta og breyta náttúru í manngert umhverfi. Pétur er með MFA gráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie í Arles í Frakklandi. Bæði hafa þau haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víða um heim.
Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl 12-17. Nánari upplýsingar í síma 461-2610 eða tölvupóst art@art.is
Kaupvangsstræti 12 600 Akureyri Sími: +354 461 2610 GSM: +354 844 1555 |
Lára Stefánsdóttir
Himinn og jörð
Menningarhúsið Berg, Dalvík
30. apríl - 17. maí 2011
Opnun laugardaginn 30. apríl kl. 14-17
Hugmynd að verkefninu himinn og jörð vaknaði þegar ég var að fara í starfsviðtal til Ólafsfjarðar í janúar 2010. Ég staldraði við í Múlanum og þar blasti Grímsey við en þangað hafði ég komið og notið þess að skoða fallegt landslagið heimsækja góða vini og njóta. En frá Múlanum séð var Grímsey lítill blettur á sjóndeildarhingnum og svo ógnarlítill hluti veraldarinnar á sama tíma og hún er land þeirra sem búa þar og starfa. Sjálf stóð ég að því er mér fannst hátt uppi í Múlanum en vissi að Múlinn er ógnarsmár séður frá Grímsey. Það sem eftir lifði ársins kannaði ég með myndavélinni samhengi himins og jarðar víða á landinu. Staðirnir eru til þó ég sé ekki þar, þeir eru þeim stórir sem búa þar eða horfa upp á þá en þeim smáir sem langt eru frá. Jafnvel hæstu fjöll verða smá allt eftir því hvernig horft er á þau og þá sérstaklega í samhengi við himininn.
Segja má að þessi ljósmyndasería sé óður til himins og jarðar en á sama tíma áminning um að þau viðfangsefni sem virðast okkur stór í núinu eru ef til vill smá þegar við fjarlægjumst þau.
Lára Stefánsdóttir, lara@lara.is, www.lara.is 896-3357
26.4.2011 | 13:36
Jude Griebel sýnir í Populus Tremula

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 1. maí kl. 14-17. Aðeins þessi eina helgi.
Slóðir Gunnhildur Þórðardóttir 9. 24. apríl í Mjólkurbúðinni
Listamannsspjall og sýningarlok
Mynd af verkunum á sýningunni
Laugardag 9. apríl síðastliðinn var sýningin Slóðir, verk eftir
Gunnhildi Þórðardóttur, opnuð í Mjólkurbúðinni á Akureyri. Á sýningunni eru málverk, grafíkverk og skúlptúrar sem sækja sér innblástur í hin mismunandi ferðalög lífsins þar sem maðurinn skilur eftir sig spor og tengsl myndast við umhverfið á mismunandi stað og tíma. Listamaðurinn nálgast hugðarefnið meðal annars á persónulegan hátt með skírskotun í æskuslóðir sínar í Keflavík. Verkin kallast á en við nánari skoðun eru þau ólík enda gerð úr mismunandi efnivið. Gunnhildur lauk BA (HONS) í listasögu og fagurlistum frá Listaháskólanum í Cambridge árið 2003 og MA í liststjórnun frá sama skóla árið 2006. Hún hefur haldið nokkrar einkasýningar nú síðast örsýninguna Hulduorka á Skörinni í Handverk og hönnun en áður hefur hún sýnt í sal Íslenskrar Grafíkur í Hafnarhúsinu, í Suðsuðvestur og í Danmörku og Englandi. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum bæði á Íslandi og erlendis m.a. í Norræna húsinu, Hafnarborg, Þjóðminjasafninu, galleríBOXi, samsýningum Íslenskrar Grafíkur í Þýskalandi og í Cambridge ásamt KIC Art listahópnum. Gunnhildur starfaði með lista- og hönnunarfyrirtækinu Lúka Art & Design og hefur unnið lengi fyrir félagið Íslensk Grafík auk þess að vera meðlimur í SÍM. Verkin eru til sölu og eru allir velkomnir. Sýningunni lýkur næstkomandi sunnudag 24. apríl og verður listamaðurinn á staðnum til viðtals en sýningin verður opin laugardag og sunnudag 14-17. Mjólkurbúðin er staðsett í Listagilinu, Kaupvangsstræti 12 þar sem áður var gallerí Jónasar Viðars.
Nánari upplýsingar veitir Gunnhildur í síma 898 3419 og á:
http://www.umm.is/UMMIS/Listamenn/Listamadur/722
http://www.saatchi-gallery.co.uk

Menning og listir | Breytt s.d. kl. 13:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.4.2011 | 09:16
Birgir Sigurðsson sýnir í Populus tremula

Sýningin er ljósinnsetning þar sem við sögu koma þríhjól og flúrperur.
Birgir býður gestum í ferðalag með samspili þessara ólíku hluta.
Sýningin verður opin alla páskana. Aðeins þessi einu helgi.