Færsluflokkur: Dægurmál

Vorsýning Myndlistaskólans á Akureyri frá fimtudegi til sunnudags

helgi.jpg


Þrítugasta og sjötta starfsári Myndlistaskólans á Akureyri lýkur með veglegri sýningu á verkum nemenda í húsnæði skólans. Sýnd verða verk nemenda fornámsdeildar, listhönnunar- og fagurlistadeildar. Þar gefur að líta sýnishorn af því helsta sem nemendur hafa verið að fást við í myndlist og hönnun á þessu skólaári.

Alls stunduðu sextíu og fjórir nemendur nám í dagdeildum skólans og af þeim munu tuttugu og átta brautskrást frá skólanum að þessu sinni.

Einnig verða sýnd verk eftir nemendur sem voru á barnanámskeiðum á vorönn. Allir eru hjartanlega velkomnir í Myndlistaskólann á Akureyri sýningardagana.

Opnunartími kl. 14:00 til 18:00 frá fimtudegi til sunnudags.
Heimasíða skólans: www.myndak.is


VORSÝNING 2010

Myndlistaskólinn á Akureyri.
Opin helgina 13. - 16. maí kl. 14:00 - 18:00
Sýningarstaður: Kaupvangsstræti 16

Kveðja úr Myndlistaskólanum á Akureyri,

Helgi Vilberg
Myndlistaskólinn á Akureyri
http://www.myndak.is


Innlyksa, sýning Hlífar Ásgrímsdóttur verður opnuð laugardaginn 15. maí kl. 14.00 í BOXinu, stóra sýningarsal Myndlistarfélagsins

myndir_f_akureyri_002.jpg

 

Sýningin Innlyksa opnar  15. maí og lýkur 6. júní. Hún er opin um helgar og Hvítasunnuhelgina frá kl.14.00 - 17.00.  Einnig opið fyrstu vikuna eftir opnun alla virka daga frá kl.16.00 - 18.00.  Allir hjartanlega velkomnir og aðgangur ókeypis.

 

Síðustu ár hefur Hlíf Ásgrímsdóttir sýnt verk sem taka mið af sýningarými og umhverfi sýningastaða. Hlíf hefur kallað þær sýningar, Innivera, Innilokun, Innihorn, Innskot, Innviðir. Myndir teknar af sýningarými, málaðar eftir ljósmyndum en hversdagslegum hlutum bætt inn í rýmið, því hlutir yfirgefnir í rými minna ávalt á tilveru fólks. Á þessari sýningu, Innlyksa, hefur Hlíf sett inn í sýningarýmið og myndirnar rúlluplast sem alstaðar er hægt að finna í náttúrunni. Þá eru nokkrar vatnslitaðar ljósmyndir sem hún tók í Brekkunni á Akureyri þar sem greina má plast í þúfum og grasi. Það getur verið erfitt að koma auga á plastið því með tímanum veðrast það og tekur á sig liti sem sjá má í náttúrunni í kring. Í stóru vatnslitaverkunum lætur Hlíf plast verða innlyksa í ímynduðu rými. Innlyksa er skírskotun í að stöðvast eða teppast einhvers staðar. Engan langar til að við sem þjóð verðum innlyksa í brostnu samfélagi eða innilokuð af skömm og í ráðaleysi.

 

Hlíf Ásgrímsdóttir stundaði nám í Myndlista og handíðaskóla Íslands 1987-1991 og framhaldsnám við Listaakademíuna í Helsinki Finnlandi 1994-1996.

 

Hlíf Ásgrímsdóttir hefur haldið fjórtán einkasýningar og tekið þátt í þrjátíu samsýningum bæði hér heima og erlendis. 


Dansgjörningurinn “Sláturhús hjartans” í Verksmiðjunni á Hjalteyri

 anna_989515.jpg


 

Laugardaginn 15. maí n.k. verður frumfluttur dansgjörningurinn “Sláturhús hjartans” í listrými Verksmiðjunnar á Hjalteyri við Eyjafjörð. Sýningin hefst kl. 17:00.

Höfundar verksins eru Anna Richards dansgjörningalistakona og Sigurbjörg Eiðsdóttir myndlistakona.

Flytjandi verksins er Anna Richards en í verkinu koma fram, auk Önnu, Hallgrímur J. Ingvason tónlistamaður, Helga Rós Indriðadóttir sópransöngkona, Sigurður Hólm Sæmundsson björgunarsveitamaður og Karlakór Dalvíkur undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Sviðsstýra og ljósmóðir verksins er Lene Zachariassen.

Í verkinu er fjallað um ferðalag mannveru innan völundarhúss hjarta síns og þau átök  sem þar eiga sér stað og leiða hana í gegnum ferli ástríðna, uppgjafar, ótta, skilnings og umbreytinga.

Umgjörð verksins er unnin inn í rými gömlu síldarbræðslunnar á Hjalteyri og er áhorfendum frjálst að færa sig til í rýminu á meðan á flutningi verksins stendur því einnig er hægt að fylgjast með verkinu af annarri hæð hússins.

Tónlist í verkinu er að hluta frumsamin og flutt sem spunaverk þar sem dansari og tónlistarmenn spinna saman.

Rúta fer frá Listasafninu á Akureyri kl. 16:30

Enginn aðgangseyrir.

Kaffi Lísa á Hjalteyri er opið.

Verkið hlaut styrk frá Leiklistarráði Íslands og Menntamálaráðuneyti 2010 og frá Menningarráði Eyþings.

www.verksmidjan.blogspot.com

Nánari upplýsingar gefur Anna í síma 863 1696

http://www.facebook.com/pages/Verksmidjan-a-Hjalteyri/92671772828?ref=ts


Samkeppni um tákn fyrir gildi þjónustustefnu Akureyrarbæjar


sitelogo

Þjónustustefna Akureyrarbæjar var nýlega samþykkt í bæjarstjórn. Mikilvægt er að starfsfólk bæjarins þekki stefnuna og tileinki sér hana í störfum sínum.  Kynning á stefnunni fer nú fram á vinnustöðum Akureyrarbæjar.
Til að gera þjónustustefnuna sýnilegri er nú efnt til samkeppni um tákn fyrir hvert og eitt gildi hennar. Táknið verður að lýsa gildinu á myndrænan hátt.
Gildin þjónustustefnunnar eru fagleg, lipur og traust
Samkeppnin hefst 1. maí og stendur til 15. maí.
    •    Samkeppnin er öllum opin, bæði einstaklingum og hópum.
    •    Senda má inn í samkeppnina hvers konar myndræna framsetningu (ljósmyndir,  teikningar o.s.frv.).
    •    Vinningstillögurnar verða notaðar í kynningum og framsetningu á þjónustustefnunni og verða eign Akureyrarbæjar.
    •    Tillögum skal skila inn rafrænt á netfangið gildin3@akureyri.is
    •    Verðlaun verða veitt fyrir bestu hugmyndirnar.
Þjónustustefnuna er hægt að nálgast á starfsmannahandbókinni á heimasíðu Akureyrarbæjar: www.akureyri.is/starfsmannahandbok
Nú er tækifærið til að leyfa hugmyndafluginu að njóta sín!
Allir eru hvattir til þátttöku.

Starfshópur um innleiðingu á þjónustustefnu Akureyrarbæjar.
Dagný M. Harðardóttir, skrifstofustjóri Ráðhúss
Hólmkell Hreinsson, amtsbókavörður
Ingunn H. Bjarnadóttir, verkefnastjóri starfsþróunar
Ólafur Örn Torfason, forstöðumaður á búsetudeild
Ragnheiður Lilja Bjarnadóttir, aðstoðarskólastjóri Oddeyrarskóla


„Samverk“ sýning nemenda Fjölmenntar á Akureyri verður opnuð í Café Karólínu laugardaginn 8. maí kl. 17

p3290296.jpg

Aðalheiður Arnþórsdóttir, Anna Ragnarsdóttir, Elma Stefánsdóttir, Guðrún Káradóttir, Heiðar H. Bergsson, Ingimar Valdimarsson, Jón Kristinn Sigurbjörnsson, Jón Óskar Ísleifsson, Magnús Ásmundsson, Nanna Kristín Antonsdóttir, Pétur Ágúst Pétursson, Sigrún Baldursdóttir, Sigrún Ísleifsdóttir, Símon H. Reynisson, Sævar Örn Bergsson, Þorsteinn Sigurbjörnsson og Örn Arason.  

Samverk

08.05.10 - 04.06.10

Café Karólína // Kaupvangsstræti 23 // IS 600 Akureyri // 4612755

---

„Samverk“ sýning nemenda Fjölmenntar á Akureyri verður opnuð í Café Karólínu laugardaginn  8. maí kl. 17:00. 

 

17 nemendur Fjölmenntar setja saman sýninguna “Samverk” sem verður opnuð í Café Karólínu laugardaginn  8. maí kl. 17:00. Myndlistarmennirnir og kennararnir Dögg Stefánsdóttir og Inga Björk Harðardóttir hafa umsjón með sýningunni sem er hluti af hátíðinni “List án landamæra” sem nú stendur yfir um allt land. Þátttakendur í sýningunni eru: Aðalheiður Arnþórsdóttir, Anna Ragnarsdóttir, Elma Stefánsdóttir, Guðrún Káradóttir, Heiðar H. Bergsson, Ingimar Valdimarsson, Jón Kristinn Sigurbjörnsson, Jón Óskar Ísleifsson, Magnús Ásmundsson, Nanna Kristín Antonsdóttir, Pétur Ágúst Pétursson, Sigrún Baldursdóttir, Sigrún Ísleifsdóttir, Símon H. Reynisson, Sævar Örn Bergsson, Þorsteinn Sigurbjörnsson og Örn Arason.                 

“List er tjáning. Nemendur Fjölmenntar sem sækja um námskeið í myndlist finna gleði í að tjá sig í myndsköpun. Á þessari sýningu fáum við að kynnast listsköpun einstaklinga með mismunandi forsendur. Afreksturinn er áhugaverður og sannarlega þess virði að upplifa.”

 

Meðfylgjandi mynd er af verki á sýningunni.

Nánari upplýsingar veitir Dögg í síma 694 5307 eða tölvupósti: dogg(hjá)krummi.is og Inga í síma 862 1094 eða tölvupósti: ingabh(hjá)simnet.is

Sýningin stendur til föstudagsins 4. júní og allir eru velkomnir.

 

Næstu sýningar á Café Karólínu:

05.06.10 - 02.07.10                  Hanna Hlíf Bjarnadóttir

03.07.10 - 06.08.10                  Hrefna Harðardóttir

07.08.10 - 03.09.10                  Arnþrúður Dagsdóttir

04.09.10 - 01.10.10                  Margrét Buhl


Eyfirski safnadagurinn 1. maí

 

Eyfirski safnadagurinn nýtur mikilla vinsælda

Vertu gestur í heimabyggð!

Söfnin í Eyjafirði opna dyr sínar fyrir gestum og gangandi laugardaginn 1. maí. Hin síðari ár hefur þessi dagur notið mikilla vinsælda og hafa fjölskyldur og aðrir gestir nýtt tækifærið til að kynnast söfnunum á Akureyri og nágrenni, fræðast, skemmta sér og hitta mann og annan. Markmiðið með deginum er að vekja athygli á fjölbreyttum, skemmtilegum og áhugaverðum söfnum í Eyjafirði. Þau munu þennan dag kynna starfsemi sína og að þessu sinni verður megin áherslan á hús. Af því tilefni verður leiðsögn um Kirkjuhvol, húsnæði Minjasafnsins á Akureyri, spjall um húsvernd og húsakönnun auk þess sem gengið verður með leiðsögn frá Minjasafninu í Friðbjarnarhús og Gamla spítala. Á Byggðasafninu Hvoli á Dalvík verður fjallað um hús og jarðskjalfta. Í Gamla bænum Laufási verður örsýning á fatnaði í anda hússins, frá u.þ.b. 1900 til 1930 Á Síldarminjasafni Íslands á Siglufirði verða öll þrjú safnahúsin opin auk þess sem stýrishús og lúkar Týs verður opið gestum og gangandi í fyrsta sinn, byggingariðnaður á liðinni öld verður kynntur á Iðnaðarsafninu og á Safnasafninu verður, auk fjölda sýninga, gjörningur Önnu Hallin og Olgu Bergmann. Auk þess bjóða söfnin uppá margt annað áhugavert þar má til dæmis nefna flug, kveðskap, leiðsögn, myndskreytingar og fyrirlestra.

 

Fjölbreytt safnaflóra
Eftirfarandi söfn verða opin frá 11-17 og aðgangur er ókeypis: Davíðshús, Flugsafn Íslands, Friðbjarnarhús, Gamli spítalinn, Iðnaðarsafnið á Akureyri, Minjasafnið á Akureyri, Nonnahús, Sigurhæðir, Byggðasafnið Hvoll á Dalvík, Gamli bærinn Laufás, Holt – hús Öldu Halldórsdóttur í Hrísey, Hús hákarla-Jörundar í Hrísey, Náttúrugripasafn Ólafsfjarðar, Síldarminjasafn Íslands á Siglufirði, Smámunasafn Sverris Hermannssonar, Útgerðarminjasafnið á Grenivík og Þjóðlagasetur sr. Bjarna Þorsteinssonar á Siglufirði. Safnasafnið verður opið frá 14-18.

 

Safnarútur
Safnarúta 1:
Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 11

Fer á Smámunasafn Sverris Hermannssonar. Heimkoma um 13.30.

Safnarúta 2: Frá Upplýsingamiðstöð ferðamanna, Hafnarstræti 82, kl. 13.30.

Fer á Útgerðarminjasafnið á Grenivík og Gamla bæinn Laufás. Leiðsögumaður í ferðinni er Björn Ingólfsson. Heimkoma um 17.30.

Safnastrætó : Frá Nætursölunni kl. 13, 14, 15 og 16 á milli safnanna á Akureyri.

 

Verkefnið er afrakstur samstarfs safnafólks í Eyjafirði sem hefur unnið ötullega að því að styrkja og kynna safnastarf á Akureyri og í nágrenni. Í ár verður eyfirski safnadagurinn haldinn með pompi og prakt í fjórða sinn!

 

Dagskrá eyfirska safnadagsins í heild sinni má finna á slóðinni www.sofn.is

 

Tengiliðir: Arndís Bergsdóttir, Iðnaðarsafninu, s: 462 3600 & 699 0870 og Kristín Sóley Björnsdóttir, Minjasafninu á Akureyri, 846-5338.


Opinn fundur um stefnu í menningarmálum á Akureyri

myndlistafelagid-heil17-10_copy.jpg

Myndlistafélagið boðar til fundar með fulltrúum framboðanna til sveitastjórnarkosninga á Akureyri 2010, í Deiglunni miðvikudaginn 28. apríl kl. 20:00.

Hver er stefnan í menningarmálum?
Á að selja Ketilhúsið?
Er 50% niðurskurður á starfslaunum bæjarlistamanns réttlætanlegur?
Hvenær fer Listasafnið á efri hæðina?
Hver er heildarkostnaður við byggingu Hofs?

Fundarstjóri: Birgir Guðmundsson, stjórnmálafræðingur

ALLIR SEM LÁTA SIG GILIÐ OG MENNINGU VARÐA ERU HVATTIR TIL AÐ MÆTA

Stjórn Myndlistafélagsins


13 nýjar sýningar í Safnasafninu

syning2_1400

Á Eyfirskum safnadegi, laugardaginn 1. maí kl. 14.00, verða opnaðar 13 nýjar sýningar í Safnasafninu á Svalbarðsströnd

Á bílastæði verður afhjúpuð bifreið sem 5 félagar í Geðlist, Akureyri, hafa umbreytt og kynna undir yfirskriftinni: Inn og út um gluggann. Þessi framsetning er liður í dagskrá hátíðarinnar Listar án landamæra

Í Austursal er haldið upp á 80 ára afmæli Sólheima í Grímsnesi með fjölbreyttri sýningu, sem er framlag til Listar án landamæra og viðleitni safnsins til að halda tengslum við sérstæða listsköpun

Í Miðrými er nýstárleg safnkynning þar sem blandað er saman framsækinni nútímalist, alþýðulist, vöruhönnun, handverki, leikföngum, minnjagripum o.fl.

Í Brúðusafni er endurgerð grunnsýning með þjóðbúningabrúðum, brúðuhúsi, leikföngum og fatnaði

Í Veitingasal eru regnbogamyndir eftir börn í Leikskólanum Álfaborg, Svalbarðseyri, og leikföng sem í sólskini mynda regnboga og upplýsta litafleti

Í Vestursal er samsýning á listaverkum eftir Önnu Hallin og Olgu Bergmann,  Reykjavík. Þær fremja gjörning í garði safnsins á opnunardegi kl. 15.00.

Í Svalbarðsstrandarstofu er haldið upp á aldarafmæli Ungmennafélagsins Æskunnar með sýningu á eldri og yngri gögnum, og er sýningin afrakstur af umfangsmikilli heimildaleit, yfirlestri og frumrannsóknum - sem bíða frekari umfjöllunar og úrvinnslu

Í Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co er kynning á útsaumi Þórveigar Sigurðardóttur frá Sleitustöðum, Skagafirði, einnig á öskupokum í eigu safnsins, keyptum úr dánarbúi Halldórs Hansen barnalæknis og tónlistarunnanda, Reykjavík, útsaumaðir og málaðir af móður hans á fyrsta fjórðungi 20. aldar 

Í Bókastofu er safnsýning á málverkum eftir  Jón Ólafsson, Reykjavík, pappaskúlptúrum eftir Söru Vilbergsdóttur, Reykjavík, og sérstæðu skópari eftir Atla Viðar Engilbertsson, Akureyri

Í Langasal er sýning á tálguverkum o.fl. eftir Hálfdán Ármann Björnsson, Hlégarði í Aðaldal, máluðum steinum eftir ekkju hans, Bergljótu Benediktsdóttur, og klippimyndum eftir ömmu hans, Þóreyju Jónsdóttur

Í Norðursölum eru 3 einkasýningar, þrívíð verk eftir Þór Vigfússon, Djúpavogi, ljósmyndir af fossum eftir Rúrí, Reykjavík, og innsetning eftir Níels Hafstein, Þinghúsinu, Svalbarðsströnd

Styttur Ragnars Bjarnasonar taka svo á móti gestum á pöllunum fyrir utan eins og undanfarin ár. Unnið er að viðgerð þeirra og sjá gestir þess glögg merki

Þann 11. júlí, á Íslenskum safnadegi, verða opnaðar 2 nýjar sýningar í Norðursölum, a.v. á 80 teikningum og grafíkmyndum eftir 43 innlenda og erlenda höfunda, og h.v. á fjölfeldinu Listveislu 1, með verkum eftir 23 listakonur í Eyjafirði og á höfuðborgarsvæðinu. Listveisla 1 er gerð að frumkvæði safnsins, styrkt af Menningarsjóði kvenna (Hlaðvarpanum), Menningarráði Eyþings og Rarik

Safnasafnið er opið daglega frá 14.00 - 17.00 í maí, en 10.00 - 18.00 frá byrjun júní fram á haust, sjá nánar á www.safnasafnid.is, en þar eru einnig upplýsingar um inngangseyri, tilboð, veitingar, salaleigu, verslun, verð á íbúð, innra starf safnsins, kort og uppdrættir. Sýningaskráin verður gefin út í júní og færð inn á vefsíðu um leið.


Stjórn Myndlistarfélagsins mótmælir 50% niðurskurði Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna

box_983369.jpg


Á erfiðum tímum sem þessum er menningin mikilvægur þáttur í uppbyggingu þess samfélags sem við viljum skapa. Hún er tæki sem við getum notað til breytinga og vaxtar. Fyrir 20 árum síðan fór hópur áhugafólks um menningu af stað með framsæknar hugmyndir og nýja sókn. Listagilið varð til. Þar var áður mikill iðnrekstur á vegum Kaupfélags Eyfirðinga sem hafði flutt starfsemi sína. Sennilega er þetta eitt mesta framfaraskref í menningarmálum Akureyrarbæjar. Hugmyndir spruttu úr grasrótinni og urðu að veruleika með dyggri aðstoð bæjaryfirvalda. Allir vildu verkefninu vel og lögðu fjölmargir fram krafta sína og byggðu upp Gilið. Síðan hefur margt runnið til sjávar og er nú öflug listastarfsemi í Listagilinu.

En til þess að listin geti þjónað hlutverki sínu í okkar samfélagi sem uppspretta nýrra og frumlegra hugmynda, þarf hún frelsi til að þróast. List á ekki bara að veita ánægju, og vekja aðdáun, það er einnig hlutverk hennar að vera ögrandi, spyrja spurninga, koma á óvart og benda á það sem við hefðum annars ekki komið auga á, eða viljum jafnvel ekki koma auga á. Grundvöllur nýsköpunar og öflugs listalífs er að sem flestir taki þátt í menningarlífinu. Listin á stóran þátt í því að gera bæjarlífið spennandi, áhugavert og skemmtilegt.

Mikilvægt er að styrkveitingar bæjarins til listalífsins taki mið af því að mörkin milli listforma og ólíkra menningarheima eru í sífelldri endurskoðun. Við teljum það lykilatriði og hlutverk bæjaryfirvalda í menningarlífi að vera í góðum tengslum við grasrótina og þá sem stunda hefðbundnari listsköpun. Auk þess að styðja verkefni sem hafa sannað gildi sitt og fundið sinn farveg, þarf bærinn að hlúa að grasrótar- og tilraunastarfsemi, sem oft er vísirinn að því sem koma skal. Til þess að listalíf bæjarins geti blómstrað þarf einnig að vera fyrir hendi hentug vinnu- og sýningaraðstaða á viðráðanlegum kjörum fyrir yngri sem eldri listamenn. Þar þjónar Gilið mikilsverðu hlutverki sem staður viðburða og sköpunar.

Stjórn Myndlistarfélagsins lýsir yfir áhyggjum sínum vegna skerðingar Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna og öðrum styrkjum til menningarmála og listaverkakaupa. Við teljum brýnt á tímum sem þessum að efla frumkvæði og sköpunarkraft með öllum tiltækum ráðum.  Þá er mjög athyglisvert  að skoða sáttmála meirihlutaflokkana í ljósi niðurskurðarins.

Leiðarljós meirihlutaflokkanna í menningarmálum er menningarstefna sem gildir til ársins 2008. Markmiðið er að Akureyri verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga í menningarmálum með stuðningi ríkisvaldsins, atvinnumennska listamanna verði efld og fjölbreytni í menningar- og listastarfsemi aukin. Vilji er til að tryggja jafnan aðgang íbúa að menningarstarfsemi og sérstök áhersla lögð á þátttöku barna. Sérstök verkefni á kjörtímabilinu eru:

  • Við endurnýjun samnings við ríkið um menningarmál frá áramótum 2006 – 2007  verður lögð áhersla á aukin framlög ríkisins m.a. vegna reksturs menningarhúss og Gásaverkefnisins auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Leikfélags Akureyrar, Amtsbókasafnsins og Listasafnsins.
  • Safnastarfsemi í bænum verður efld og söfnin gerð  aðgengilegri, bæði með nútímatækni, margmiðlun og opnunartíma. Jafnframt verður hugað að uppbyggingu safna í Hrísey.
  • Framlög í Menningarsjóð verða aukin sem og vægi fastra rekstrarsamninga við einstaklinga og félagasamtök.. Samvinna við frjáls félagasamtök verður aukin, t.d. með umsjón og rekstri skýrt afmarkaðra verkefna, s.s. Listasumars, Akureyrarvöku og annarra viðburða. Framlag bæjarins í Húsverndarsjóð verður aukið til að hvetja til uppbyggingar og endurgerðar gamalla húsa
  • Lögð verður aukin áhersla á kynningarmál Akureyrarbæjar og tækifæri nýtt sem gefast þegar stórir viðburðir eru á lista- eða íþróttasviðinu eða í öðrum greinum afþreyingar. Stofnanir sveitarfélagsins og félög, sem eru samningsbundin því á einn eða annan hátt, eiga að nýta sér sameiginlegar kynningarleiðir og fá þannig aukinn slagkraft.
  • Vinabæjarsamstarf Akureyrar verður nýtt betur til að auka viðskiptatengsl, koma á fyrirtækjastefnumótum og gera samanburðarrannsóknir á búsetuskilyrðum og lífsgæðum íbúa.
  • Árlega verða sett upp  umhverfislistaverk í sveitarfélaginu í samvinnu við skapandi einstaklinga og samtök.
  • Samstarf menningarstofnana, listamanna og grunnskóla verður eflt og fé veitt í þróunarstarf á sviði sköpunar í grunnskólum. Kannaðir verða möguleikar á að halda Alþjóðlega barnamenningarviku að vori til, fyrst árið 2008.


Samt og þrátt fyrir þetta hefur komið til skerðingar á starfslaunum listamanna og öðrum styrkjum til myndlistar og listaverkakaupa. Starfslaun listamanna Akureyrarbæjar eru 190.000 þús á mánuði í formi verkatakagreiðslna og hafa verið hingað til greiddir 12 mánuðir til tveggja listamanna. Til samanburðar eru listamannalaun sem eru greidd af ríkinu 266.737 kr.  Nú á að skera þetta niður í 6 mánuði og aðeins einn listamaður hlýtur launin. Við erum öll meðvituð um stöðu mála í dag og skiljum vel að einhversstaðar þurfa að bregða hnífnum á. En við verðum að passa okkur á því að drepa ekki niður frumkvæði og viljan til framkvæmda. Akureyrarbær hefur unnið sér nafnið menningarbær og við viljum öll tryggja að svo verði áfram. En þetta eru því miður skýr skilaboð til þeirra listamanna sem búa á Akureyri. Stjórn Myndlistarfélagsins mótmælir 50% niðurskurði Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna.


Virðingarfyllst

Stjórn Myndlistarfélagsins


Fréttabréf Myndlistarfélagsins

galleribox_856636

 

Fréttabréf Myndlistarfélagsins 

 

 

Stjórn í upphafi árs 2010

Þorsteinn Gíslason, formaður

Brynhildur Kristinsdóttir, ritari

Yst, gjaldkeri

Þórarinn Blöndal, varaformaður

Guðmundur Ármann, meðstjórnandi

 

 

Síðast liðið ár hefur Myndlistarfélagið, sem nú er skráð að Kaupvangsstræti 12,

Boxinu, pósthólf 235, 600 Akureyri:

 

 

1.      Breytt um stefnu í Sýningarhaldi félagsins í Boxinu og Sal Myndlistarfélagsins

 og unnið að 6 Gildögum á ári í samvinnu við aðra.

 

Sýningarnefndina skipa nú; Arnþrúður Dagsdóttir, Bryndís Kondrup, Guðrún 
Hadda Bjarnadóttir, Guðrún Lóa Leonardsdóttir, Hjördís Frímann og Sigríður 
Ágústdóttir, sem sér um samskipti við sýnendur.

 

Sýningarnefndin sér alfarið um val á sýningaraðilum, sem þurfa að hafa greitt sitt félagsgjald, nema um gesti sé að ræða.

Nýtt bankanr. Myndlistarfélagsins fyrir félagsgjöld er hjá Sparisjóðnum og er:

           bnr.   1129-05-406050        kt.  690408-1390

Sýningarnefndin skiptir með sér verkum og sér um allt utanumhald sýninga.

Sýningaraðilar sjá alfarið sjálfir um auglýsingar, uppsetningu, veitingar, yfirsetu og að taka niður sína sýningu og þrífa eftir sig. 10 þúsund króna tryggingargjalds er krafist við upphaf sýningar, sem endurgreiðist af sýningarnefnd, sé lyklum og Sal skilað í sama ástandi og tekið var við honum. Ekkert gjald er tekið fyrir að fá að sýna. Því miður hefur félagið ekki enn náð svo langt að geta greitt sýningaraðilum fyrir að koma og sýna, þó þannig ætti það að sjálfsögðu að vera og er það eitt af  aðal-baráttumálum myndlistarmanna hvar sem er á landinu, að fá greitt fyrir sína vinnu!

Stjórn Myndlistarfélagsins hefur talað við svæðisútvarpið, Vikudag o.fl.aðila um mikilvægi þess að sagt sé frá listviðburðum í Sal Myndlistarfélagsins og Boxinu, einnig mun SÍM verða með málþing um myndlist og fjölmiðla nú á vordögum í sama skyni.

 

 

2.      Komið á fleiri nýtingarmöguleikum á Sal Myndlistarfélagsins og í Boxinu í þágu myndlistarinnar.

 

Með tilkomu Gildaga og breytingunni á árlegum sýningarfjölda hefur skapast möguleiki á að nýta Sal Myndlistarfélagsins og Boxið á fjölbreyttari hátt, en hingað til og nú þegar hefur verið farið af stað með vinnu að hugmynd um málþing á vordögum um Myndlistaruppeldi. Sótt verður um styrk/i til verkefnisins og talað við verkefnisstjóra.

Einnig hefur komið til tals að koma á Módelteikni-tímum í Sal Myndlistarfélagsins utan sýningatíma.

Þá eru aðalfundurinn og fleiri fundir á vegum félagsins haldnir í Sal Myndlistarfélagsins.

 

 

3.     Átt viðtöl við Akureyrarstofu um ýmis mál er varða myndlist.

 

Málin eru meðal annars: Stefnumál í listaverkakaupum og listaverkaeign. Hof í tengslum við myndlist. B.A.-nám í myndlist frá H.A.  og samstarf Akureyrarbæjar við önnur sveitarfélög á Norðurlandi eystra um greiðslu listamannalauna út fyrir bæjarmörkin.

 

 

4.     Unnið að samstarfi við Austfirðinga og Sláturhúsið á Egilsstöðum.

 

Stefnt er að sameiginlegum fundi um samstarf og samvinnu okkar og Austanmanna á sviði myndlistar á Mývatni upp úr mánaðarmótum. eftir formlega beiðni þeirra um samstarf.

 

 

5.     Komið með stjórnartillögu til aðalfundar um félagsgjöld fyrir 2010 og lagt til að  vinna í þágu félagsins sé áfram ólaunuð.

 

Félagsgjöld  verði áfram 2000 en þau verði framvegis innheimt í gegnum banka
 (bnr. 1129-05-406050  kt. 690408-1390) og borgist fyrir aðalfund í febrúar. 
Engin laun eru greidd fyrir vinnu stjórnar og nefndarmanna í þágu félagsins, 
nema fargjald á samþykkta fundi utan Akureyrar.
 
Stjórnin.

 

 

 

Tilkynning frá Steina:

 

Smíðaverkstæði Punktsins er nú opið fyrir alla á miðvikudagskvöldum frá kl. 19 – 22.

 

Endilega notfærið ykkur þetta, því ef engin notkun er á þessum tíma, þá verður þetta fljótt aflagt!

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband