Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2014

Dansflokkur Rebeccu Wong frá Hong Kong í Ketilhúsinu og í Alþýðuhúsinu

 

Dancing in the Gallery
Dansflokkur Rebeccu Wong frá Hong Kong

Fimmtudagur ágúst 21. Kl. 16:00-17:00 | Ketilhúsið, Akureyri
Laugardagur ágúst 23. Kl. 20:30-21:30 | Alþýðuhúsið, Siglufjörður

Verið velkomin

Trailer: http://youtu.be/_tOzw5SHbWc

Upplýsingar: www.listhus.com
 
 
Alice Liu
Listhús
+354 8449538


ENDURHÖNNUN Á AMTSBÓKASAFNINU Á AKUREYRI

1407248190_14615125898_403056b42f_h 

Þegar hlutir hafa lokið hlutverki sínu er hægt að skapa þeim nýjan tilgang með hugkvæmni og listfengi. Á Amtsbókasafninu Á AKUREYRI hefur verið sett upp sýning þar sem fimm konur sýna hvernig gamlir hlutir, gömul föt og jafnvel skyndibitaumbúðir geta breyst í listaverk eða nytjahluti. Hér er bæði endurunnið og endurhannað.

Þær sem sýna eru:

Eygló Antonsdóttir – Draumafangarar og teiknimyndasögur
Halla Birgisdóttir – Mósaík, kross og hjörtu
Helga Björg Jónasardóttir – Barnaföt
Halldóra Björg Sævarsdóttir – Kjólar
Jónborg Sigurðardóttir – Blómapottar og slæðukjóll

Skilaboð þessara skapandi kvenna eru að við hættum að henda og reynum frekar að finna hlutum nýtt hlutverk.

Sýningin stendur til 31. ágúst og er opin á afgreiðslutíma safnsins.


Allt er ömurlegt í Geimdósinni

10580101_495917050511616_565224174177076718_n

Ég vil að allt snúist um mig og ég vil vera þátttakandi í þróuðum kapítalisma nútíma samfélagsins.

Útgáfu Allt er ömurlegt magasín 4 eftir Egil Loga Jónasson, verður fagnað í Geimdósinni laugardaginn 16. ágúst næstkomandi.
Tímaritið er gefið út í tíu tölusettum eintökum og kostar stykkið 1000 krónur.
Allt er ömurlegt magasín er gefið út af föndraranum Drengnum fengnum og inniheldur ást, tilfinningar og erótík.
Tölublað fjögur er unnið útfrá ljóðinu Glannreiðar eftir Heklu Björt Helgadóttur:

Glannreiðar

Nú bærist ei nafn kærleikans
í hjörtum ungra sveina sem kalla sig vilja merakónga
Mundandi beislin
innan brundbleyttra vara
nakinna útglenntra meyja
er þeir ríða á hlemmiskeiði
en hvað fela þeir undir því?

Síður bærist nafn kærleikans
í brjóstum ungra meyja
er kalla sig vilja gljátíkur
Ambáttir hvimleiðra þarfa
annara en þeirra sjálfra
en hvað fela þær undir því?

Sannmenntuð kona gleðinnar
drengur sem ákallar glannreiðar
útspýttu börnin gæfunnar þjökuð af samlífsstreitu

allt saman
hugnæm samvera
í gervingu
hamslausra samfara


Varla þarf að minna fólk á hve velkomið það er
og ef einhver vill afla sér frekari upplýsinga um Drenginn eru þær að finna hér:

https://www.facebook.com/drengurinn

http://www.drengurinn.portfoliobox.me/

ókei.

https://www.facebook.com/events/611196158998565


Síðasta leiðsögn um Íslensk samtíðarportrett

Portrett3

Á morgun, fimmtudaginn 14. ágúst, kl. 12 verður síðasta leiðsögnin um sumarsýningu Listasafnsins, Íslensk samtíðarportrett – mannlýsingar á 21. öld, en henni lýkur næstkomandi sunnudag, 17. ágúst. Guðrún Pálína, fræðslufulltrúi, mun fræða gesti um tilurð sýningarinnar og fjalla um einstök verk og er aðgangur ókeypis.
 
Á sýningunni gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag. Að einskorða sig við portrett er ein leið til að skoða á hvaða hátt íslenskir listamenn fjalla um samtíðina. Viðtökur hafa verið mjög góðar og aðsóknin mikil þar sem gestir telja nokkur þúsund.
 
Á meðal listamanna sem eiga verk á sýningunni má nefna Erró, Ragnar Kjartansson, Kristínu Gunnlaugsdóttur, Hallgrím Helgason, Steinunni Þórarinsdóttur, Hugleik Dagsson, Aðalheiði S. Eysteinsdóttur, Baltasar Samper og Ólöfu Nordal.

http://listasafn.akureyri.is


Seinni úthlutun styrkja KÍM 2014

ekkimynd3
 
Seinni úthlutun styrkja KÍM 2014 | umsóknarfrestur 1.sept.

Kynningarmiðstöð íslenskrar myndlistar styrkir myndlistarmenn til starfa, ferða og sýningahalds erlendis. Verkefnastyrkir eru veittir til framleiðslu verka, sýninga og útgáfu en ferðastyrkir fyrir ferðum, gistingu og/eða uppihaldi á ferðalögum. Úthlutað verður tvisvar sinnum á árinu 2014.

Tekið verður við umsóknum frá 1. mars en umsóknarfrestir á árinu 2014 eru eftirfarandi:

01.04.2014 – Verkefna- og ferðastyrkir fyrir tímabilið  1.jan. – 1.júlí 2014

01.09.2014 -  Verkefna- og ferðastyrkir  fyrir tímabilið  1.júlí  - 31.des 2014

Frekari upplýsingar og umsóknareyðublöð er að finna hér.


Íslensk samtíðarportrett - síðasta sýningarvika í Listasafninu á Akureyri

Portrett_vefur_frett

Framundan eru síðustu dagar sumarsýningar Listasafnsins á Akureyri, Íslensk samtíðarportrett – mannlýsingar á 21. öld, en henni lýkur sunnudaginn 17. ágúst. Á sýningunni gefur að líta hvernig 70 listamenn hafa glímt við hugmyndina um portrett frá síðustu aldamótum til dagsins í dag.

Heiti sýningarinnar felur í sér margar vísanir sem birtast í fjölbreyttri flóru listaverkanna. Um er að ræða áhugaverða blöndu og samspil hugmynda um það sem er íslenskt, um hvað felst í hugmyndinni um samtíð og um það sem orðið portrett stendur fyrir. Allar þessar hugmyndir og oft á tíðum óvænt samspil þeirra eiga sinn þátt í mótun og samsetningu sýningarinnar. Þungamiðja sýningarinnar er hugmyndin um portrettið og það sem það getur leitt í ljós. Það er kjarninn í því sem er önnur ætlun hennar: að birta áhorfendum íslenska samtíð í samspili ólíkra portrettmynda og að draga fram einskonar mósaíkmynd sem segir meira en orð fá mælt og mun meira en hver einstök mynd getur sýnt. Á sýningunni er því leitast við að sýna portrett í víðum skilningi þar sem fjölbreytni í aðferðum, myndhugsun og afstöðu til listsköpunar kemur skýrt fram í margbreytileika verkanna.

Verkin á sýningunni er öll einhvers konar portrett, þau eru tjáning listamanna þar sem reynt er að draga hið einstaka fram í persónunni á mismunandi máta. Sumir þeirra einbeita sér að mannverunni sjálfri, að því að sýna útlit hennar og afstöðu á einfaldan hátt í mynd og draga fram sérstöðu hennar. Aðrir nýta sér hið einstaka á ákveðinn hátt til að draga fram áherslur samfélagsins, þeirrar samtíðar sem við búum við. Þar eru einstök einkenni einstaklingsins í meira mæli falin í þeirri persónu sem verið er að túlka og þar verður umgjörðin sterkari. Hér er það fremur hin almenna ímynd samfélagsins sem listamaðurinn vill draga fram. Heildarmynd sýningarinnar er hugsuð sem sambland þessara þátta sem birtast í mismiklum mæli í sérhverri mynd. Í fjölbreytni sýningarinnar er því falin sú von að hún birti bæði fjölbreytileika hins einstaka í íslenskri samtíð — hvernig bæði fyrirmyndir og listamenn eru einstakir í hugsun sinni og ímyndun — og hina almennu sýn sem samansafn verkanna dregur fram af íslenskri samtíð. Sýningin í heild er því einskonar samsett portrett af því sem gæti talist íslenskt í núinu sem við búum við.

Listamenn:

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir
Anna Eyjólfsdóttir
Ásta R. Ólafsdóttir
Baltasar Samper
Benni Valsson
Bergþór Morthens
Birgir Andrésson
Birgir Snæbjörn Birgisson
Bragi Ásgeirsson
D. Írís Sigmundsdóttir
Einar Falur Ingólfsson
Erla Sylvía Haraldsdóttir & Craniv A. Boyd
Erling T.V. Klingenberg
Erró
Gjörningaklúbburinn
Guðmundur Bjarnason
Guðrún Vera Hjartardóttir
Gunnar Árnason
Gunnar Karlsson
Halldór Baldursson
Hallgrímur Helgason
Harpa Rún Ólafsdóttir
Helgi Þorgils Friðjónsson
Hertha M. Richardt Úlfarsdóttir
Hjalti Parelius
Hlaðgerður Íris Björnsdóttir
Hrafnhildur Arnardóttir
Hugleikur Dagsson
Hulda Hákon
Hulda Vilhjálmsdóttir
Hörður Sveinsson
Inga Svala Þórsdóttir & Wu Shanzhuan
Jóhann Ludwig Torfasson
Jón Axel Björnsson
Jón Óskar
Jónatan Grétarsson
Karl Jóhann Jónsson
Katrín Elvarsdóttir
Katrín Matthíasdóttir
Kjartan Sigtryggsson
Kristinn Ingvarsson
Kristín Gunnlaugsdóttir
Libia Castro & Ólafur Ólafsson
Magnús Sigurðsson
Margeir Dire
Ólöf Björg Björnsdóttir
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir
Ólöf Nordal
Pálína Guðmundsdóttir
Ragnar Kjartansson
Ragnar Þórissonar
Ragnhildur Stefánsdóttir
Sara og Svanhildur Vilbergsdætur
Sesselja Tómasdóttir
Sigga Björg Sigurðardóttir
Sigurður Árni Sigurðsson
Sigurður Guðmundsson
Snorri Ásmundsson
Spessi
Stefán Boulter
Steinunn Þórarinsdóttir
Stephen Lárus Stephen
Sylvía Dögg Halldórsdóttir
Tómas A. Ponzi
Valdís Thor
Vytautas Narbutas
Þórdís Aðalsteinsdóttir
Þórdís A. Sigurðardóttir
Þrándur Þórarinsson

http://listasafn.akureyri.is


Opnun í Ketilhúsinu á laugardaginn kl. 15: Skapandi greinar í átt að heilbrigðara efnahagskerfi

Skapandi_greinar

Næstkomandi laugardag, 16. ágúst, kl. 15 opnar í Ketilhúsinu sýning Urta Islandica ehf., Skapandi greinar í átt að heilbrigðara efnahagskerfi, sem samanstendur af myndlist, gjörningum, vöruhönnun, matvælaiðnaði og verslun. Tilgangurinn er að skoða samlegðaráhrif þessara ólíku sviða og þá orku sem losnar úr læðingi þegar skapandi greinar á borð við myndlist komast í tæri við fjármagn sem tengist viðskiptalífinu og öfugt.

Spjótum verður beint að ríkjandi stigveldishugsun innan listgreina og því viðhorfi að listirnar séu í eðli sínu hreinar, frjálsar og óháðar markaðnum. Á sama tíma verður þeirri hugmynd andmælt að listirnar séu byrði á samfélaginu, listamenn afætur og að leggja eigi niður opinbera styrki á þessu sviði. Viðburðurinn er hugsaður sem samræðugrundvöllur og vettvangur fyrir nýja hugmyndafræði þar sem siðfræði, samfélagsábyrgð og sjálfbærni gegna lykilhlutverki.

Sýningarstjóri er Þóra Þórisdóttir myndlistar- og athafnakona.
Sýningin stendur til 21. september og er opin alla daga nema mánudaga kl. 10-17 en kl. 12-17 frá og með 2. september.


FUKL Í VERKSMIÐJUNNI Á HJALTEYRI

fukl2-1024x682
 
FUKL - Í VERKSMIÐJUNNI Á HJALTEYRI

ANGELA RAWLINGS, GESTUR GUÐNASON, KARI ÓSK GRÉTUDÓTTIR, KRISTÍN EIRÍKSDÓTTIR
Verksmiðjan á Hjalteyri / 16.08. – 02.09. 2014 / Neðst á Hjalteyri við Eyjafjörð / 601 Akureyri http://www.verksmidjan.blogspot.com

Viðburður og opnun laugardaginn 16 ágúst kl. 16:00 / Sýning stendur  til og með 2 sept.
Opið þri. – sun. kl. 14:00-17:00,  (en á sama tíma stendur yfir sýningin “Kunstschlager á rottunni :2 Litla hafmeyjan kemur í heimsókn” í Verksmiðjunni)
Umsjón: Angela Rawlings
Laugardaginn 16 ágúst kl. 16:00  fer fram dagskrá gjörninga og sýning undir yfirskriftinni  Fukl í Verksmiðjunni á Hjalteyri.
FUKL 

Kukl. Háls, fugl, rödd, kok. Herping, höft. Cervix. Corvus corax.

Cervix er latneskt orð, notað á ensku til að lýsa aðþrengjandi svæði líkamans. Cervix (legháls) er hluti af æxlunarfærum kvenna, en allir hafa cervix þar sem það er líka annað orð yfir háls. Cervix er þröng rás.

Corvus Corax (Latína) er flokkunarfræðilegt heiti yfir hrafninn.

Fukl, er innsetning og gjörningar eftir myndlistarmenn, rithöfunda og tónlistarfólk.

 

Magic, a neck, a bird. Voice, throat. Constriction, restriction. Cervix. Corvus corax.

Cervix is a Latin word, adapted into English to refer to a constricted part of the body. Women have cervixes as part of their reproductive systems, and all humans have cervixes as it is another word for the neck. Cervix is a narrow passage.

Corvus corax is the taxonomic name (of Latin root) for the raven.

Fukl is an installation and performance by artists, writers, and musicians.

 

FUKL – VERKSMIÐJAN 2014
Dagskráin hefst laugardaginn 16. ágúst 2014, kl. 16:00 í Verksmiðjunni á Hjalteyri.

Koma listamannanna  og viðburðurinn eru styrkt af, Myndlistarsjóði og Menningarráði Eyþings.

Bakhjarlar Verksmiðjunnar á Hjalteyri eru CCPgames, Bústólpi og Hörgársveit.

 

Verksmiðjan á Hjalteyri
Neðst á Hjalteyri við Eyjafjörð
http://www.verksmidjan.blogspot.com

Sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru að ljúka

10382144_785981948099569_7308607194814067542_n

Kristín Gunnlaugsdóttir
14. júní - 17. ágúst 2014
Sýningarlok sunnudaginn 17. ágúst
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/477137992432792

Nú fer hver að verða síðastur að sjá sýningu Kristínar Gunnlaugsdóttur í Flóru en henni lýkur sunnudaginn 17. ágúst 2014.
Kristín er fædd á Akureyri og stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, MHÍ í Reykjavík og Accademia delle Belle Arti í Florence á Ítalíu. Hún er ein af okkar fremstu myndlistarmönnum og einkasýning hennar í Listasafni Íslands á síðasta ári hlaut verðskuldaða athygli. Fyrir þá sýningu fékk Kristín menningarverðlaun DV fyrr á þessu ári. Á sýningunni í Flóru eru fimm verk af þeirri sýningu ásamt nýjum teikningum.

Í bókinni Sköpunarverk sem kom út í tilefni sýningarinnar í Listasafni Íslands skrifar Halldór Björn Runólfsson:
“Styrkur Kristínar sem myndlistarmanns er endurnýjunarkrafturinn, hversu rækilega hún er tilbúin að taka sjálfa sig í gegn og koma þannig sér og öðrum á óvart án þess að slá af þeirri kröfu að nota sama efniviðinn og sömu aðferðirnar og áður; fást með öðrum orðum við þá tegund myndgerðar sem á rætur að rekja til kvennadyngjunnar og klausturlifnaðarins á miðöldum. Ekkert er eins djarft og afgerandi og það að brjóta gegn bannhelgi þessara luktu verkstæða þaðan sem ekkert kom sem ekki naut fullkominnar handleiðslu og blessunar andlegra eftirlitsafla, þeirra sjálfskipuðu siðavarða sem enn vaka yfir stórum hluta kvenna þessa heims, af því að þær eru svo útsettar fyrir óheppilegum refilstigum tilverunnar.
Kristín Gunnlaugsdóttir er með öðrum orðum ein þeirra örfáu listamanna okkar sem tilbúnir eru að hafa endaskipti á sjálfu sér svo þeir megi hitta okkur varnarlausa þegar minnst varir og við þörfnumst þess sem mest að vera slegin út af laginu.”


Nánari upplýsingar um verk Kristínar má finna á http://kristing.is
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru alla daga kl. 10-18.

Næsta sýning í Flóru verður sýning Maríu Rutar Dýrfjörð “Eitthvað fallegt” sem opnar á Akureyrarvöku, laugardaginn 30. ágúst.

Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Menningardagskrá Flóru hlaut styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.


Valgerður Sólrún Sigfúsdóttir sýnir í Populus tremula

10410594_10152678864468081_2970290101103081371_n

Laugardaginn 16. ágúst kl. 12.00 opnar Valgerður Sólrún Sigfúsdóttir sýningu á handmáluðu postulíni í Populus tremula. Valgerður hefur lengi fengist við postulínsmálun og haldið fjölmörg námskeið og sölusýningar. Sjón er sögu ríkari. Athugið: lengri opnunartímar en venjulega.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 17. ágúst kl. 12.00-18.00. Aðeins þessi eina helgi.

https://www.facebook.com/events/1541935306030503
 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband