Bloggfærslur mánaðarins, október 2011



Gústav Geir Bollason: Síðasta sýningarhelgi í Listasafninu á Akureyri

20110607__ICELAND-volundur-_MG_6728_vef


Núna um helgina er að renna upp síðasta sýningarhelgi yfirlitssýningar á verkum Gústavs Geirs Bollasonar – Hýslar umbreytingarinnar – í Listasafninu á Akureyri. Sýningin hefur vakið mikla athygli og þá ekki síst hjá listafólki og listnemum. Sýningunni lýkur sunnudaginn 30. október kl. 17.

Þetta er í fyrsta sinn sem yfirlitssýning á verkum Gústavs er haldinn og gefst því gott tækifæri til að fá innsýn í feril þessa einstaka listamanns. Gústav hefur tekið þátt í fjölmörgum samsýningum hér heima og erlendis og haldið tíu einkasýningar.

Glundroði og hrörnun eru hugðarefni Gústavs Geirs. Verk hans hverfast um tækifærin sem felast í framrás tímans. Hann vinnur með hluti sem fundnir eru á víðavangi, leikur sér með rekavið náttúrunnar og reköld mannanna. Landslagið læðist inn í ljósmyndasamsetningar, abstrakt grafísk verk og jafnvel verk búin til úr jörðinni sjálfri. Bútar úr jörðinni hafa verið sviptir samhengi sínu og hrifnir inn í safnið og bíða þess þar að áhorfandinn púsli þeim saman í verkunum og á milli verka.

Gústav Geir er fæddur á Akureyri árið 1966. Hann stundaði nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1987-’89, nam við Magyar Képzömüveszeti Egyetem í Búdapest 1989-’90 og lauk DNSEP gráðu við Ecole Nationale d’Art í Frakklandi árið 1995. Gústav er einn af stofnendum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og situr í stjórn hennar.

Myndir frá sýningunni er hægt að skoða á vef safnsins
Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl 12-17.

Nánari upplýsingar:

Safnfulltrúi:
Sóley Björk Stefánsdóttir
s: 844-1555

Forstöðumaður og sýningarstjóri:
Hannes Sigurðsson
s: 899-3386


www.listasafn.akureyri.is


email: art@art.is

Sími: 461-2610


Þórarinn Blöndal með listamannsspjall og sýningarlok í Flóru

toti_bondal_1117576.jpg

Þórarinn Blöndal - listamannsspjall
fimmtudaginn 27. október klukkan 20
- í Flóru - Listagili á Akureyri


Sýningu Þórarins Blöndals myndlistamanns Guli skúr 8 lýkur laugardaginn 29. október, en tveim dögum áður eða fimmtudaginn 27. október verður boðið upp á spjall við listamanninn í Flóru. Sýning Þórarins þar hefur verið opin gestum og gangandi síðan á Akureyrarvöku í sumar og hefur fjöldi fólks komið að sjá og upplifa verkið. Þau sem ekki hafa enn komið geta nýtt þetta tækifæri sem listamannsspjallið er til að missa ekki af sýningunni. Um leið segir Þórarinn frá vinnu sinni, en viðmælandi hans verður Hlynur Hallsson myndlistamaður og listrænn ráðunautur í Flóru. Spjallið hefst klukkan 20.

Um verkið Guli skúr segir Þórarinn:
“Í geymslum má finna allt það sem maður leggur til hliðar og hugsar sér að nota síðar. Við flutning minn á vinnustofu minni fór ég í gegnum allt mitt dót og sorteraði. Setti allt í kassa og merkti og lagði af stað með mitt hafurtask. Í nýjum híbýlum mínum syðra fylgdi bílskúr og nefndi ég hann Gula skúr og þar er mín vinnustofa. Rýmið er sirka tíu sinnum rúmir þrír metrar. Gengið inn að austanverðu og einnig eru stórar dyr að norðan. Hillur eru allan vesturvegginn og gott vinnuborð við suðurvegg.

Fyrirferðarmiklir á gömlu vinnustofunni voru vísar að óljósum hugmyndum, grunur um lausnir en óklárað. Sumu snyrtilega raðað í kassa og sorterað en á stundum mikil óreiða. Nokkrar hugmyndir höfðu dagað uppi og gleymst en dúkkuðu nú upp og vöktu upp gamla maníu. En sumt átti aldrei að lifa nema í kössum og geymslum og ekki hugsað til annars brúks. Einkennilega mikið af dóti sem hafði safnast upp og er nú í Gula skúr. Þessar óljósu hugmyndir og vísar að verkum eru til sýnis í Flóru.

Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 25. október 1966. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fór svo til Academiie van Beeldende Kunst í Rotterdam, Hollandi. Ásamt því að halda sýningar sjálfur hefur Þórarinn staðið fyrir ýmsum listviðburðum og tekið virkan þátt í menningarstarfi á Akureyri. Þá er hann einn af stofnfélögum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og er í stjórn hennar. Þórarinn hefur komið að ýmsum verkefnum tengdum söfnum víða um land, bæði sem hönnuður og sýningastjóri. Undanfarna vetur hefur hann kennt myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri. Þórarinn er meðlimur í Dieter Roth Academy.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri
Viðburður á Facebook

Heimasíða Þórarins


Lárus H. List og Huldufólk í Mjólkurbúðinni

lalli.jpg

Listamaðurinn Lárus H. List opnar málverkasýningu í Mjólkurbúðinni
Listagilinu Akureyri laugardaginn 22 október Kl. 14.

Lárus H. List sýnir ný málverk af Huldufólki en hann hefur áður bæði
skrifað um Huldufólk og haldið málverkssýningar um Huldufólk. Má þar nefna
skálssögu Lárusar Gátuhjólið sem kom út 1994 og sýninguna List í álögum árið
1997 en þar segir meistari Bragi Ásgeirsson Listmálari um sýninguna :

"Af dúknum má ljóslega ráða að Lárus List máli af fingrum fram og láti
tilfallandi innblástur ráða för pensilstúfsins um grunnmál myndflatarins
hverju sinni. Svona líkt og nýbylgjumálarar níunda árartugarins gerðu er
þeir voru hvað upp TENDRAÐASTIR. List í álögum er myndefnið heimur álfa og
huldufólks og óljósra skila á vettvangi hvunndagsins og má af dúknum ráða
að Lárus List hefur eitt og annað numið af þeim listamönnum sem sýnt hafa
á Listasafni Akureyrar. AÐ BAKI ÓSTÝRILÁTRI LEIKGLEÐINNI SKYNJAR MAÐUR HIÐ
LITGLAÐA NÁTTÚRUBARN SEM FER SÝNU FRAM Í NEISTA UPPRUNALEGRA HÆFILEIKA."

Eins segir Jón Proppé Listheimspekingur um sýningun  NÁTTÚRAN Í BLÓÐINU 1998:
"Lárus H. List málar abstrakt myndir, náttúrustemmingar með olíulitum .
Hann hefur áður málað myndir þar sem heimur álfa og huldufólks hefur verið
viðfangsefnið, nú sleppir hann alveg hluttengingunni - jafnvel þótt deila
megi um hversu hlutbundnar myndir úr álfheimum kunni að vera - og lætur
hann litina og formin tala sjálf. Viðfangsefnið þessara mynda er BIRTAN
sjálf, einkum VETRARBIRTAN. Málverkinn eru frjálslega unnin,
litaandstæðurnar oft skarpar og formið gróft. En hvíti liturinn er alltaf
sterkur og Lárus List málar gjarnan yfir aðra fleti svo allt virðist séð
gegnum hríðarkófið. ÞANNIG FANGA MYNDIRNAR VEL VETRARSÝN Á NORÐUR SLÓÐUM."

Lárus H List hefur haldið fjölda einkasýninga og samsýninga bæði á Íslandi og
erlendis.
Sýninginn er opinn laugardaga og sunnudaga kl.14-17 eða eftir frekara
samkomulagi og eru allir velkomnir.

Sýningarlok eru sunnudaginn 30.október


Miðlar og gjörningar: Myndlistarnámskeið

na_769_mskei_edited-1.jpg

Habbý Ósk með myndlistarnámskeið, skráning og upplýsingar: habbyosk@gmail.com


Málverkasýning í minningu Óla G.

tveir_heimar.jpg

Menningarhúsið Hof býður þér/ykkur að vera við opnun málverkasýningar í minningu Óla G. Jóhannssonar listmálara sem lést þann 20. janúar síðastliðinn.
Opnunin verður í Hofi laugardaginn 22. október kl. 15.


Ný stjórn Myndlistarfélagsin, kosin á aðalfundi þann 24. maí 2012

P1010163

Formaður:
Harpa Örvarsdóttir 

Meðstjórnendur:
Helgi Vilberg Hermannsson, Inga Björk Harðardóttir,  Lárus H List (kosinn til tveggja ára) og Helga Sigríður Valdemarsdóttir (kosin til tveggja ára)

Varamenn:
Stefán Boulter (kosinn til tveggja ára) og Telma Brymdís Þorleifsdóttir (kosin til tveggja ára).


Myndlistarfélagið ályktar vegna ráðningar forstöðumanns Listasafnsins

images.jpg
 
Aðalfundur Myndlistarfélagsins, haldinn í Sal Myndlistarfélagsins 
17. október 2011, samþykkti svohljóðandi ályktun.

Í byrjun nóvember 2010 átti stjórn Myndlistarfélagsins fund með stjórn Akureyrarstofu. Þar var m.a. fjallað um þá óvissu sem ríkt hefur í Listagilinu með tilkomu Hofs og niðurskurðar á fjárframlögum til skapandi lista. Stjórn Myndlistarfélagsins taldi að skilgreina þyrfti hlutverk Listagilsins upp á nýtt sem og hlutverk Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili. Á þessum fundi lagði Myndlistarfélagið fram þá tillögu að mótuð yrði skýr stefna um framtíð og hlutverk Listagilsins. Var því vel tekið af stjórn Akureyrarstofu og óskaði stjórnin eftir framtíðarsýn þeirra sem störfuðu í Gilinu. Í kjölfarið var stofnaður samstarfshópur sem fékk það hlutverk að safna upplýsingum um þá starfsemi sem fyrir er í Gilinu og móta framtíðarsýn. 

Það var niðurstaða samstarfshópsins að hlúa þyrfti að þeirri einstöku starfsemi sem fram fer í Listagilinu með því að efla samvinnu og samstarf einstaklinga og stofnana. Með samþættingu og hagræðingu mætti bæta skilvirkni hinna opinberu stofnana og með hærri fjárframlögum til grasrótarstarf mætti auðga listalífið á markvissan hátt.

Samstarfshópurinn skilaði skýrslu til Akureyrarstofu síðastliðið vor. Niðustöður vinnunnar endurspegla þá umræðu sem átti sér stað innan þessa hóps frá því að verkefninu var ýtt úr vör. Eftirfarandi tillögur um Listasafnið á Akureyri eru meðal áhersluatriða:

Endurskoða þarf rekstur Listasafnsins m.a. með það að markmiði að Akureyri verði miðstöð myndlistar á landsbyggðinni. Setja þarf saman hóp sem samanstendur af myndlistarmönnum, kjörnum fulltrúum Akureyrarbæjar og völdum aðilum sem koma að menningarlífi í bænum til að móta hugmyndir um stefnu Listasafnsins. Í stefnunni þarf m.a. að koma fram hvernig safnið hyggst standa að kaupum og varðveislu listaverka, hvernig það hyggst sinna rannsóknarskyldu sinni sem og fræðsluskyldu. Tryggja þarf að safnið starfi í samræmi við núgildandi lög og reglur um listasöfn svo sem safnalög nr. 106/2001 en þar stendur m.a. „ En safn hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar“.

Til að tryggja frjótt starf og fjölbreytni innan safnsins þarf forstöðumaður að verða búsettur á Akureyri og ráðningartími hans verði ekki lengri en fimm ár en þó með möguleika á tveggja til þriggja ára framlengingu.

Tryggja þarf aðgengi að listaverkaeign bæjarins t.d. gegnum heimasíðu sem einnig væri hægt að nota til safnakennslu og kennslu í grunnskólum bæjarins.

Skrá skal sögu myndlistar markvisst með áherslu á landsbyggðina og gæti það verið hluti af rannsóknarskyldu safnsins.

Efri hæð Listasafnsins er skilgreind sem stækkunarmöguleiki fyrir safnið. Setja þarf fram áætlun um áframahaldandi vinnu við uppbyggingu safnsins og tímasetja opnun efri hæðarinnar. Þar yrði rými fyrir fasta sýningu, bókasafn, aðstaða fyrir fræðslustarf og safnabúð.

Marka þarf safninu sérstöðu. Sérstaða safnsins gæti falist í sérstakri áherslu á barnamenningu og að safnið yrði gert að móðursafni myndlistar á landsbyggðinni í samstarfi við Listasafn Íslands.

Sjónlistarhátíðin verði fastur liður í starfsemi safnsins, sem tví- eða þríæringur.

Akureyrarstofa hefur nú endurráðið forstöðumann Listasafnsins, sem búsettur er í Reykjavík og hefur verið forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í næstum tólf ár. Ráðningartíminn er fimm ár með mögulegri framlengingu. Það bendir ekki til þess að vilji sé fyrir hendi til að endurnýja og breyta, þvert á móti er þetta ávísun á óbreytta stöðu - ráðamenn eru væntanlega sáttir við ástandið eins og það er og ekki ginkeyptir fyrir breytingum. Samningsferlið hefur staðið lengi yfir og er nú loks til lykta leitt. Ekki með framtíðahagsmuni myndlistar - listagils að leiðarljósi heldur eigin hagsmuni og samtryggingu. Auglýsingaferlið var augljóslega sýndarleikur Akureyrarstofu. Myndlistarfélagið harmar metnaðarleysi Akureyrarstofu og átelur harðlega ófagleg vinnubrögð við ráðningu forstöðumannsins.


Akureyri - hvert stefnir? Málþing í AkureyrarAkademíunni

akureyrarakademian_1

Akureyri - quo vadis? eða Akureyri - hvert stefnir er yfirskrift málþings sem AkureyrarAkademían stendur fyrir laugardaginn 22. október frá 13:00 til 17:00 í Húsmæðraskólanum, Þórunnarstræti 99 á Akureyri. Málþingið er öllum opið, aðgangur er ókeypis og vonast eftir líflegri umræðu. Fluttir verða sex fimmtán mínútna langir fyrirlestrar, boðið upp í hreyfimínútur þeirra á milli og ávaxta og grænmetishlé áður en farið er í almennar umræður. Dagskráin í heild sinni:

Akureyri - quo vadis? AKUREYRI - HVERT STEFNIR?

AkureyrarAkademíunni, laugardaginn 22. október kl. 13:00 - 17:00
Málþing öllum opið í Húsmæðraskólanum við Þórunnarstræti 99 á Akureyri, aðgangur ókeypis.

1.) Stutt erindi um menntun og menningu
13:00 Menntun á Akureyri í framtíðinni?
- Darri Arnarson, formaður Ungmennaráðs Akureyrar
13:15 Menning á Akureyri í framtíðinni?
- Lárus H. List, listamaður
13:30 Spurningar til fyrirlesara
13:40 10 hreyfimínútur í umsjón Grétu Kristínar Ómarsdóttur

2.) Stutt erindi um atvinnu og aldur
13:50 Atvinna á Akureyri í framtíðinni? Soffía Gísladóttir frá Vinnumálastofnun
14:05 Að eldast á Akureyri í framtíðinni? Friðný Sigurðardóttir frá Öldrunarheimilum Akureyrar
14:20 Spurningar til fyrirlesara
14:30 10 hreyfimínútur í umsjón Grétu Kristínar Ómarsdóttur

3.) Stutt erindi um heilbrigði og sjálfbærni
14:40 Heilbrigði á Akureyri í framtíðinni? Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og heilsuþjálfari
14:55 Sjálfbærni á Akureyri í framtíðinni? Brynhildur Pétursdóttir frá Neytendasamtökunum
15:10 Spurningar til fyrirlesara

SKIPTIMARKAÐUR SKOÐANA
15.20 Ávaxta- og grænmetishlé (kaffibaunin fær að fljóta með)
15.40 Samtala þátttakenda og fyrirlesara í þremur umræðuhornum

Horn 1: Menntun og menning.
Umræðustjóri: Jón Hjaltason
Ritari: Guðmundur Árnason

Horn 2: Atvinna og aldur.
Umræðustjóri: Hjálmar Brynjólfsson
Ritari: Sigurður Bergsteinsson

Horn 3: Heilbrigði og sjálfbærni
Umræðustjóri: Valgerður Bjarnadóttir
Ritari: Sólveig Georgsdóttir

16:15 Samantekt - ritarar umræðuhornanna gera grein fyrir helstu skoðunum sem settar voru fram og draga upp útópíu? framtíðarinnar.

16:45 Dagskrárlok

Málþingsstjóri er Pétur Björgvin Þorsteinsson, formaður AkureyrarAkademíunnar.

Sýning listakvennanna Örnu Valsdóttur og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur í gamla kennslueldhúsinu á miðhæðinni í Húsmæðraskólanum verður opin sama dag frá 12:00 til 18:00.

Verkefnið fékk styrk úr Menningarsjóði Akureyrar.

Jóns Laxdal: Ný verk

jon-laxdal-22_10_11-web.jpg

NÝ VERK

Myndlistarsýning Jóns Laxdal

22.-23. október 2011

 

Laugardaginn 22. október kl. 14.00 opnar Jón Laxdal myndlistarsýninguna Ný
verk í Populus tremula.

Sýningin er einnig opin sunnudaginn 23. október kl. 14.00-17.00. Aðeins
þessi eina helgi.

Facebook


Sýning Örnu og Guðrúnar í AkureyrarAkademíunni opin um helgina

akureyrarakademian_018 akureyrarakademian_017

Sýning listakvennanna Örnu Valsdóttur og Guðrúnar Pálínu Guðmundsdóttur í gamla kennslueldhúsinu á miðhæðinni í Húsmæðraskólanum verður opin föstudag, laugardag og sunnudag frá 16:00 til 18:00. Þar er hægt að upplifa hljóðteikningu Örnu ,,Obbolítill óður til kjötbollunnar" sem hún vann árið 2005 fyrir RÚV í umhverfi sem Arna hefur skapað í eldhúsinu með innsetningu sinni og skoða teikningar Guðrúnar sem hún vann undir áhrifum húsmæðraskólans.

Nánar um sýninguna og myndir hér.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband