Margrét Jónsdóttir opnar sýningu í Listasafninu á Akureyri

nota.margret-bordi

Laugardaginn 17. janúar kl. 15 opnar sýning á verkum leirlistakonunnar Margrétar Jónsdóttur í Listasafninu á Akureyri. Margrét (f. 1961) hefur unnið að listsköpun sinni á Akureyri síðan 1985, en hún lærði leirlist í Danmörku við Listiðnaðarskólann í Kolding frá 1980-1984. Árið 1992 hlaut Margrét styrk til námsdvalar við Haystack School of Arts and Crafts í Bandaríkjunum þar sem hún lagði stund á flísagerð. Árið eftir var hún valin bæjarlistamaður Akureyrar og sótti á þeim tíma mósaíknámskeið í Ravenna á Ítalíu. Margrét vinnur jöfnum höndum að gerð nytjahluta, stærri listmuna og listskreytinga. Hún hefur tekið þátt í mörgum samsýningum bæði heima og erlendis og haldið nokkrar einkasýningar. Hvítir Skuggar í Listasafninu á Akureyri er stærsta einkasýning hennar fram til þessa.

Margrét settist að í heimabæ sínum, Akureyri, og gerðist þar brautryðjandi á sínu sviði. Fyrst í stað stundaði hún lágbrennslur á jarðleir í gömlum ofni sem hún hafði með sér frá Danmörku; m.a. var hún meðal fyrstu leirlistarmanna hér á landi til að stunda rakú-brennslu. Í árslok 1986 hafði Margrét komið sér upp stórum hábrennslu rafmagnsofn, sem gerði henni kleift að vinna með steinleir og postulín.

Margrét hefur gert ótal tilraunir með samspil leirs og annarra efna, svo sem steinsteypu, kopars, silfurs og mósaíks. Á ferli sínum hefur hún komið sér upp persónulegum og afar þokkafullum skreytistíl, m.a. með gyllingum, en á tímabili urðu þær eins konar aðalsmerki hennar sem leirlistarmanns. Margrét hefur einnig komið að rýmis- og umhverfismótun með gerð gólf- og veggflísa, handlauga og skírnarsáa fyrir kirkjur. Áhrifa hennar gætir því víðar en á Akureyri, jafnt í umhverfinu sem annarri leirlist.

Margrét sker sig frá þeirri tilhneigingu að draga girðingar milli lífs og listar. Hún blygðast sín ekki fyrir að sýna einlægni og hlýju, sem virðist eitur í augum þeirra sem sigra vilja heiminn. Og það sem meira er, hún deilir ástfóstrum sínum með fólki á þann hátt að notkun og áhorf fellur saman í eina sæng. Sýning Margrétar gefur út vissa yfirlýsingu til listheimsins sem löngum hefur haft tilhneigingu til að taka sig of alvarlega. Verk hennar hampa þeim eiginleikum sem samtímalistin lítur vanalega hornauga nema þeir séu umvafðir afsakandi kaldhæðni. Margrét gerir út á mýkt, kímnigáfu og tilfinningasemi án nokkurs háðs. Hún skapar verk sín af einlægni og minnir um leið hæversklega á, að það er aldrei til of mikil fegurð í heiminum.

Í tilefni af sýningunni hefur Listasafnið á Akureyri gefið út glæsilega 176 síðna bók um listakonuna með greinum eftir Hannes Sigurðsson, Shaunu Laurel Jones, Aðalstein Ingólfsson og Sigurð Örn Guðbjörnsson. Inn fjárfesting styrkir útgáfuna. Bókin fæst í Listasafninu.

Sýningin stendur til 9. mars. Ókeypis er í Listasafnið á Akureyri. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður, í síma 461-2610. Netfang: hannes@art.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband