Síðustu forvöð: GRASRÓT 08 lýkur sunnudaginn 11. október

halldor.jpg

GRASRÓT 08

Björk Viggósdóttir
Guðmundur Vignir Karlsson (Kippi Kaninus)
Halldór Ragnarsson
Jeannette Castioni
Jóna Hlíf Halldórsdóttir

20. september - 11. október 2008
Verksmiðjan á Hjalteyri

Sýningin er opin laugardaga og sunnudaga klukkan 14-17.

Verksmiðjan á Hjalteyri í samvinnu við Nýlistasafnið og Sjónlist
Sýningarstjóri: Þórarinn Blöndal

Norðurorka, SagaCapital og Menningarráð Eyþings styrkja Grasrót 08 og Verksmiðjuna á Hjalteyri.


Sýningunni GRASRÓT 08 í Verksmiðjunni á Hjalteyri lýkur um næstu helgi. Sýningin hefur fengið mjög góða dóma og sýningargestir hafa hrifist af verkum hinna ungu myndlistarmanna sem og Verksmiðjunni sjálfri. Listamennirnir fimm Björk Viggósdóttir, Guðmundur Vignir Karlsson (Kippi Kaninus), Halldór Ragnarsson, Jeannette Castioni og Jóna Hlíf Halldórsdóttir gerðu verkin að hluta til sérstaklega fyrir þessa Grasrótarsýningu en byggðu einnig á verkum sem þau hafa verið að vinna að síðustu árin. Grasrótarsýningar Nýlistasafnsins hafa unnið sér sess sem sýnishorn af því sem ungir og upprennandi myndlistarmenn eru að fást við en þetta er fyrsta skipti er sýningin sett upp utan höfuðborgarsvæðisins.

Nánari upplýsingar og myndir á:
Verksmiðjan: http://www.verksmidjan.blogspot.com
Nýlistasafnið: http://nylo.is/index.php?option=com_content&task=view&Itemid=179&id=517


Nánari upplýsingar veita Þórarinn Blöndal 899 6768 og Hlynur Hallsson 659 4744


Um verkin og listamennina á GRASRÓT 08:

Björk Viggósdóttir sýnir verkið “Fyrir sólsetur / Nákvæm stund”. “Ég vinn með ljóðrænar myndir og tákn, þar sem ég tek raunveruleikann úr samhengi og brýt hann upp í einingar sem ég að lokum raða saman í heildræna mynd. Ég notast við liti og ljós og fæ að láni hluti úr hversdagsleikanum sem fléttast inn í myndbönd  og hljóðverk til að ná fram þeim hughrifum hverju sinni. Orð eru oft upphafið að verkum mínum. Veröld sjónrænna ljóða, nákvæm samstilling rýmis, myndbyggingar, litla, tóna og sjónmyndar.”

Björk Viggósdóttir er fædd á Akureyri 1982. Hún útskrifaðist frá Listaháskóla Íslands árið 2006. Björk var einn af Dungal verðlaunahöfum 2008. Hún var ein af sex myndlistarmönnum til að hljóta dvöl í Millay Colony for the arts í New York 2008 og hún dvaldi í 1. international open art residency í júní 2008 á Grikklandi. Björk gerði 12 videoverk fyrir leikritið „Bakkynjur" í Þjóðleikhúsinu. Hún hefur gert video fyrir nútíma klassísk tónskáld frá Ítalíu, Íslandi og Bandaríkjunum. Meðal næstu verkefna eru Sequenses í Norrænahúsinu, Monkey Town - New York, Chelsea Museum Brooklyn og á Listahátíð 2009 í Reykjavík.
www.bjorkbjork.blogspot.com

Guðmundur Vignir Karlsson (Kippi Kaninus) sýnir verkið Seagull sem samanstendur af blikkplötu á álramma, tveimur rafseglum, sterku ljósi og vídeói og snýst um pælingar um síld, smelti, sjó, gull, silfur, segla og blóð.

Guðmundur Vignir Karlsson er fæddur 1978 í Reykjavík og er stúdent frá Laugarvatni og kláraði BA í guðfræði við HÍ, hélt svo utan til Hollands og lauk MA gráðu í Image and Sound frá Konunglega konservatóríinu í Haag.  Hann hefur sýnt verk sín úti í Hollandi og Ítalíu og hér heima. Auk myndlistar  fæst hann við tónlist og vinnur þá gjarnan undir nafninu Kippi Kaninus.  Þá hefur hann farið í tónleikaferðir með m.a. Mugison, Múm og Kiru Kiru.  Hann er meðlimur í tónleikasveit hljómsveitarinnar Steintryggs, þar sem hann spilar á kjálkahörpu, syngur yfirtónasöng, tölvast og gerir videó.  Hann kemur til með að taka þátt í Sequences hátíðinni í Reykjavík í október.
www.kippikaninus.com

Halldór Ragnarsson sýnir verkið Irdó í Verksmiðjunni á Hjalteyri. Verkið samanstendur af teikningum, málverkum og textum Halldórs og er beint framhald af vinnu hans með orðum, sem hefur skipað stóran sess í myndlist hans undanfarin tvö ár.

Halldór Ragnarsson er fæddur í Reykjavík 1981 og stundaði hann nám í heimspeki við Háskóla Íslands áður en hann fór í myndlist í Listaháskóla Íslands þar sem hann útskrifaðist vorið 2007. Hann hefur haldið einkasýningar, bæði hér heima og erlendis, ásamt því að hafa tekið þátt í nokkrum samsýningum. Halldór var meðlimur og einn af stofnendum hljómsveitarinnar Kimono (2001-2007) sem gaf út þrjár plötur hjá Smekkleysu en í dag er hann meðlimur í hljómsveitinni Seabear sem er gefin út af þýska útgáfufyrirtækinu MORR music. Hann hefur einnig hannað plötuumslög fyrir hljómsveitir og listamenn og má þar nefna Curver, Kimono, Borko og Hudson Wayne. Einnig gaf Halldór út ljóðabókina Öreindir af lúsinni vorið 2004.
www.hragnarsson.com

Jeannette Castioni sýnir verkið „the law of dialectic“ sem er vídeó-hljóðverk í innsetningu sem blandast  umhverfinu, samræður á milli einstaklinga sem hittast aldrei í umræðunni og einmannaleiki sem partur af okkar tilveru. Vídeóið er staðsett á ákveðnu svæði og heyrnatól dreifð um svæðið. Mögulegt er að hlusta á umræður sem verða í gangi allan tímann. Á milli heyrnatólanna er einskonar tómarúm, eintal, þar sem hver rödd fær aldrei svar og ekki heldur samhljóm.

Jeannette Castioni er fædd í Verona á Ítalíu 1968. Hún útskrifaðist frá LHÍ árið 2006 en áður stundaði hún nám við Akademíuna í Bologna og einnig nám í forvörslu í Flórens. Hún stundar nú Ma.Phil. nám í listasögu við Háskólann í Verona og er auk þess stundakennari við LHÍ. Frá árinu 1999 hefur Jeannette haldið sýningar á Ítalíu og frá 2004 hér á Íslandi, Bandaríkjunum, Þýskalandi og Rússlandi. Ásamt tímabundnum innsetningum hefur hún unnið með ljósmyndarannsóknir og vídeóviðtöl um ástand unglinga í Nuuk, Grænlandi þar sem hún dvaldi og hélt vinnustofu. Tæknin sem Jeannette notar er oft blönduð og innihaldið tengist hugsuninni og skilaboðunum sem eru gefin í hvert skipti, frá ljósmyndum, innsetningum, lífrænum efnum og líðandi tíma.
www.hivenet.is/terra/jeannette


Jóna Hlíf Halldórsdóttir sýnir verkið ALLS STAÐAR ANNARS STAÐAR. Hvernig stendur á því að við getum hugsað svona afstrakt um allt sem er annars staðar, en verðum á sama tíma að ríghalda í miðjuna? Að við getum hugsað um það hvernig allt tengist og tvístrast, orsakast og afleiðist―en ýtum því frá okkur um leið með því að aðgreina miðjuna (sem öllu skiptir) frá „öllu hinu“.


Jóna Hlíf Halldórsdóttir er fædd 1978 í Reykjavík og býr og starfar á Akureyri. Hún útskrifaðist með Diploma frá Myndlistarskólanum á Akureyri árið 2005 og með Mastersgráðu í myndlist frá Glasgow School of Art árið 2007. Jóna Hlíf vinnur með ýmsa miðla, s.s. vídeó, skúlptúr, bókverk og ljósmyndir. Verk Jónu Hlífar eru persónuleg úrvinnsla hennar á upplifunum úr daglega lífinu, sem hún útfærir gjarnan í formi myndmáls. Verkin eru gjarnan óræð og hafa yfir sér hráan blæ, sum unnin úr fjöldaframleiddum efnum, önnur handgerð af listamanninum. Það sem sameinar þau er tenging við mannslíkamann og sálina, sem talið er að hvíli þar í einhverju hólfi sem sést þó ekki á röntgenmynd.
www.jonahlif.com



Verksmiðjan á Hjalteyri
www.verksmidjan.blogspot.com


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband