Lára Stefánsdóttir opnar ljósmyndasýningu í Mjólkurbúðinni

wSnjor-6029 

 

Lára Stefánsdóttir opnar ljósmyndasýninguna Snævi þakið í Mjólkurbúðinni Listagili laugardaginn 10.ágúst kl. 14.

 

Hið hvíta landslag vetrarins er afar fjölbreytt og mótar umhverfið í Ólafsfirði oft langan tíma vetrar. Landslagið sem undir er breytist, land með skurðum eða lækjum verður rennislétt, skaflar draga sig upp og það sem áður var slétt verða hæðir og hólar. Vindurinn og hitinn móta mynstur og fleti. Stundum gægist upp einmana staur eða girðing, dálítil þúfa eða steinn. Minimalískt umhverfið með snarbröttum fjallshlíðum í kring skapar andstæður sem stormurinn næðir um. Sólin nær ekki að skína í tæpa tvo mánuði en litir sólarlags og sólarupprásar skreyta himininn. 

Þegar vorar bráðnar snjórinn og hvar sem er birtast kynjamyndir sem segja sögur, fátt er skemmtilegra en lesa í frásagnir fjallanna. 

Í stað þess að bíða vors er vert að njóta hins snævi þakta landslags.

 

Lára Stefánsdóttir lærði í Academy of Art University í San Francisco þar sem hún tók MFA (Master of Fine Art) í listljósmyndun. Hún hefur haldið sýningar í bæjunum á Tröllaskaga; Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði, á Akureyri, í Reykjavík og í St Paul í Minnesota í Bandaríkjunum. Viðfangsefnin eru náttúran, tákn og sögur. Flestar ljósmyndir hennar eiga sér sögur sem hún er stundum til í að segja frá. Hún er skólameistari Menntaskólans á Tröllaskaga og kennir þar einnig listljósmyndun.

 

sýningin er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og stendur 10.-18.ágúst

 

www.lara.is

Lára Stefánsdóttir 



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband