Þórgunnur Oddsdóttir sýnir í Flóru

11875050_1020459324651829_9214087517310769862_o

Þórgunnur Oddsdóttir        
Grasafræði
28. ágúst - 24. september 2015
Opnun föstudaginn 28. ágúst kl. 17
Flóra, Hafnarstræti 90, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri
https://www.facebook.com/events/1619336121677582

Föstudaginn 28. ágúst kl. 17:00 á Akureyrarvöku opnar Þórgunnur Oddsdóttir sýninguna Grasafræði í Flóru á Akureyri.

Hverfulleikinn og tilraunir okkar til að skrásetja veruleikann, varðveita og greina eru leiðarstef í verkum Þórgunnar sem hefur til að mynda unnið með tengsl ljósmynda og minnis og mörk skáldskapar og fræða í verkum sínum. Nú sýnir hún verk sem unnin eru út frá flóru Íslands. Efniviðurinn eru þurrkaðar jurtir sem hún safnaði í sumar og texti úr gamalli og lúinni kennslubók í grasafræði eftir Stefán Stefánsson skólameistara. Í stað þess að greina og skrá jurtasýnin tekur Þórgunnur þau í sundur og raðar saman á nýjan leik svo úr verða plöntur sem finnast hvergi í raunveruleikanum. Á sama hátt brýtur hún texta Stefáns niður orð fyrir orð og yrkir úr honum glænýja grasafræði.

Þórgunnur Oddsdóttir er fædd á Akureyri árið 1981. Hún lauk B.A. námi í myndlist frá Listaháskóla Íslands árið 2010 og hafði áður lokið B.A. prófi í íslensku og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Þórgunnur hefur sýnt bæði hérlendis og erlendis og meðal annars unnið með Kling & Bang gallerí í Reykjavík. Hún starfar sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV á Akureyri.

Nánari upplýsingar um Þórgunni og verk hennar má nálgast á heimasíðu hennar: www.thorgunnur.info

Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru: Akureyrvökuhelgina laugardag kl. 10-18 og sunnudag kl. 12-18 og frá 1. september  mánudaga til föstudaga kl. 15-18. Sýningin stendur til fimmtudagsins 24. september 2015.

Flóra er verslun og viðburðastaður með vinnustofum sem Kristín Þóra Kjartansdóttur félagsfræðingur rekur. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu.


Davíð Hólm Júlíusson og Freyja Reynisdóttir í Kaktus á Akureyrarvöku

11951368_736019869854272_1565168717799056923_n

Þau Davíð Hólm Júlíusson og Freyja Reynisdóttir sýna listir sínar í Kaktus á Akureyrarvöku. Húsið opnar kl. 22.00 á laugardagskvöld og skömmu síðar hefjast tónleikar.

Um tónleikahald sér einn fremsti raftónlistarmaður landsins Davíð Hólm Júlíusson, einnig þekkur sem DAVEETH. Nýjasta plata hans er Mono Lisa, forvitnir geta hlustað á hana hér:
https://daveeth.bandcamp.com/album/mono-lisa

Freyja Reynisdóttir, listamaður og ein Kaktusa sýnir videóverkið DÓTTIR sama kvöld. Videóverkið verður einnig til sýnis á SÚPER SUNNUDEGI sem haldinn verður í annað sinn! Gestum er velkomið að stoppa við í kaffisopa og njóta þess að lesa, lita, hlusta, spila og spjalla. Svo er aldrei að vita nema DJ KÚL verði með síðdegissett og aðrir listamenn með óvæntar uppákomur. Opið frá kl. 14:00 - 17:00.

ATH. Á föstudag stendur Kvikmyndaklúbburinn Kvikyndi fyrir bíósýningu á langa gangi kl. 17:30. Bíómyndin sem heitir Purge er frá árinu 2012 og hefur hlotið magnaða dóma. Hún er byggð á bókinni Hreinsun eftir Sofi Oksanen.

Ungir sem aldnir eru hjartanlega velkomnir ♥ Gleðilega akureyrarvöku.

Kaktus er styrktur af Akureyrarstofu.

https://www.facebook.com/events/830295567067802


Höfuðverk í Sal Myndlistarfélagsins

11049596_910333259039678_425806961722884074_n

Myndlistarhópurinn Höfuðverk samanstendur af 9 konum sem allar voru saman í Myndlistarskólanum á Akureyri. Hópurinn hefur sýnt saman nokkrum sinnum og í hvert sinn leitast við að hafa sýningarnar sem fjölbreyttastar enda listakonurnar eins ólíkar og þær eru margar. Á sýningum hópsins hafa meðal annars verið málverk, innsetningar, veggverk, skúlptúrar o.fl.

Í þessari samsýningu sem ber titilinn Höfuðverk taka 6 konur þátt, þær Áslaug Anna Jónsdóttir, Ásta Bára Pétursdóttir, Hrafnhildur Ýr Denke, Hrönn Einarsdóttir, Telma Brimdís Þorleifsdóttir og Ragney Guðbjartsdóttir

Sýningin opnar á Akureyrarvöku, laugardaginn 29. ágúst klukkan 14:00.

Velkomin!

https://www.facebook.com/events/1479250352376673


Móðir

Móðir

Móðir er samsýning tveggja ljósmyndara, Daníels Starrasonar og Magnúsar Andersen á Akureyrarvöku 2015, helgina 29-30. ágúst. Sýningin varð til í kringum þema Akureyrarvöku í ár, sem er Dóttir, móðir, amma en á sýningunni fjalla Daníel og Magnús í máli og myndum um líf mæðra og barna þeirra á tveimur stöðum; Akureyri og London. Mæðurnar koma úr ýmsum áttum, eru á öllum aldri og búa við mismunandi aðstæður. Ein móðirin er til að mynda prestur, önnur er ljósmyndari sem tekur barn sitt með sér hvert sem hún fer og enn önnur eignaðist sitt fyrsta barn þegar hún var 48 ára gömul.

Ljósmyndasýningin Móðir er önnur sýningin sem Daníel og Magnús halda í sameiningu, en sýningin Íslenskt tónlistarfólk var sýnd í Populus Tremula og á Kex Hostel árið 2013. Þeir hafa auk þess haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum saman og í sitt hvoru lagi.

Daníel er fæddur á Húsavík árið 1987, hann eignaðist sína fyrstu myndavél á barnsaldri en áhuginn kviknaði að mestu á meðan hann stundaði nám við Menntaskólann á Akureyri. Hann nam við Medieskolerne í Danmörku á árunum 2011-2015 og starfar nú sem ljósmyndari á Akureyri. Daníel hefur verið iðinn að skrásetja íslenskt tónlistarlíf, bæði með tónleikaljósmyndun og portrettmyndum af íslensku tónlistarfólki.

 

Magnús fæddist í Noregi árið 1990 og ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur. Hann hefur síðan úr barnæsku haft mikinn áhuga á ljósmyndun. Eftir nám við Menntaskólann í Hamrahlíð flutti hann til Danmerkur og lærði ljósmyndun við Medieskolerne. Han býr nú í London og vinnur sem sjálfstætt starfandi ljósmyndari og aðstoðarmaður. Þess á milli myndar hann sín eigin verkefni og finnst skemmtilegast að taka portrettmyndir af ýmsum áhugaverðum einstaklingum.

Sýningin Móðir verður haldin á Ráðhústorgi 7 á Akureyrarvöku og verður opin laugardaginn 29. ágúst og sunnudaginn 30. ágúst frá kl. 14 til kl. 17.


Bloggfærslur 24. ágúst 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband