Jónína Björg Helgadóttir sýnir í Geimdósinni

10373987_10203659084379704_3546312589107642505_n

Salt Vatn Skömm

Laugardaginn 24. maí heldur Jónína Björg Helgadóttir sýninguna Salt Vatn Skömm í Geimdósinni, Kaupvangsstræti 12. Sýninguna vinnur hún út frá ljóði Heklu Bjartar Helgadóttur, ljóðskálds og sýningarstjóra Geimdósarinnar. Sýningin er ein í röð af sýningum sem haldnar hafa verið í Dósinni af mismunandi myndlistamönnum sem vinna þar með ljóð Heklu. Að þessu sinni eru það formin og jafnframt formleysið sem spila aðalhlutverkið í myndverki Jónínu Bjargar.

Sýningin stendur frá kl. 14-17 laugardaginn 24. maí
Kaupvangsstræti 12, gengið inn að aftan.


Frekari upplýsingar gefur Jónína Björg á netfanginu joninabh@gmail.com
www.joninabjorg.com


salt vatn skömm

Þær drukku te í rauðu eldhúsi, Hind og Babúska.
Sandalviður, plastrósir, og þær játuðu margrar syndir.
Hindin sagði Babúskunni: „ég er aldrei nógu falleg… ekkert sem ég geri“
Babúskan leiddi Hindina að speglinum. Kvöldsólin vægðarlaust kastsljós, á meðan hún dróg af henni klæðin við spegilinn.
Hún sagði henni að horfa. Lengi. Stara. Lengur. Á meðan hún renndi niður kjólnum, lét hann falla á gólfið, ýtti hlýrunum niður handleggina og snerti nektina. Hægt en örugglega, krosslagði hún fingur yfir naflann.
„Fegurðin eins og öræfin. Erfið að komast yfir, þó unaðsleg að sjá. En aldrei jafn stórbrotin, eins og eftir að þú klífur þau“
Og Hindin horfði lengi, starði lengur, og hún sá að líkaminn varð formlaus, án lína, óviðráðanlegur eins og flóðbylgja
og hann rann undan höndum Babúskunnar og á brakandi gólffjalirnar, seytlaði í rifurnar og dropaði í smáum skömmtun, undir húsið.
Hún var salt, hún var vatn, hún var skömm
undir fingrum, undir hælum, undir rós
og þegar Babúskan hnýtti á hana fjallaskó og rétti henni skæri
reisti hún síðustu vörðuna á öræfahörundið lausa:
„þú ert salt þú ert vatn…vertu sönn“

Hekla Björt Helgadóttir

https://www.facebook.com/events/663259453721943

https://www.facebook.com/geimdosin


"Gísli B. - Fimm áratugir í grafískri hönnun" opnar í Ketilhúsinu

GB_ljosmynd_62

Laugardaginn 24. maí kl. 15 opnar sumarsýning Ketilhússins, Gísli B. – Fimm áratugir í grafískri hönnun. Þar er á ferð yfirlitssýning Gísla B. Björnssonar sem er einn atkvæðamesti grafíker íslenskrar hönnunarsögu. Hann setti á fót auglýsingastofu Gísla B. Björnssonar eftir nám í Þýskalandi 1961 og ári síðar stofnaði hann sérdeild í auglýsingateiknun við Myndlista- og handíðaskólann sem í dag er braut grafískrar hönnunar í Listaháskóla Íslands. Gísli hefur kennt óslitið í fimm áratugi og verið óþreytandi í því að efla fagmennsku og brýna fyrir nemendum að sýna ábyrgð í verki. Hann hefur komið að markaðs- og ímyndarmálum fjölda fyrirtækja og stofnana á Íslandi og búið til mörg af þekktustu vörumerkjum landsins. Má þar nefna merki Sjónvarpsins, Norræna félagsins og Hjartaverndar. Gísli er undir sterkum áhrifum módernisma 20. aldar með áherslu á einfaldleika, notagildi og hagkvæmni.

Á sýningunni er horft yfir feril Gísla og gefur að líta verk frá námsárum hans, tímarit, bókakápur og umbrot og hönnun bóka. Sýnd eru gömul myndbrot af auglýsingastofu Gísla þar sem tækni þess tíma gefur innsýn í vinnu teiknarans og hugmyndasmiðsins.

Sýningin kemur frá Hönnunarsafni Íslands og er opin alla daga nema mánudaga kl. 12-17 og eftir 1. júní kl. 10-17. Sýningarstjóri er Ármann Agnarsson.

Sunnudaginn 25. maí kl. 14 flytur Gísli sjálfur fyrirlestur í Ketilhúsinu undir yfirskriftinni Góð merki og ekki. Þar leitast hann við að svara spurningum um hvað einkennir góð merki og hvað þarf að hafa í huga við hönnun þeirra. Nokkur merki verða skoðuð og farið yfir hvernig hefur tekist til. 

Aðgangur á sýninguna og fyrirlesturinn er ókeypis.

https://www.facebook.com/events/687606844634766/

http://listasafn.akureyri.is


Bloggfærslur 23. maí 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband