STYRKTARSJÓÐUR GUÐMUNDU ANDRÉSDÓTTUR AUGLÝSIR EFTIR UMSÓKNUM

logo-listasafn

STYRKTARSJÓÐUR GUÐMUNDU ANDRÉSDÓTTUR AUGLÝSIR EFTIR UMSÓKNUM UM STYRKI ÚR SJÓÐNUM Á ÁRINU 2014

Samkvæmt skipulagsskrá sjóðsins nr. 9321 er markmið hans ,,að styrkja og hvetja unga og efnilega myndlistarmenn til náms” en stofnfé sjóðsins er arfur samkvæmt erfðaskrá Guðmundu Andrésdóttur listmálara sem lést árið 2002. Ráðstöfunarfé sjóðsins eru raunvextir af höfuðstól og verður í ár ráðstafað 1.8 milljónum króna. Veittir verða þrír styrkir að upphæð 600.000 krónur hver.

Sjóðurinn styrkir myndlistarmenn til framhaldsmenntunar og er æskilegt að umsækjendur hafi lokið BA prófi í myndlist eða sambærilegu námi. Hægt er að sækja um styrk til lengri eða skemmri námsdvalar erlendis, þó aldrei skemur en til sex mánaða. Umsókn skal fylgja ítarleg greinargerð um fyrirhugað nám ásamt meðmælabréfi og upplýsingum um fyrra nám og starfsferil.

Umsóknarfrestur er til og með 15. desember 2014.
Umsóknir merktar styrktarsjóðnum skulu sendar Listasafni Íslands, Laufásvegi 12, 101 Reykjavík. Nánari upplýsingar eru veittar í síma Listasafns Íslands 515 9600. Stefnt er að úthlutun eigi síðar en 18. desember næstkomandi.

Styrktarsjóður Guðmundu Andrésdóttur


Kazuko Kizawa með fyrirlestur í Ketilhúsinu

Kazuko

Í dag, þriðjudaginn 9. desember, kl. 17 heldur japanska listakonan Kazuko Kizawa fyrirlestur í Ketilhúsinu þar sem hún mun fjalla um sýningu sína Spectrum – Polarljós sem opnar í Deiglunni næstkomandi laugardag, en þar sýnir hún verk sem unnin eru útfrá norðurljósunum. Á fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, mun Kazuko einnig fjalla um eldri verk og myndlistarferil sinn.

Kazuko Kizawa vinnur í margskonar miðla s.s. innsetningar, video, ljósmyndir, málverk og þrívídd. Hennar meginþema er ljós og litir. Hún hefur sýnt verk sín víða í Evrópu, Japan og Bandaríkjunum.

Fyrirlesturinn er á vegum Gilfélagsins og aðgangur er ókeypis.


Arna Vals - samtal - Hekla Björt: Geimdósin

10645084_540311986072122_8605983896049962806_n

Geimdósin kynnir síðustu opnun sína, laugardaginn 13. des. kl. 20: 

Agnes - samtal- Kæra Ljóðsdóttir
Arna Vals - samtal - Hekla Björt 

Arna Valsdóttir og Hekla Björt Helgadóttir sýna í Geimdósinni í Kaupvangsstræti á Akureyri verk þar sem þær stefna videoverki Örnu “Agnes” saman við ljóð Heklu Bjartar “Kæra Ljóðsdóttir”.

Verkið Agnes er stutt myndskeið tekið í Vatnsdalnum á hráslagalegum degi vorið 2014 við aftökustað Agnesar 
Magnúsdóttur og Friðriks Sigurðssonar. 

Arna Valsdóttir nam myndlist við MHÍ og lauk framhaldsnámi frá Jan van Eyck Academie í Hollandi árið 
1989. Hún hefur sýnt víða bæði samsýningar og einkasýningar en í ágúst 2014 opnaði einkasýning hennar 
“Staðreynd-Local fact” í Listasafninu á Akureyri. Þar sýndi hún 6 video/söng -innsetningar sem hún hefur unnið frá 2008 og 1 videoverk frá 1988. Arna er búsett á Akureyri og kennir við listnámsbraut VMA.

Hekla Björt hefur starfrækt gallerí Geimdós á vinnustofu sinni í Kaupvangsstræti, síðan í desember 2013. 
Þar hefur hún unnið myndlist og ljóð, auk þess að bjóða listafólki að sýna þar verk sín við ljóð eftir hana. 
Þó Geimdósin teljist ekki stór í fermetrum, er hún takmarkalaus. Hún hefur fyllst af sandi, vatni, rusli, myndlist, ljóðum og alls konar fólki. Fyrsta opnun Geimdósarinnar var 17. desember 2013 og verður opnunin á laugardaginn sú síðasta og sautjánda í röðinni. Að því tilefni, eru allir hjartanlega velkomnir í Dósina í síðasta sinn. Arna og Hekla munu meðal annars bjóða upp á ljóðasúpu og brauð og einhvern ljúfan vökva í glasi. 
Gleðin hefst klukkan átta og lifir þar til glóðin lognast út. 
Hér að neðan má lesa ljóðið:

Kæra Ljóðsdóttir

Ekki láta þér bregða, þeir koma þessir dagar…
Dagarnir sem byrja á síðdegi og enda á kaldri súpu
spegilmyndin hörfar, fölnuð ást safnar ryki
og þú starir fram hjá sjónvarpinu í úlpu

Það snjóar inn um gluggann og hjartað er úr ösku
og þú vilt eyða þeim í rúminu,
með einhverjum að yrkja um… 
og ekki um einhvern sem drap í glóð í hjartanu, 
heldur einhvern sem klæðir sig brosandi í úlpu
hitar súpuna og situr með þér.

Ég man daginn sem ég uppgötvaði kveðskap og kvenhatur Charles 
Bukowskis. Ég las ekkert annað, hálfheilluð, hálfhelluð
og frekar hneyksluð.
Og ég undraði mig á afköstum mannsins,
Hann teygaði minnst sex lítra af bjór á dag!
og ég spurði mig hvort ég kæmist upp með slíkt hið sama
að drekka og skrifa og skrifa um að drekka í bræði
… svo komu dagarnir sem ég lét á það reyna…
en ræðum þá sem minnst…
þeir enduðu í kulnuðu flóði
við Ginnungagapið sjálft.

En svo komu líka dagar
og ég lofa þér… þeir koma
þegar allt hið ofangreinda
fellur í skugga hins fullkomna orðasambands
og þér finnst þú hafa sigrað bikið og heiminn og allan stokkinn
og gefur skuggum meistaranna langt nef

- Hekla Björt

 

GEIMDÓSIN, Kaupvangsstræti 12. Listasafnshúsið/gengið inn úr portinu fyrir ofan, baka til.

https://www.facebook.com/events/610482915720098


Bloggfærslur 9. desember 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband