Hlynur Helgason með Þriðjudagsfyrirlestur í Ketilhúsinu

10171001_824078994280611_4855273165589275286_n

Þriðjudaginn 14. október kl. 17 heldur Hlynur Helgason myndlistarmaður fyrirlestur í Ketilhúsinu á Akureyri undir yfirskriftinni Staðir og staðleysur: Mannlegt ferli í borgarmyndinni og fjallar þar um helstu áherslur í ljósmynda- og vídeóinnsetningum sínum. Hlynur á að baki langan feril í myndlistinni, en hann útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskólanum árið 1986 og með MA-gráðu frá Goldsmiths College í London 1994. Hann hefur á undanförnum árum unnið jöfnum höndum að listfræðum og myndlist, en hann útskrifaðist með doktorsgráðu í listheimspeki frá European Graduate School í Sviss 2010 og er sem stendur lektor í listfræði við Háskóla Íslands.
 
Í myndlistinni hefur Hlynur löngum beint sjónum að arfleifð mannsins í umhverfi sínu. Hann vinnur í marga miðla s.s. teikningu og málverk auk rýmisverka þar sem ljósmyndir og kvikmyndir spila stórt hlutverk. Í fyrirlestrinum kemur hann til með að fjalla aðallega um vídeóverkin og hvernig hann beitir kvikmyndavélinni við það að taka upp persónulegt efni sem sýnir umhverfi mannsins í borginni, en þó þannig að maðurinn er yfirleitt fjarri.
 
Enginn aðgangseyrir er á fyrirlesturinn sem er sá þriðji í röð fyrirlestra sem haldnir eru í Ketilhúsinu á hverjum þriðjudegi kl. 17 undir yfirskriftinni Þriðjudagsfyrirlestrar.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Á meðal fyrirlesara vetrarins eru Jón Gunnar Þórðarson leikstjóri, Íris Ólöf Sigurjónsdóttir sýningarstjóri og myndlistarmennirnir Aðalsteinn Þórsson, Stefán Boulter og Guðmundur Ármann Sigurjónsson.

http://listasafn.akureyri.is


Bloggfærslur 11. október 2014

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband