LISTA- OG FRÆÐIMANNSÍBÚÐ Í SAFNASAFNINU

big_eyja

 
Tekin hefur verið í notkun Lista- og fræðimannsíbúð í risi Kaupfélags Svalbarðseyrar (1900) sem var flutt á lóð Safnasafnsins árið 2006. Íbúðin er 76 m2, með sérinngangi á 2. hæð frá bílastæði, útbúin eins og “byggðasafn með andrúmslofti og rómantík liðinnar aldar” en þó með nútímalegu ívafi; í henni er forstofa, bað, eldhús með setkróki, samliggjandi borð- og skrifstofa með rúmi (196x86) og herbergi með hjónasæng (200x150) og 3 rúmum (172x75/160x75/95x45)
Íbúðin er sjálfstæð eining, án tengsla við aðra starfsemi safnsins, þ.á.m. sýningarhald; hún verður leigð frá og með 24. september, eina viku í senn, frá kl. 16.00 á fimmtudegi til kl. 12.00 næsta fimmtudag. Skv. leigusamningi fær leigutaki aðstöðu til að vinna í sal við pappírsmyndir og handrit en er óheimilt að smíða, nota olíuliti og úðabrúsa eða önnur rokgjörn, rykertandi, smitandi, astma- og ofnæmisvaldandi efni; hið sama gildir um íbúðina; gæludýr eru ekki leyfð, reykingar ekki heldur. Í samningnum eru ákvæði um öryggi, eldvarnir og flóttaleiðir, hljóðmengun, tryggingar, ábyrgð á persónulegum eigum, umgengni og lágmarksþrif; þá er leigutaka óheimilt að framleigja íbúðina eða bjóða til sín dvalargestum nema fyrir liggi samþykki gestgjafa
Vikuleiga íbúðar er 40.000 kr. með rúmfatnaði, nettengingu, grunnvöru í kæli, aðgangi að þvottavél, sal og bókastofu - og kvöldverði með gestgjöfum fyrsta daginn. Hægt er að semja um ferðir að og frá flugvelli, en að öðru leyti sér leigutaki um sig sjálfur
Pantanir skulu staðfestar í tölvupósti og leigan millifærð þá, eða greidd strax við komu. Leigugjald verður uppfært 1. janúar og bókað til 15. apríl. Dregið verður út nafn eins leigutaka og honum boðnar 2 fríar nætur í röð í íbúðinni árið 2010
Leigutakar sem vilja kanna listaverk safnsins og stunda rannsóknir sem gætu varpað nýju ljósi á hana, eða sinna verkefnum sem tengjast menningu og sögu héraðsins, geta fengið niðurstöður vinnu sinnar kynntar í máli og myndum í Svalbarðsstrandarstofu, á hæðinni fyrir neðan íbúðina, frá og með vorinu 2012, einnig í sýningaskrá og á heimasíðu sama ár
Gestgjafar eru Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir, þau búa í Þinghúsinu sem er tengt safnbyggingunum.


SAFNASAFNIÐ - ALÞÝÐULISTARSAFN ÍSLANDS
Aðsetur við hringveginn, 12 km frá miðbæ Akureyrar
Myndir af íbúðinni: www.safnasafnid.is / Nánari upplýsingar: 4614066 / Pantanir: safngeymsla@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband