Sæunn Þorsteinsdóttir sýnir í DaLí Gallery

p1010617.jpgSæunn Þorsteinsdóttir opnar myndlistasýninguna Veggskraut í DaLí Gallery laugardaginn 14. febrúar kl. 14-17.

Sæunn vinnur með hringformið sem er henni hugleikið og hefur gamalt íslenskt munstur oft veitt henni innblástur auk þess sem hún reynir að fanga munstur kviksjár. Litagleði og síbreytileg munstur kviksjárinnar eru kveikjan að þessari sýningu Sæunnar þar sem hún leikur sér að því að fanga kviksjá hugar síns. Myndirnar eru unnar á við með blandaðri tækni, túss, vatnslitum, akrýllitum og lakki.

Sæunn um myndverkin:

Ég hef lengi haft áhuga á mynstrum, sérstaklega hringmynstrum, og í einni heimsókn minni á byggðasafnið í Skógum teiknaði ég upp nokkur slík mynstur sem þar prýða útskornar öskjur. Þessar teikningar, ásamt ýmsum öðrum mynstrum sem ég hef safnað í skissubókina mína undanfarin ár, urðu kveikjan að myndunum sem ég sýni núna.

     Gamalt íslenskt handverk sem geymir hafsjó af mynstri og alls kyns skreytingum er mér oft innblástur. Mér finnst þetta handverk vitna um þörf fólks fyrir að skreyta og fegra sitt nánasta umhverfi, hvort sem efnin voru mikil eða lítil. Hagleiksfólk liðinna tíma lagði alúð, tíma og vinnu í að skreyta umhverfið með mynstrum og myndum og ég lít til þeirra sem fyrirmynda.

     Erlendir listamenn eins og Gustav Klimt, Charles Rennie Mackintosh, hjónin Carl og Karin Larsson, Jockum Nordstrom, og Hundertwasser blása mér líka oft inn nýjar (eða gamlar?) hugmyndir. List þeirra og hönnun þykir mér full af gleði, litum, fallegum línum, formum og skrauti og til þess fallin að láta manni líða vel.

     Ég hef alltaf haft gaman af að skreyta og raða litum, formum og hlutum. Ég er heilluð af kviksjám og get gleymt mér tímunum saman við að horfa í litadýrðina og síbreytilegar myndirnar sem þar birtast.

Hringmyndirnar sem ég sýni núna eru tilraun mín til að ná að grípa myndir úr minni eigin kviksjá og koma þeim á pappír eða tré til þess að skreyta umhverfið aðeins. 

 

Sýning Sæunnar stendur til 1. mars og eru allir velkomnir.

 

DaLí GALLERY

BREKKUGATA 9

600 AKUREYRI

OPIÐ FÖSTUDAGA OG LAUGARDAGA Í VETUR KL.14-17


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband