Guðrún Pálína Guðmundsdóttir sýnir í Mjólkurbúðinni

IMG_7184-1-980x350

Laugardaginn 27.mai kl. 14-17 opnar Guðrún Pálína Guðmundsdóttir sýninguna “Borgarbúar” í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri

Á sýningunni “Borgarbúar” verða myndverk sem hún hefur unnið í janúar og febrúar á þessu ári, í Berlín.

Pálína dvaldi í Berlín veturinn 2013-14 þegar hún var bæjarlistamaður Akureyrar og síðan veturinn 2016-2017, þegar hún fékk 6 mánuði strafslaun myndlistarmanna. Verkin á þessari sýningu vann hún þar. Pálína hefur í bæði skiptin m.a. dvalið í SÍM-vinnustofu og hlotið styrki frá Muggi. Pálína fékk einnig ferðastyrk frá Akureyrarstofu 2016.

Um myndlist sína segir Pálína:
,,Frá árinu 1993 hef ég eingöngu málað andlitsmyndir með áherslu á tjáningu tilfinninga gegnum litaval og pensilskrift en ekki á að gera eftirlíkingu af einhverri vissri manneskju. Efniviður sýningarinnar er fólk á förnum vegi í Berlín. Í málverkum sínum reynir Pálína að hafa alla teikningu sem einfaldasta og láta litina og kraft þeirra njóta sín sem best.”

Pálína, eins og hún er kölluð, er fædd og búsett á Akureyri. Hún nam myndlist fyrst í Gautaborg og svo 1982-89 í AKI í Enschede og Jan van Eyck Akademie í Maastricht í Hollandi. Hún hefur einnig BA og Meistaragráðu í almennum málvísindum og hljóðfræði frá Háskólanum í Gautaborg. Þar nam hún einnig siðfræði, og skipulagningu og stjórnun menningarviðburða. Hún vann einn vetur sem safnakennari við Listasafnið í Gautaborg og Norræna vatnslitasafnið á Tjörn í Svíþjóð. Frá Háskólanum á Akureyri hefur hún einnig numið uppeldis- og kennslufræði og hefur því kennsluréttindi. Hún er starfandi fræðslufulltrúi í Listasafninu á Akureyri.

Pálína rak listagalleríið Gallerí+, í Brekkugötu 35 ásamt eiginmanni sínum Joris Rademaker í mörg ár.
Hún hefur verið starfandi myndlistarmaður síðan 1991 að hún flutti til Íslands, eftir 16 ára samfellda búsetu erlendis, og haldið fjölda sýninga og skipulagt marga listviðburði og samsýningar, síðast kvennasýninguna Rífa kjaft í Verksmiðjunni á Hjalteyri á síðasta ári, þáttakendur þar voru 9 konur á ólíkum aldri og ýmist búsettar á Akureyri, í Reykjavík eða í Berlin. Sýningin fjallaði um staðfestu í því að vera myndlistamaður sama þó á móti blási.
Sýningin er opin frá kl. 14-17 um helgar en á virkum dögum er lokað, þó er hægt að koma á öðrum tímum eftir samkomulagi við sýnandann ( í síma 894 5818).

Sýningunni lýkur sunnudaginn 4. júní.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband