Leiðsögn með listamanni á Alþjóðlega safnadeginum

large_19-small

Alþjóðlegi safnadagurinn verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 18. maí næstkomandi og af því tilefni býður Listasafnið á Akureyri upp á leiðsögn með listamanni kl. 12.15-12.45 þann dag. Guðrún Pálína Guðmundsdóttir, fræðslufulltrúi, og Aðalsteinn Þórsson, listamaður, taka á móti gestum og fræða þá um sýningu Aðalsteins, Einkasafnið, maí 2017. Aðgangur er ókeypis.

Aðalsteinn Þórsson (f. 1964) nam við Myndlistaskólann á Akureyri og síðar í Hollandi þar sem hann útskrifaðist með Master of Arts gráðu frá Dutch Art Institute 1998. Hann hefur síðan starfað sem myndlistarmaður, lengst af í Rotterdam, en flutti síðastliðið vor heim í Eyjafjörðinn. Aðalsteinn er þekktur fyrir fjölbreytni í efnisnotkun og vinnubrögðum. Í fyrra birti hann á bloggsíðu sinni teikningadag2016.blogspot.com, nýja teikningu á hverjum degi allt árið um kring.

Þessa sýningu nefnir Aðalsteinn Einkasafnið, maí 2017. Um er að ræða langtímaverkefni sem staðið hefur yfir frá 2002 þar sem Aðalsteinn safnar því sem til fellur eftir eigin neyslu, eða sýnir heimildir um neysluna. Sýningin er stöðutaka í maí 2017.

Alþjóðlegi safnadagurinn er haldinn ár hvert þann 18. maí af International Council of Museums (ICOM). Þátttakendur eru um 35.000 söfn í 140 löndum. Söfn um allan heim skipuleggja dagskrá þann dag, helgina eða jafnvel vikuna alla sem 18. maí ber upp á og hefur það verið gert síðan 1977.

Nánar hér: http://www.listak.is/is/frettir/frettasafn/althjodlegi-safnadagurinn


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband