Halldór Ásgeirsson sýnir í Listasafninu á Akureyri

halldor_mynd

Opnun í Listasafninu á Akureyri, laugardaginn 25. janúar kl. 15
Halldór Ásgeirsson: Tengsl – önnur ferð
25. janúar - 30. mars
 
Sjónlistamiðstöðin opnar fyrstu sýningu ársins í Listasafninu á Akureyri laugardaginn 25. janúar kl. 15. Þar sýnir Halldór Ásgeirsson ný og eldri verk sem kallast á og mynda innbyrðis tengsl. Þegar litið er yfir feril Halldórs má í fljótu bragði greina þræði sem stundum virðast sundurleitir en eru í raun einn órofinn þráður. Allir helstu grunnþættirnir í list Halldórs eru settir fram á sýningunni á nýjan og ferskan hátt; jarðeldurinn, vatnið, ljósið, vindurinn og sögurnar í teikningunum.
 
Gjörningur verður á Torfunefsbryggju kl. 15, þar sem siglt verður inn Eyjafjörðinn með blaktandi myndfána sem Karlakór Akureyrar-Geysir tekur við og kemur fyrir á þaki Listasafnsins.
 
Á opnuninni í Listasafninu verða leiklesin brot úr nokkrum örleikritum eftir Kjartan Árnason en þau verða lesin í heild sinni sunnudaginn 26. janúar kl. 14. Flytjendur eru Arnar Jónsson, Randver Þorláksson, Sigurður Skúlason og Helga E. Jónsdóttir.
 
List Halldórs Ásgeirssonar hefur ætíð verið samofin lífi hans og ferðum um heiminn. Tengslin á milli heimshluta jarðarinnar koma berlega í ljós í hraunbræðsluverkum hans og sýna fram á sömu útkomu á ólíkum stöðum. Kynningarmynd sýningarinnar er gott dæmi; andlit listamannsins og stúlkunnar þakin hraunglerungi úr sitt hvoru eldfjallinu – einu kínversku og öðru íslensku.
 
Gestalistamenn á sýningunni eru skyldmenni Halldórs, þau Helga E. Jónsdóttir og Nói, Jóhann Ingimarsson.
 
Sýningin stendur til  30. mars og er opin alla daga nema mánudaga kl. 12-17. Aðgangur er ókeypis.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband