Guðmundur Ármann sýnir í Populus tremula

Gudmundur-Armann-web

Guðmundur Ármann sýnir olíumálverk, vatnslitamyndir og þrívíð verk í Populus tremula. Sýningin, sem ber yfirskriftina Nærlönd, verður opnuð laugardaginn 25. janúar kl.14.00. Einnig verður hún opin sunnudaginn 26. janúar kl. 14.00-17.00. Aðeins þessi eina helgi.

Vatnslitamyndirnar, sem eru málaðar undir berum himni, eru rannsókn á línum, litum og formum sem birtast okkur í náttúrunni og eru kveikjan að olíumáverkunum sem eru einskonar innra landslag. Olíumálverkin eru unnin á vinnustofunni, sem niðurstöður upplifunar sem var skráð í vatnslit. Þrívíðar myndir eru fundnir hlutir, spýtur sem hafa gegnt hlutverki sínu sem nytjahlutir ýmiskonar. Efniviður sýningarinnar hverfist um nærlönd við Eyjafjörð.

Guðmundur Ármann Sigurjónsson
Lauk prentmyndasmíðanámi 1962. Hóf myndlistarnám 1962 við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og útskrifaðist af málunardeild 1966. Að því loknu lá leiðin til Svíþjóðar og hóf hann þar nám við Konsthögskolan Valand, Göteborgs Universitet 1966 og lauk þar námi við grafíkdeild skólans 1972. Kennararéttindarnám við Háskólann á Akureyri 2002-2003 og í framhaldi af því meistaranám í kennslugrein lista við Háskólann á Akureyri. Lauk M. Ed. námi í menntunarfræðum í nóvember 2012. Starfar nú sem kennari á myndlistakjörsviði listnámsbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Fyrsta einkasýning á Mokkakaffi í Reykjavík 1962 og sýndi þar blekteikningar, nú fylla einkasýningarnar rúma tvo tugi. Þátttaka í fjölda samsýninga hér heima og erlendis. Þátttaka í norrænum myndlistarverkefnum og alþjóðlegum grafíksýningum. Verk í eigu Listasafns Íslands, Listasafns Alþýðu, Listasafnsins á Akureyri, Moderna Museet Stokkhólmi, Tidaholm Museet Svíþjóð. Starfslaun úr launasjóði myndlistar 1986 og 1994. Bæjarlistamaður Akureyrar 1994. Er félagsmaður í Íslenskri grafík og Norræna akvarell-félaginu.

Hugleiðingar um viðfangsefnið
Er hægt að mála það sem er óáþreifanlegt? Andrúmið, birtuna, ilminn, hita eða kulda ¬– það sem við finnum og skynjum. Vindurinn í fangið, hefur hann lit? Má gefa honum form? Þetta andrúm sem er einstök persónuleg skynjun en um leið sammannleg. Eins og vindurinn sem blæs og ber með sér lit af jörð, þetta andrúm sem er svo huglægt markar spor sem má fanga í miðilinn. Með vatni og lit á pappírsörk framkallast skynjunin eins og í leiðslu. Horft er á myndefnið með öllum skynfærum sem kveikja hugarflug líkt og í ævintýri, hughrifin birtast sem mynd af hugsun á örk. Að ganga um fjörur og tína upp veðraða kubba sem settir eru saman og gefnir til baka í formi þrívíðra mynda. Á vinnustofunni verður þessi upplifun sem samsafnað minni sem leitast er við að endurvekja í nýjan miðil, olíumálverk og þrívíðra myndverka. Með endurteknum strokum, gagnsæju litlagi er minnið um birtu, lit og form fangað. Með því að raða fundnum hlutum saman verður til nýtt samhengi.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband