Jón Laxdal sýnir í 002 Gallerí

3_thumb3

Jón Laxdal og 002 Gallerí í Reykjavík

Sýning á verkum myndlistarmannsins Jóns Laxdal opnar á heimili myndlistarmannana Jóhanns Ludwig Torfasonar og Ragnhildar Jóhanns að Sundlaugavegi 10, 105 Reykjavík, laugardaginn 31. ágúst kl. 16.00.

Jón hefur um árabil verið virkur í menningarstarfi á Akureyri. Hann átti hlut að rekstri Rauða hússins og var í hópi þeirra sem hófu Listagilið á Akureyri til vegs og virðingar. Jón kom eftir krókaleiðum inn í myndlistina. Hann nam heimspeki við Hí og hefur látið að sér kveða í skáldskap með útgáfu nokkura ljóðabóka.

Jón hefur haldið á þriðja tug einkasýninga ásamt þátttöku í fjölda sýninga bæði heima og erlendis. Verk eftir hann eru í eigu safna og safnara víða um heim.

002 Gallerí hefur verið starfrækt síðast liðin þrjú ár á heimili Birgis Sigurðssonar í Hafnarfirði og þar hafa yfir fimmtíu listamenn víðs vegar að sýnt verk sín. Galleríið nýtur mikillar sérstöðu í listflóru landsins, þar sem það er í raun íbúð og vistaverur galleristans sem gengur svo langt í að hreinsa út úr íbúðinni fyrir hverja sýningu að ekkert er eftir nema hylkið.

Í þetta sinn gengur 002 Gallerí skrefinu lengra með einskonar yfirtöku á annari íbúð til sýningarhalds. Þó er skrefið sínu styttra því leitast er við halda í heimilið en hleypa myndlistinni upp á veggina. Þannig verður til n.k. heimasýning sem kallast á við hinn forna húslestur.

Letur grípur augað og stafformin leiða það áfram eftir línunum. Við þekkjum texta og lesum hann hvar sem hann kemur fyrir. Letur kallar á lestur og við lestur opnast textinn og með honum öll sú menning og saga sem hann er sprottinn úr. Þetta er auðvitað lykillinn að því af hverju myndverk Jóns Laxdals eru svona grípandi. Jón notar settan texta og umhverfi hans – síður, spássíur og dálka – en list hans felst í því að grípa inn í lestur okkar og snúa uppá ferlið sem leiðir okkur frá letri til texta og skilnings. Öll áferð verkanna spilar þar með og natnin við gerð þeirra, gulnuð blöðin og skýr hlutföll síðu og dálka. Verkin eru þannig eins konar afstraksjón þar sem framsetning og formreglur týpógrafíunnar eru virtar en textinn sjálfur hverfur í bakgrunninn eða umbreytist með samhengi sínu í eitthvað annað. (Jón Proppé, Dans bókstafanna, 2005)

Opnun sýningarinnar er á laugardaginn 31. ágúst frá 16.00-19.00 að listamanninum viðstöddum.

Sýningin verður einnig opin sunnudaginn 1. september frá 14.00 til 17.00 og helgina 7. og 8. september frá 14.00 til 17.00.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband