Katrín Elvarsdóttir og Pétur Thomsen sýna í Listasafninu á Akureyri

lamitpy.jpg

Laugardaginn 12. mars kl. 15 opnar Listasafnið á Akureyri sýninguna Vöknun. Á sýningunni eru verk eftir Katrínu Elvarsdóttur og Pétur Thomsen. Tvo myndlistarmenn sem hafa valið sér ljósmyndina sem miðil og virðast á stundum hafa allt að því fullkomna stjórn á miðlinum, í það minnsta upp að því marki sem raunverulega er mögulegt að hafa stjórn á honum.

Með því að stilla verkum þeirra Péturs og Katrínar upp hlið við hlið er athygli áhorfenda beint að einu þeirra einkenna ljósmyndarinnar sem gerir hana að áhugaverðum listmiðli. Verk þeirra tala beint inn í umræðu samtímans um mörk veruleika og þess sem stendur utan hans, um tilbúinn heim og raunverulegan, um einstaklinginn, manninn og menninguna andspænis náttúrunni. Þrátt fyrir að myndefnin, og þar með tilgangur listamannanna, séu við fyrstu sýn ólík, eiga þau Pétur og Katrín það sameiginlegt að snerta veruleikann undur varlega í verkum sínum.

Katrín Elvarsdóttir (f. 1964) hefur á síðustu árum haft mótandi áhrif á stöðu ljósmyndarinnar innan íslenskrar samtímalistar. Sýningar hennar hafa vakið verðskuldaða athygli og orðið tilefni til umræðna um stöðu og möguleika ljósmyndarinnar sem listmiðils. Katrín er með BFA gráðu frá Art Institute í Boston í Bandaríkjunum.

Pétur Thomsen (f. 1973) hefur vakið athygli, bæði á Íslandi og erlendis, fyrir verk sem fjalla um manninn andspænis, og í náttúrunni, og tilraunir hans til að móta og breyta náttúru í manngert umhverfi. Pétur er með MFA gráðu frá École Nationale Supérieur de la Photographie í Arles í Frakklandi.
Bæði hafa þau haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víða um heim. Sýningin stendur til sunnudagsins 1. maí. Listasafnið er opið alla daga nema mánudaga frá kl 12‐17. Nánari upplýsingar í síma 461‐2610 eða tölvupóst art@art.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband