Samsýningin Remote / Afskekkt í Segli 67 á Siglufirði

36352009_10155509631476516_5038977557198798848_o

Miðvikudaginn 4. júlí kl. 18.00 – 21.00 opnar sýningin Afskekkt í sýningarrými Seguls 67 á Siglufirði. Sýningin er opin daglega kl. 14.00 – 18.00 á Strandmenningarhátíðinni til 8. júlí.
Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni Afskekkt eru allir búsettir, alfarið eða að hluta í Fjallabyggð, og er áhugavert að stefna þeim saman til sýningar á Strandmenningarhátíð.
Listamennirnir eru: Örlygur Kristfinnsson, Brynja Baldursdóttir, Helena Hansdóttir Aspelund, Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Bergþór Morthens, Hrafnhildur Ýr Denke, Brák Jónsdóttir, J Pasila, Arnar Ómarsson, Ólöf Helga Helgadóttir, Helena Stefánsdóttir, Arnar Steinn Friðbjarnarson, Eva Sigurðardóttir, Hólmfríður Vídalín Arngrímsdóttir, Garún, Bára Kristín Skúladóttir.


Afskekkt

Að morgni hátíðardags fara vegaverkamenn á fánum skreyttu fjórhjóli um bæinn og mála sebradýr þvert á akbrautir. Íbúar Fjallabyggðar safnast saman til ræðuhalda, kaffidrykkju og skemmtana. Fólk er uppáklætt og lætur napran norðan vindinn ekki hafa áhrif á hátíðarskapið. Enn snjóar í fjöll, enda erum við stödd í einni af nyrstu byggðum Íslands. Í dag er heldur rólegra yfir Siglufirði en Ólafsfirði þar sem hátíðardagskráin fer fram að mestu. Kötturinn Lóa hirðir ekki um sebrarendurnar og lallar letilega skáhallt yfir Túngötuna. Fjölskyldur aka saman um bæinn og kíkja inn á sýningar og söfn. Hér veit fólk að einstaklingsframtakið er lífsnauðsynlegt sem og samvinna og samhugur í öllum málum. Það hefur sýnt sig að það munar um hverja manneskju og hverja þá skapandi hugsun sem kemur góðu til leiðar. Frumkrafturinn á þessum afskekkta stað stafar frá ólgandi Atlantshafinu, frá stórbrotnum fjallahringnum sem umvefur allt, með norðanstormi og sunnanvindum. Mannlífið er í takti við náttúruna og vitundina um að hér er fegurðin fegurst og drunginn dekkstur.


Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, sýningarstjóri.


Freyja Eilíf sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

36483656_1719907061419225_8352312129029668864_n

Miðvikudaginn 4. júlí kl. 14.00 opnar Freyja Eilíf sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði.


"Listaverk um ferðalög út úr mannslíkamanum inn í aðra heima "Trommukjöt, sýning eftir Freyju Eilíf opnar miðvikudaginn 4. júlí kl. 14:00 – 17.00 í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Til sýnis verða nýleg verk eftir listakonuna sem unnin eru eftir leiðslum út úr mannslíkamanum inn í aðra heima.
Sýningin er opin daglega til 22. júlí frá kl. 14.00 – 17.00

"Á sýningunni Trommukjöt verða málverk, skúlptúrar og vídjóverk sem ég hef unnið sem minjar og vísbendingar annarra tilvistarsviða eftir eigin tilraunir gegnum drauma- og hugleiðsluferðalög. Það sem drífur mig áfram í þessari rannsókn er forvitni um jarðvist mannsins og það sem ekki er staðfastlega vitað um heiminn og okkur sjálf. Með verkunum vil ég færa víddirnar, raunverulegar og ímyndaðar, huldar og óstaðsettar inn í okkar veruleika. Til þess að varðveita þær og færa hugmyndina um víddirnar nær okkur og þenja þannig svæði mannshugans sem og heiminn sem hann dvelur í.

Freyja Eilíf er fædd í Reykjavík 1986 og útskrifaðist af myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2014. Hún hefur unnið sýningar víða um Norðurlönd og Evrópu ásamt því að starfrækja sýningarýmið Ekkisens í Þingholtunum í miðbæ Reykjavíkur til dagsins í dag sem hún stofnaði árið 2014. Freyju voru veitt laun úr starfsjóði listamanna árið 2018 og að auki hefur hún hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir störf sín á sviði myndlistar, svo sem tilnefningu til Menningarverðlauna DV 2016 og Tilberann árið 2015.

Freyja Eilíf 692-5114

Uppbyggingarsjóður/Eyþing, Fjallabyggð, menningarsjóður Siglufjarðar og Egilssíld styrkja menningarstarf í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.


Vinnustofur og sýningarrými til leigu í Listagilinu

listak

Listasafnið á Akureyri hefur til leigu tvö mismunandi rými fyrir listamenn á Akureyri. Rýmin eru hugsuð sem vinnustofur og sýningarrými sem reglulega væru opin almenningi. Þar væri boðið upp á viðburði og starfssemin sem þar færi fram þyrfti að tengjast og vera í samvinnu við aðra starfssemi í Listagilinu.

Húsnæði til leigu:

1. Rými að stærð 60 m2
þar sem áður var Mjólkurbúðin og Jónas Viðar Gallerí. Mánaðarleiga er 80.000 kr.

2. Rými að stærð 110 m2
þar sem áður voru geymslur Listasafnsins. Mánaðarleiga er 110.000 kr.

Húsnæðið leigist frá 15. ágúst 2018 til 4 ára að uppfylltum skilyrðum. Tilboðum skal skilað á listak@listak.is fyrir 10. júlí 2018. Þriggja manna dómnefnd velur úr innsendum umsóknum.

Kynningarfundur verður haldinn mánudaginn 2. júlí kl. 16 í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. Þar verður húsnæðið sýnt og spurningum svarað.


Bloggfærslur 29. júní 2018

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband