Bloggfærslur mánaðarins, október 2016

Ragnheiður Harpa Leifsdóttir með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu

14525028_1242389062449600_1278000692562077291_o

Þriðjudaginn 11. október kl. 17-17.40 heldur Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, sviðshöfundur, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, undir yfirskriftinni „Þetta er allt eins og klukknahljómur úr djúpinu“. Í fyrirlestrinum fjallar hún um tilurð verka sinna og veitir innsýn í starfsaðferðir sínar sem sviðshöfundur og lýsir hugmyndafræðinni að baki þeim. Einnig mun hún ræða um sína áhrifavalda og það sem henni þykir nauðsynlegt í sköpun. Aðgangur er ókeypis.

Ragnheiður Harpa lauk B.A. námi úr Listaháskóla Íslands 2011 og lagði stund á sambærilegt nám í University of Dartington 2010. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, leiksýninga og innsetninga bæði á Íslandi og erlendis. Af verkum hennar má nefna Söng kranans, sem tilnefnt var til Grímunnar 2016, Skínöldu, samstöðugjörning með ljósi fyrir UN Women, og Flugrákir: „… og veröldin var sungin fram“, lokaverk Listahátíðar 2014. Ragnheiður Harpa stundar nú framhaldsnám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað útvarpsleikrit, gefið út smásögur og vinnur nú að ljóðahandriti sem verður frumflutt á ljóðahátíð í Istanbúl í haust.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, myndlistarkona, Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður og Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.


Ljósmyndabók um Kjólagjörninginn

large_19e2b57a1b74ca5f2a7a2741c3dfec0f

Í tilefni af sýningu Thoru Karlsdottur, Kjólagjörningur, í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi verður ljósmyndabók hennar og Björns Jónssonar gefin út 12. nóvember. Á sýningunni má sjá afrakstur níu mánaða kjólagjörnings Thoru sem stóð yfir frá mars til desember 2015 þar sem hún klæddi sig í nýjan kjól á hverjum morgni og klæddist kjól til allra verka. Á meðan á gjörningnum stóð tók Björn daglega ljósmyndir af Thoru. Hann átti stóran þátt í ferlinu; hafði áhrif og kom með hugmyndir varðandi staðsetningu og vinnslu myndanna. 

Á vefsíðu Karolina Fund stendur yfir hópfjármögnun þar sem hægt er að kaupa bókina fyrirfram. HÉR má sjá frekari upplýsingar: https://www.karolinafund.com/project/view/1516


Cistam sýnir á Bókasafni Háskólans á Akureyri

james-copy

Cistam er listamannsnafn James Earl Ero Cisneros Tamidles, sem er 25 ára gamall listamaður og parkourþjálfari á Akureyri. Hann er fæddur á Filippseyjum en flutti hingað til lands með móður sinni þegar hann var 6 ára og hefur búið hér síðan. Hann gekk fyrst í Hrafnagilsskóla, síðan í Oddeyrarskóla og lauk svo stúdentsprófi frá MA 2011. Hann stundaði jafnframt nám í Myndlistaskólanum á Akureyri og brautskráðist úr fagurlistadeild 2015.

Cistam hefur vinnustofu á þriðju hæð í Rósenborg, var áður á efstu hæð Listasafnsins. Hann hefur tekið þátt í mörgum sýningum og átt verk víða. Hann gerði spreylistaverk í Gilinu á Akureyrarvöku 2014 og hélt þá líka einkasýningu í MA. Hann hefur einnig átt vegglistaverk á Hjalteyri og sýndi ásamt Jónínu Björgu Helgadóttur í MA 2015. Þá tók hann þátt í samsýningunni Sköpun bernskunnar 2016. Þá er ótalið að hann hefur leyft teikniáráttunni að blómstra við að gera skopmyndir í útskriftarbækur framhaldsskólanna, Carminu og Minervu, á árunum 2010-2016.

Samhliða listinni hefur James lagt mikla áherslu á hreyfingu á borð við parkour og segir þá  íþróttaiðkun hafa verið sér mikill innblástur ásamt tölvuleikjum, teiknimyndum og myndasögum.
Í þessari sýningu er hann að prófa sig áfram með olíumálningu og viðfangið hans eru norðurljósin. Hann málar landslag eftir ljósmynd og norðurljósin sjálf eftir upplifun, þar sem þau eru síbreytileg á næturhimninum.

Sýningin stendur til 31. október 2016 og er opin á opnunartímum bókasafnsins, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 8:00 – 16:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 8:00 – 18:00. Lokað um helgar.


Ljósmyndamessa í Deiglunni

14543730_1276809638996255_8869229557610531352_o


Helgina 8. - 9. október fer fram ljósmyndamessa í Deiglunni.
Þar verða til sýnis ljósmyndir eftir norðlenskt listafólk, bæði sem stundar iðju sína af áhuga og eldmóði eða starfar við ljósmyndun á einn eða annan hátt.

Sýningarstjóri er Daníel Starrason
Sýningin er opin kl 14 - 17 á laugardag og sunnudag
Allir eru velkomnir.
Þátttakendur:
Daníel Starrason
Eyþór Ingi Jónsson
Linda Ólafsdóttir
Völundur Jónsson
Margrét Elfa Jónsdóttir
Agnes Heiða Skúladóttir
Rolf Birgir Hannén
Elver Freyr Pálsson

Ljósmyndamessan er á vegum Gilfélagsins og er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra og Akureyrarstofu.

https://www.facebook.com/events/1201630156561972


Dr. Thomas Brewer með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri

large_thomas-brewer-vefur

Þriðjudaginn 4. október kl. 17 heldur Dr. Thomas Brewer, myndlistarmaður og prófessor í listum, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu, Ketilhúsi, undir yfirskriftinni The Significance of Art in Our Education. Í fyrirlestrinum, sem fer fram á ensku, fjallar hann m.a. um hvernig list og menntun geta haft áhrif á lífið. Brewer mun rekja persónulega sögu sína, ásamt listrænni og faglegri þróun sem hefur leitt hann til Akureyrar í fimmta sinn. Aðgangur er ókeypis.

Dr. Thomas Brewer er með B.A. gráðu í listum og keramík frá Southern Illinois University Carbondale (1973), M.A. gráðu í listum frá University of Illinois Urbana-Champaign (1985) og Ph.D. gráðu í listum frá Florida State University (1989). Hann hefur kennt listir og listnám á háskólastigi undanfarin 34 ár.

Brewer opnaði sýninguna "Adjust <X> Seek (Con’t)" í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri 1. október og hefur dvalið í gestavinnustofu Gilfélagsins síðan í byrjun september. Þetta er hans fyrsta sýning á Íslandi. Í mörgum verka hans er leikur að orðum og aðstæðum í lífinu, með keim af kímni og kaldhæðni.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, listakona, Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, myndlistarkona, Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður, Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.

listak.is


REITIR hefja hópfjáröflun

14500441_1127756147316736_4467400869574196336_o

REITIR hefja hópfjáröflun: Safna fyrir útgáfu af bók

Síðan 2012 hafa REITIR árlega boðið um 25 manns alls staðar að úr heiminum, til Siglufjarðar til að taka þátt í tveggja vikna tilraunakenndri smiðju sem fjallar um samstarf, staðarvitund, þverfagleg verkfæri og félagslega þátttöku og virkni í almenningsrýminu. Þátttakendur REITA koma víða að og búa að fjölbreytni starfsreynslu og sérfærni. Þau þróa saman hugmyndir sem eiga uppruna sinn úr nærumhverfinu. Markmið REITA er að vera virkur og áhrifamikill hluti af menningarlandslagi og uppbyggingu Siglufjarðar og skapa traustan grunn að skapandi samstarfi með nýnæmi og gagnrýna hugsun að leiðarljósi.

Fólkið á bakvið REITI eru nú langt komin með bók sem greinir og miðlar hugmyndafræði smiðjunnar á 350 blaðsíðum. Bókin er innihaldsríkur leiðarvísir að menningartengdu frumkvöðlastarfi og innblástur fyrir alla áhugasama lausnamiðað skapandi starf. Þau eru í raun að kryfja verkefnið, sem fyrsta síns eðlis á íslandi og gera öðrum kleift að nýta sér aðferðafræði og hugmyndir sem er beitt.

Þau hófu hópfjáröflun á Karolina fund í gær, en það er mikilvægt fyrir REITIR að nota hópfjármögnunarmiðla frekar en útgáfufyrirtæki, því það sýnir vel hvað ferlið &#39;frá hugmynd að veruleika&#39; er aðgengilegt öllum; ferli sem er unnið mikið með í smiðjunni.

Bókin er væntanleg síðar á árinu og verður útgáfa og sýning í Listasafninu á Akureyri 17. desember 2016.


Endilega skoðaðu meira um smiðjuna hér: www.reitir.com

og fylgist með gang mála á á facebook.com/reitir og á Karolina Fund (https://www.karolinafund.com/project/view/1527)



« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband