Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2013

Þóra Karlsdóttir opnar málverkasýningu í Mjólkurbúðinni í Listagilinu

thora.jpg


Þóra Karlsdóttir opnar málverkasýninguna "Back to the Roots"  í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 9. febrúar, klukkan 15:00.

Þóra sýnir málverk sem hún vann í ágúst á síðasta ári meðan hún dvaldist í gestavinnustofunni í Listagilinu á Akureyri. Málverkin eru unnin m.a. með tækninni, image transfer, en þar notast Þóra við ljósmyndir sem faðir hennar Karl Hjaltason tók á bernskuárum hennar á Akureyri. Einnig sýnir Þóra vídeóverkið "Catching the Spirit" sem hún vann á sama tíma.

Þóra stundar nú nám í myndlist við Evrópsku Lista Akademíuna í Trier í Þýskalandi og útskrifast í vor, en hún vinnur að lokaverkefninu um þessar mundir á Akureyri.

Þóra hélt sína fyrstu einkasýningu, ALL ABOUT RUST, í Luxembourg 2007. Einnig hefur hún sýnt víða erlendis, bæði í Luxembourg, Þýskalandi og Austurríki.
  Hún var m.a. valin til þátttöku í virtri samsýningu EVBK. Prum í Þýskalandi þrjú ár í röð, árin 2009, 2010 og 2011.
 
Þóra er fædd á Akureyri 1962 og ólst þar upp, en fluttist þaðan fyrir þrjátíu árum. Hún hefur búið víða erlendis síðastliðin tuttugu ár og er nú búsett í Luxembourg og þar er hún með vinnustofu í gamalli lestarstöð ásamt fleiri listamönnum. 
Þóra hyggst flytja til Akureyrar aftur í vor þegar hún hefur lokið náminu og ætlar að vinna við myndlist. Í myndlistinni finnst henni mikilvægt að leita nýrra leiða og uppgötva nýjar aðferðir til tjáningar í listsköpun.

Sýning Þóru "Back to the Roots" stendur til 24.febrúar og eru allir velkomnir.
Mjólkurbúðin er opin laugardaga og sunnudaga kl. 14-17 og eftir frekara samkomulagi þess utan.

Þóra Karlsdóttir s.6914839 thorakarlsdottir@gmail.com http://karlsdottir.com

Mjólkurbúðin s.8957173


HEILSUBÆTANDI LIST

3-1.jpg

Um sýningu Jóhönnu Helgu Þorkelsdóttur
eftir G. Pálínu Guðmundsdóttur
fræðslufulltrúa Sjónlistamiðstöðvarinnar

Kveikja, innsetning myndlistarmannsins Jóhönnu Helgu Þorkelsdóttur í Ketilhúsi, er unnin sérstaklega fyrir sýningarsalinn sem á sér ekki hliðstæðu á Íslandi vegna þess hversu hátt  er þar til lofts. Fáir myndlistarmenn hafa nýtt sér þessa sérstöðu, utan Örnu Valsdóttur sem vann innsetningu á Listasumri 2007 þar sem birtan, gluggarnir og speglun þeirra var látið spila saman. Sýning Jóhönnu umbreytir rými hússins og afmáir mörkin milli innri og ytri veruleika byggingarinnar.

Náttúrustaðgenglar og tilfinningar

Jóhanna vinnur einnig með gluggana  og hvernig endurkast sólarljóssins hefur áhrif á arkitektúr hússins og þá sem þangað koma. Hún tók ljósmyndir af sólarljósinu sem flæddi inn í Ketilhúsið á ákveðnum tímapunkti og vann verkið svo áfram í samstarfi við arkitektinn Söru Axelsdóttur. Um innsetninguna segir Ingibjörg Sigurjónsdóttir  í sýningarskrá:  „Í sýningunni Kveikju er meðal annars tekist á við upplifun mannsins í náttúrunni og hvernig hægt sé að líkja eftir þeirri dularfullu vellíðan sem oft fylgir náttúruupplifun, án aðkomu náttúrunnar sjálfrar”.
Þetta er ekki ósvipuð hugmyndafræði og var á bak við verk Ólafs Elíassonar í Tate Modern í London 2003. Sýning Ólafs sló rækilega í gegn en þar sýndi hann m.a. manngerða sól í risastóru rými túrbínusalarins. Í kjölfarið fylgdi fossa-verk hans í New York þar sem hann sýndi endurgerð af fossum, staðsettum í borgarumhverfi, með hjálp stálgrinda og vatnsafls. Verkin vöktu, ekki síður en „sólin“ í London, sterk viðbrögð áhorfenda vegna tengingar þeirra við frummyndir náttúrunnar.

Áhrif stórborga í Ketilhúsinu

Jóhanna nam myndlist við Listaháskóla Íslands og í Chicago. Hægt er að greina sterk áhrif frá Ameríku í verkum hennar og verkin sem staðsett eru á efri hæð Ketilhússins eiga uppruna sinn frá tíma Jóhönnu í Chicago. Næm tilfinning fyrir rými og stærðum er meðal þess sem oft einkennir framsækna, ameríska list, sem og djörfung og drifkraftur. Jóhanna  sýnir ótrúlega natni við að mæla út og líma eftirmyndir sólarljóssins á gólf og veggi hússins. Tilfinningin fyrir amerískri stórborg og himinháum skýjakljúfum býr þarna einhvers staðar á bak við. Í slíku umhverfi er án vafa mikil þörf fyrir náttúruna og það virðist í raun lítið mál að tefla fram manngerðri náttúru til að ýta undir áhrifamátt hennar í þéttbýlinu.  
Akureyri er aftur á móti láreist, umvafin fjöllum, og ekki vantar tengingu við náttúruna þótt sólarljósið sé af skornum skammti yfir veturinn.  Þannig virkar þessi tilfinning fyrir sól og birtu í Ketilhúsinu útvíkkandi og mikilfengleg, akkúrat það sem fólk þarf mest á að halda í svartasta skammdeginu. Gestsauga Jóhönnu er glöggt því sá sem dvelur langdvölum á Akureyri er ekki líklegur til að nálgast Ketilhúsið með þessum hætti. Það er engu líkara en að húsið stækki allt og þenjist út vegna skúlptúrsins við norðurvegginn sem búinn er til úr fjölda af mjög sterkum flúrperum sem mynda einskonar foss.  Dagsljósaperurnar draga að sama skapi betur fram gulu límfilmunnar á gólfinu. Birtan virkar vel á sálarlíf áhorfenda sem oftar en ekki fara glaðari út en inn. Á austurvegg hanga stórar samsettar ljósmyndir af vatni, beint á móti þessum gulu staðgenglum sólarljóssins úr plasti, og tengir það áhorfandann enn frekar við náttúruna því án vatns þrífst ekkert líf.

8prenta_minna1

Þörf fyrir birtu í skammdeginu

Á svölum efri hæðar hússins eru þrjár myndir, upplýstar af dagsbirtulömpum sem gagnlegir eru til að framkalla vellíðan í skammdeginu. Á þessum myndum eru ljósmyndir af hafinu við strendur Spánar, líkt og á myndunum á neðri hæð, en hér hefur Jóhanna hellt að hluta til yfir þær flæðandi hlýjum vatnslitum. Hægt er að setjast fyrir framan þær, horfa í birtuna frá þeim og hlusta á 8 mínútna langa hugleiðslu sem unnin var í samvinnu þeirra Jóhönnu, Mögnu F. Birnir hjúkrunarfræðings og dáleiðanda og Sveins Ólafs Gunnarssonar leikara. Ingibjörg Sigurjónsdóttir hefur skrifað texta með sýningunni sem birtur er í styttri útgáfu í sýningarskrá og í heild sinni á heimasíðu Sjónlistamiðstöðvarinnar (sjá: sjonlist.is). Í grein sinni skrifar Ingibjörg m.a. að „í sýningunni sé meðvitað reynt að flytja eftirlíkingar af náttúrunni inn í manngert umhverfi líkt og landslagsmálverk gera, þótt miðlarnir hér séu örlítið frábrugðnir...” Þá nefnir Ingibjörg að Jóhanna hafi kynnt sér rannsóknir sem sýna að maðurinn hafi meðfædda þörf fyrir návígi við náttúruna. Telur hún að jafnvel náttúrustaðgenglar geti gagnast okkur á svipaðan hátt.
Trúlega gildir þetta einnig um ástvini fólks og gæludýr, þ.e. að eftirlíkingar af þeim í formi myndverka af einhverju tagi geta framkallað vellíðan. Náttúran er endurnærandi sé hennar notið í afslappaðri göngu í góðu veðri en streituvaldandi séu veðurskilyrði mjög slæm, hvort sem um er að ræða, fárviðri og fimbulkulda eða óbærilegan hita. Hér er þó ekki verið að fjalla um það heldur annars vegar hvernig listin eflir andann, víkkar sjóndeildarhringinn og eykur næmi og skynjanir og hins vegar hvernig nota megi náttúrustaðgengla í manngerðu umhverfi, fólki til heilsubótar.

Listin og náttúran

Hugmyndafræði sýningarinnar og öll  framsetning hennar er til fyrirmyndar. Þetta er athyglisverð sýning sem framkallar áhrif í áhorfandanum sem trúlega væri hægt að mæla vísindalega á marga vegu, s.s. breytt flæði vellíðunarhormóna o.fl. Vísindalegar niðurstöður af áhrifum lista á áhorfandann eru þó ekki endilega það mikilvægasta heldur hvernig hver og einn nýtur þess sem hann sér, finnur og heyrir, ásamt því hvaða áhrif það hefur á fagurfræðilega skynjun hans á umhverfinu, heiminum og félagslegum aðstæðum sínum. Þetta er óvenjuleg sýning sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Jóhanna er uppalin á Akureyri og er þetta önnur sýning hennar hér fyrir norðan, en á Akureyrarvöku 2004 sýndi hún verk sín í Gallerí+. Verður áhugavert að fylgjast með listrænni þróun hennar. Sýningin stendur til og með 24. febrúar og er opin alla daga nema mánudaga og þriðjudaga, frá kl 13-17. Aðgangur er ókeypis.
Miðvikudaginn 20. febrúar kl. 16.00, verður viðburður í Ketilhúsinu þar sem Magna Birnir býður upp á dáleiðsluslökun unnin upp úr náttúrulýsingum og Páll Jakob Líndal, Dr. nemi í umhverfissálfræði flytur fyrirlestur.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband