Bloggfærslur mánaðarins, júlí 2012

Inga Björk opnar sýningu í Mjólkurbúðinni

attachment_1161993.png

Sýning Ingu Bjarkar Harðardóttur Draumeindir opnar í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri, laugardaginn 14. júlí kl.15.
Innblástur sinn sækir Inga Björk vanalega í íslenska náttúru og umhverfi en nú kveðjur við annan tón. Inga Björk tekst á við abstrakt í olíumálverkum þar sem listakonan leitar inn á við og er efniviður  sýningarinnar tilfinningar. Barátta hamingju og gleði við depurð og angist flæðir um myndflötinn. Í tengslum við sýninguna setur listakonan fram ljóð móður sinnar, Önnu Maríu, í rýmið og endurspegla þau flæði tilfinninganna og kallast þau á við málverkin í túlkun og lit.
Inga Björk Harðardóttir er menntuð sem myndlistarmaður, gullsmiður og kennari auk þess að vera móðir þriggja barna og fjögurra stjúpsona.
Draumeindir eru fimmta einkasýning Ingu Bjarkar og stendur hún til 29.júlí.
Mjólkurbúðin er opin laugardaga og sunnudaga kl.14-17 og eru allir velkomnir.

Inga Björk Harðardóttir s.8621094
Mjólkurbúðin Listagili er á facebook – vertu vinur!

Joris Rademaker sýnir í Festarkletti 14. og 15. júlí

t_festarklettur1

Laugardaginn 14. júlí kl. 14.00 opnar Joris Rademaker sýninguna Kartöflur í geymslu í Festarkletti-listhúsi í Kaupvangsstræti 29 á Akureyri.
Joris sýnir málverk unnin útfrá kartöflum og fannst þetta tilvalinn staður til að sýna þau vegna þess að á þessum stað var um árabil kartöflugeymslur bæjarbúa. Logi Einarsson endurbyggði staðinn í arkitektastofu og síðan breytti Óli G. Jóhannsson því í Festarklettur-listhús. Joris sýnir ný málverk og vinnur þau út frá hringforminu. Sýningin er bara opin þessa einu helgi frá kl. 14-17.00. Allir eru velkomnir.


Hugsteypan opnar myndlistarsýningu í Flóru 14. júlí

floramynd.jpg

Laugardaginn 14. júlí kl. 14 opnar Hugsteypan myndlistarsýningu sem nefnist „Á þeim tíma” í Flóru í Listagilinu á Akureyri.

Hugsteypan er samstarfsverkefni Ingunnar Fjólu Ingþórsdóttur (f. 1976) og Þórdísar Jóhannesdóttur (f. 1979). Þær útskrifuðust báðar úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands árið 2007. Ingunn lauk einnig B.a. prófi í listasögu árið 2002, en Þórdís kennsluréttindanámi árið 2009. Hugsteypan varð til árið 2008 er þær Ingunn og Þórdís sýndu í fyrsta skipti samvinnuverk í Start Art Listamannahúsi. Síðan þá hefur Hugsteypan tekið þátt í fjölda sýninga t.a.m. í Hafnarborg, Kling & Bang Gallerí, Listasafni Árnesinga, og Listasal Mosfellsbæjar auk nokkurra samsýninga erlendis.
Verk Hugsteypunnar eru gjarnan margþættar innsetningar sem fjalla um mörk vísindalegra rannsókna og fagurfræðilegrar túlkunnar. Verkin bera þannig keim af rannsóknarferli þar sem þættir eins og listasaga, sjónmenning, framsetning og túlkun verka eru settir undir smásjá. Oft eru verkin unnin út frá kerfum og greiningarferlum, bæði þekktum og heimatilbúnum, sem Hugsteypan gefur sér listrænt frelsi til að nota að vild.

Á þeim tíma er innsetning unnin út frá sjálfu sýningarrýminu í Flóru. Rannsókn Hugsteypunnar að þessu sinni beinist að hráu kjallararýminu og ferðum um það. Flæði birtu og fólks um rýmið er fangað með myndavél sem skráir einstök augnablik, athafnir og tilfinningar sem þar eiga sér stað. Myndirnar eru svo bundnar saman í myndband sem varpast á ný inní rýmið og blandast veru og upplifun áhorfandans í rauntíma.
 
Sýningin er öllum opin á opnunartíma Flóru og stendur til laugardagsins 29. Júlí 2012. Einnig verður boðið upp á listamannaspjall með Ingunni og Þórdísi, sunnudaginn 15. júlí kl. 20.00.

Nánari upplýsingar veita Ingunn í síma 693 5979 og Þórdís í pósti thordisj@gmail.com

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.

Hugsteypan
Á þeim tíma
14. - 29. júlí 2012
Opnun laugardaginn 14. júlí kl. 14
Flóra, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

hugsteypa1.jpg


SYNTAGMA - Síðasta sýningarhelgi

syntagma_vef-300x417

SYNTAGMA
Síðasta sýningarhelgi í Listasafninu á Akureyri - opið miðvikudaga til sunnudaga frá 13-17


Nú fer hver að verða síðastur að sjá hina athygliverðu stórsýningu Syntagma í Listasafninu á Akureyri, en sýningunni lýkur sunnudaginn 8. júlí.
Sýningin er samsýning listamannanna Hildar Hákonardóttur, Óskar Vilhjálmsdóttur, Steinunnar Gunnlaugsdóttur og spánverjans Santiago Sierra. „Engin sko sérstakur“ er sýningarstjóri sýningarinnar, auk þass að sýna í leið hið umdeilda „Mál“ með varafari Jóhönnu Sigurðardóttur forsetisráðherra.
Til að draga saman inntak sýningarinnar, mætti segja að hún varpi fram verufræðilegum og þekkingarfræðilegum spurningum á borð við mörk merkingar og merkingarleysis, samspilið milli samhengis og kerfis, reglu og óreiðu. Hún spyr einnig aðkallandi spurninga um þessa gjá, eða öllu heldur tómarúm, milli ólíkra þekkingarsviða; á milli vísinda og lista, kapítalisma og viðtekinna viðskiptahátta, náttúrunnar og innsta eðli mannsins og krefst svara við því hver ráði eiginlega yfir óskráðum siðareglum samfélagsins eftir að kirkjan glataði að mestu því áhrifavaldi á vesturlöndum.
 

Fyrir þá sem ekki komast á sýninguna má sjá yfirferð og persónulegar hugleiðingar Hannesar Sigurðssonar sjónlistastjóra í nýjasta þætti Sjónpípunnar hér: http://youtu.be/NjNKG4hz8XY


Meðfylgjandi er stutt yfirlit um feril listamannanna:
 
Hildur Hákonardóttir er fædd árið 1938 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1968 og stundaði framhaldsnám við Edinburgh College of Art frá 1968-69. Hildur var meðlimur í SÚM hópnum og skólastjóri Myndlista- og handíðaskólans á árunum 1975-78. Auk þess að stunda list sína og taka virkan þátt í kvennabaráttunni, hefur hún unnið ýmis stjórnunarstörf og m.a. sem stjórnarformaður ullarvinnslunnar Þingborgar. Auk teikninga hefur Hildur mikið unnið listsköpun sína í textíl.
Ósk Vilhjálmsdóttir er fædd árið 1962 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1986 og stundaði framhaldsnám við Hochschule der Künste í Berlín á árunum 1988-1994. Ósk hefur haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum, bæði hér heima og erlendis. Hún hefur verið virk í baráttu fyrir umhverfismálum, meðal annars gegn Kárahnjúkavirkjun, og hún er einn stofnenda Framtíðarlandsins. Verk Óskar, sem oft eru á mörkum innsetningar og málverksins, fjalla mörg hver um hnattvæðinguna og náttúruna, samspil manns og náttúru, neysluhyggju og kapítalisma.
Steinunn Gunnlausdóttir er fædd árið 1983 í Reykjavík. Hún útskrifaðist úr Listaháskólanum árið 2008. Steinunn hefur á síðustu árum unnið fjölda verka með blandaðri tækni, innsetningar og gjörninga, bæði ein og í ýmsum listahópum og tvíeykjum. Verk Steinunnar einkennast af flugbeittum skotum á stofnanir og gildi samfélagsins, náttúruspjöll og eyðileggingu kapítalismans og stórfyrirtækjanna sem vinna á þeim forsendum, ekki síður en hræsni og skinhelgi okkar (smá)borgaralega samfélags. Steinunn hefur verið virk í starfi hinnar róttæku umhverfisverndahreyfingar Saving Iceland, en hún er einn hinna svokölluðu nímenninga úr búsáhaldabyltingunni sem að ofan er getið.
Santiago Sierra er fæddur árið 1966 í Madríd. Sierra, sem hefur mikið starfað á Spáni og í Mexíkó, er einn af framsæknustu og umdeildustu myndlistarmönnum Spánar í dag. Í verkum sínum tekst Sierra á við spurningar um ójöfnuð og réttlæti í hinu kapítalíska þjóðskipulagi, samskipti „suðursins“ og „norðursins“, eðli listarinnar og hvaðan siðgæðið er sprottið. Sierra hefur haldið ótal einkasýningar á undanförnum árum, auk þess að taka þátt í fjölda samsýninga. Sierra hefur meðal annars verið fulltrúi Spánar á Feneyjartvíæringnum og hefur hann verið sýndur í mörgum af helstu listasöfnum og nútímalistagalleríum heims. Sierra kom til Íslands í janúar í ár og framkvæmdi hann gjörninga í fjóra daga víðsvegar um Reykjavík í tengslum við heimsreisu á verkinu “NO Global Tour”. Skildi hann eftir sig skúlptúr fyrir framan Alþingishúsið, „Minnismerki um borgaralega óhlýðni“, sem er stór bergmoli klofinn í herðar niður eftir endilöngu af massífum keilulaga stálfleyg.


Nes auglýsir gestavinnustofur fyrir 2 íslenska listamenn - frí dvöl, styrkur vegna efniskostnaðar

skagastrond

KUL

Könnun umhverfisáhrifa á listsköpun

Skagaströnd

1. – 30. september 2012

 

KUL er þverfaglegt verkefni í listsköpun, í umsjón Nes listamiðstöðvar á Skagaströnd, sem haldið verður í september nk.. Verkefnið tengir saman íslenska og erlenda listamenn sem dvelja einn mánuð í listamiðstöðinni og því lýkur með hátíð, þar sem listamennirnir sýna hvernig Skagaströnd og nágrenni hefur áhrif á listsköpun þeirra.

 

KUL verkefnið fjallar um listsköpun og áhrif umhverfisins á hana. Markmið verkefnisins miðar að því að skapa afurð sem hægt er að vinna að á staðnum, afurð sem er hagnýt, afurð sem getur verið þverfagleg og sem örvar huga og hönd. KUL miðar að því að skapa tengsl milli listforma, þar sem við erum til staðar og virk. Verkefnið kannar samræðuna milli staðarins og tilverunnar, hvernig við erum mótuð af innri og ytri aðstæðum og hina síkviku og gagnvirku mótun umhverfis og sjálfsins.

Nes listamiðstöð auglýsir eftir tveimur íslenskum listamönnum, til að dvelja í listamiðstöðinni í september, sem eru tilbúnir til að taka þátt í KUL. Innifalin er frí dvöl í listamiðstöðinni og styrkur vegna efniskostnaðar, gegn framlagi listamannanna til verkefnisins.

Lokahátíð KUL verður á Skagaströnd 29. september, með listkynningum og matarviðburðum, listamannanna, matreiðslumanna á svæðinu og heimamanna.

Einn þáttur í KUL er matreiðsluverkefni sem Henry Fletcher, sérfræðingur í nýtingu vannýttra hráefna, stjórnar. Hann mun safna plöntum og sjávarfangi við strendur Skagastrandar og nágrennis og vinnur síðan með matreiðslumönnum á svæðinu að nýta hráefnin við að skapa nýjar mataruppskriftir og endurbæta gamlar. Þeir matreiðslumenn sem taka þátt í verkefninu eru Gunnar Sveinn Halldórsson í Kántrýbæ á Skagaströnd, Björn Þór Kristjánsson og Shijo Mathew í Pottinum Restaurant á Blönduósi og Jón Daníel Jónsson á Sauðárkróki.

KUL er hugmynd sem Tanja Geis, Henry Fletcher, Jacob Kasper og Andrea Cheatham Kasper áttu frumkvæði að. Verkefnið er í umsjón Melody Woodnutt, framkvæmdastjóra Nes listamiðstöðvar.

Nes listamiðstöð er staðsett á Skagaströnd og í ár dvelja þar yfir 100 listamenn frá fjölmörgum þjóðlöndum. Vaxtarsamningur Norðurlands vestra styrkir KUL verkefnið.

 

Umsóknarfrestur hefur verið framlengdur til 29. júlí 2012.

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni:  http://neslist.is/

Netfang: Melody Woodnutt:  nes@neslist.is

Sími: Melody Woodnutt:  691 5554

Umsóknareyðublað:  http://neslist.is/application/call-for-artists/


Ragnheiður Þórsdóttir og Sigríður Ágústsdóttir sýna í Ketilhúsinu

samspil_augl_small.jpg

SAMSPIL–ENSEMBLE–INTERPLAY
Ragnheiður Þórsdóttir og Sigríður Ágústsdóttir
Laugardaginn 7. júlí kl. 15:00 í Ketilhúsi

Sjónlistamiðstöðin kynnir samspil tveggja þekktra nafna í hagvirkri myndsköpun, þeirra Sigríðar Ágústsdóttur og Ragnheiðar Þórsdóttur. Báðar hafa þær helgað sig listagyðjunni og útbreiðslu á fagnaðarerindi hennar með sköpun, kennslu og virkri þátttöku í menningarlífi bæjarins, en þó eftir ólíkum leiðum.
Ragnheiður hefur einbeitt sér að rauða þræðinum í listinni, ef svo má segja, og sýnir hér ofin verk sem gjarnan eiga sjónrænar rætur að rekja allt aftur til landnáms og teygja sig æðruleysislega inn í hamagang og sundurlyndi 21. aldar, en undir það síðasta hefur röggvarfeldurinn átt hug hennar allan.
Sigríður heldur sig hins vegar við brothættara svið hlutveruleikans, leirkerasmíðina, og eru verk hennar einföld og sígild að formi og bera með sér andblæ sem við þekkjum vel úr íslenskri náttúru; lágmælta tóna svarðar og foldar sem framkallast á yfirborðinu við reykbrennslu.


María Ósk sýnir í Deiglunni

_ps_oops_woops.jpg
 
7. maí til 27. Maí
Sýningin er opin miðvikudaga til sunnudaga frá 13 til 17

Myndlistarmaðurinn María Ósk lætur hér í fyrsta sinn að sér kveða á opinberum vettvangi og sýnir bæði teikningar og málverk. Verk Maríu eru margvísleg að gerð en eiga það þó sameiginlegt að vera öll figurative,  í dansandi litum og  sveipuð dulúð. María fæddist á Akureyri árið 1987 og útskrifaðist með B.A.-gráðu í myndskreytingum frá Designskolen í Kolding (Kolding school of design) í Danmörku í lok júní 2012. Frá 2007-2008 nam hún grafík við danska lýðháskólann Den Skandinaviske Designhöjskole eftir að hafa útskrifast úr Menntaskólanum á Akureyri frá félagsfræðibraut.
Deiglan er hluti af Sjónlistamiðstöðinni á Akureyri

Birgir Sigurðsson með listamannsspjall í Flóru

birgirflora.jpg


Birgir Sigurðsson - listamannsspjall í Flóru
fimmtudag 5. júlí kl. 20-21

Flóra, Kaupvangsstræti 23, 600 Akureyri, s. 6610168

http://floraflora.is
https://www.facebook.com/flora.akureyri

Fimmtudaginn 5. júlí nk. stendur Flóra í Listagilinu á Akureyri fyrir listamannsspjalli með Birgi Sigurðsssyni. Spjallið er haldið í tengslum við myndlistarsýningu Birgis sem staðið hefur í Flóru síðustu vikur, en henni lýkur laugardaginn 7. júlí. Sýningin nefnist „Reynslusaga matarfíkils” og er vídeó-innsetning sem gefur áhorfandanum innsýn inn í heim matarfíkils. Í spjallinu kemur Birgir til með að opna inn á tilurð verksins á sýningunni og eins annarra verka hans í myndlist.

Um “Reynslusaga matarfíkils” segir Birgir: „Efniviður sýningarinnar er upplifun mín og reynsla af matarfíkn. Sýningin er þakklæti til matarfíknarinnar sem hefur skipt mig miklu máli í mínu lífi. Mér finnst engin þörf á að tala um þyngd, þyngdartap eða annað sem snýr að þyngd líkamans. Ég er að fjalla um næturátið mitt og hvernig það hefur birst mér allt mitt líf: Ég vakna til að borða og get ekki hætt.“
Birgir Sigurðsson er menntaður rafvirki og er að mestu sjálfmenntaður í myndlist. Hann hefur á undaförnum 14 árum haldið fjölmargar myndlistarsýningar og rekur nú 002 Gallerí á heimili sínu í Hafnarfirði.  


Nánari upplýsingar veitir Hlynur í síma 6594744 / hlynur(hjá)gmx.net eða Kristín í síma 6610168 / flora.akureyri(hjá)gmail.com

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðastaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Áherslan er á nýtingu, endurnýtingu, náttúrutengsl og verkmenningu. Listrænn ráðunautur staðarins er Hlynur Hallsson, myndlistarmaður.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband