Evudætur í Listasafninu á Akureyri

bordi.evur

EVUDÆTUR

TÓTA, TOBBA OG HRAFNHILDUR

Laugardaginn 24. október kl. 15 verður sýningin Evudætur opnuð í Listasafninu á Akureyri, en hér eru á ferðinni þær stöllur Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (Tóta), Þorbjörg Halldórsdóttir (Tobba) og Hrafnhildur Arnardóttir. Þessar vinkonur unnu allar um skeið hjá Fríðu frænku þar sem gamlir hlutir ganga í endurnýjum lífdaga og andi hins liðna svífur yfir vötnum. Þær eiga einnig sameiginlegt að vinna með fundna hluti og alls konar lífræn og ólífræn efni og aðferðir.

Þórunn Elísabet Sveinsdóttir (f. 1952) hefur starfað innan leikhússins í hartnær 30 ár og getið sér gott orð fyrir búningahönnun og sviðsmyndir. Þórunn útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands í frjálsri myndlist 1982 en fljótlega eftir að námi lauk tók hún að sér verkefni fyrir leikhúsin. Meðfram fjölbreyttu og krefjandi starfi í leikhúsunum hefur Þórunn unnið að myndlist og haldið einkasýningar ásamt því að taka þátt í ýmsum samsýningum. Fyrsta einkasýning hennar var í gamla Nýlistasafninu vorið 1982. Árið 2001hélt Gerðuberg henni Sjónþing þar sem farið var yfir feril hennar að viðstöddu fjölmenni og sýndi hún þar um leið nýjustu verk sín. Tilfinning og efnismeðferð í myndlist Þórunnar hefur í öllum sínum fjölbreytileika og litadýrð lengst af verið nátengd ástríðu hennar fyrir búningum; áhugi hennar á íslenskri þjóðmenningu hefur einnig verið mikill áhrifavaldur í verkum hennar. Að undanförnu hafa ný efni og önnur sjónarhorn í verkum hennar brotið þann ramma.

Hrafnhildur Arnardóttir (f. 1969) útskrifaðist með MFA-gráðu frá School of Visual Arts í New York árið 1996, þar sem hún hefur búið og starfað allar götur síðan. Listamannsnafn hennar er Shoplifter. Í verkum sínum tekst hún á við fyrirbæri eins og hégóma, sjálfsmynd, fegurð og tísku og kemur með margvíslegum hætti inn á þráhyggju og blæti, afsprengi nútímalifnaðarhátta. Tilraunir Hrafnhildar hafa mótast af straumum alþjóðlegrar myndlistar sem og afþreyingarmenningu, tískuiðnaði, dægurlagakúltúr, leikhúsi og fjölmiðlum. Verk hennar eru samofin gjörningum á ýmsa vegu þar sem hún leikur sér oft með freistingar ofgnóttarinnar. Á undanförnum árum hefur hún unnið mikið með gervihár og náttúrulegt hár og búið til skúlptúra og veggmyndir, sem minna á klifurplöntur á húsgöflum, svo úr verður skreytikennd fegurð sem býr jafnframt yfir ógnvekjandi draugalegum áhrifum. Í verkum sínum glímir Hrafnhildur við sögu þessarar hárugu þráhyggju okkar og hvernig sköpun með hana heldur áfram að birtast í menningu samtímans þar sem tilhugsunin um „slæman hárdag“ (e. bad hair day) vokir yfir okkur eins og bölvun.

Þorbjörg Halldórsdóttir (f. 1968) útskrifaðist frá Menntaskólanum að Laugarvatni 1988. Tveimur árum síðar hélt hún á vegum skiptinemasamtakanna A.U.S til Mexíkó þar sem hún dvaldi næstu tólf mánuði og stundaði tónlistarnám og starfaði sem músiktherapisti. 1993 urðu tímamót í hennar lífi þegar hún kynntist Önnu í versluninni Fríðu frænku þar sem hún starfaði á árunum 1994-2002. Nokkru síðar var stefnan tekin norður til Akureyrar og árið 2004 opnaði hún sjálf, ásamt Guðrúnu Jónsdóttur, búðina Frúin í Hamborg. Það má segja að í gegnum búðina hafi hún þróað sína myndlist. Þorbjörg vinnur mest með innsetningar og gjörninga og þá gjarnan í samvinnu við aðra listamenn. Í Frúnni í Hamborg hannar og saumar Tobba púða, töskur, hálskraga, hárspangir, kjóla og margt fleira undir merkinu „Frúin í Ham“.

Í grein sem Sjón skrifaði í tilefni sýningarinnar segir m.a.: „Það var í svörtum flauelspúða, stungnum með samlitum glersteinum; það var í jörpum, snúnum hárlokki sem bundinn var saman með fölnandi appelsínugulum silkiborða; það var í eldhússvuntu, svo bættri með grænum, rauðum, bláum og gulum bótum að engin leið var að sjá að eitt sinn var hún hvít. Flauelið í einu horni púðans tók að hnoðrast líkt og krafsað væri í það með langri nögl. Eitt hár lokksins tók að vaxa, að spinna sig frá hinum í silkihaftinu, og reyndist hrokkið. Einn saumanna sem hélt fastri bót á vinstra brjósti svuntunnar tók að rekja sig upp, að lengjast og vinda sig niður á gólfið. Og þannig gekk á með kvisi, hvísli og hvískri uns flauelshnoðrinn, hárið staka og saumþráðurinn höfðu magnast svo að stærð og gerð – hnoðri dafnað, hár þykknað, þráður hlaðist upp – að hvert fyrir sig myndaði að lokum fullvaxna og einstaka konu.“

Sýningarstjóri er Hannes Sigurðsson. Rithöfundurinn Sjón skrifar smásögu í sýningarskrána sem er hönnuð af Kviku ehf. Sýningin stendur til 13. desember. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma: 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is.

Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur í boði Akureyrarbæjar.

 
 LISTASAFNIÐ Á AKUREYRI
 AKUREYRI ART MUSEUM


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband