Íslenskar ljósmyndir 1866–2009 opnuð í Listasafninu á Akureyri

layers

Á Akureyrarvöku laugardaginn 29. ágúst kl. 15 verður sýningin „Úrvalið: íslenskar ljósmyndir 1866–2009“ opnuð í Listasafninu á Akureyri. Einar Falur Ingólfsson ljósmyndari hefur valið verk eftir þrettán kollega sína á sýninguna, og skrifar jafnframt um þá, sem og rökin fyrir vali sínu, í texta sem birtist í vandaðri sýningarskrá. Er þetta í fyrsta sinn sem tilraun er gerð til þess að gefa markvisst yfirlit á einni sýningu yfir sögu skapandi ljósmyndunar hér á landi, frá upphafi til dagsins í dag.

 Á sýningunni er verk níu látinna ljósmyndara og fjögurra sem enn starfa. Sýningarstjórinn valdi ekki fólk sem fætt er eftir 1960 og einungis fólk sem gerði ljósmyndun að ævistarfi og starfaði því við fagið á um langt skeið. Verk ellefu karlmanna og tveggja kvenna eru á sýningunni, en fram á síðustu áratugi heyrði það til undantekninga að konur störfuðu markvisst við ljósmyndun lengur en í örfá ár. Ljósmyndararnir eru: Sigfús Eymundsson, Nicoline Waywadt, Magnús Ólafsson, Pétur Brynjólfsson, Sigríður Zoëga, Jón Kaldal, Ólafur Magnússon, Vigfús Sigurgeirsson, Ólafur K. Magnússon, Guðmundur Ingólfsson, Sigurgeir Sigurjónsson, Ragnar Axelsson og Páll Stefánsson.

Sigfús Eymundsson (1837–1911) kom heim til Íslands árið 1866 eftir að hafa lokið ljósmyndanámi í Noregi. „Sagt hefur verið að heimkoma Sigfúsar marki þáttaskil. Hann var fyrsti íslenski ljósmyndarinn sem náði að gera ljósmyndun að lífsstarfi – og var frábær ljósmyndari, einn sá allra merkilegasti sem hér hefur starfað, til þessa dags.

Íslensk ljósmyndun var orðin til,“ skrifar Einar Falur.

“Hvað gerir ljósmynd góða?” spyr hann. “Eða áhrifamikla? Hvaða ljósmyndari er góður og hver síðri? Þar koma margir þættir inn. Fagurfræðilegt mat, sem er huglægt og persónulegt, skiptir líklega mestu þegar myndverk eru metin út frá formrænum eigindum sínum. Og vissulega þarf að setja sköpunarverkin í sögulegt samhengi. Hugsa um stefnur og strauma í tímanum, hugmyndafræði í listum yfirleitt og afstöðu listamannanna – ljósmyndaranna. Það þarf einnig að skoða heildarverkið. Hvað liggur eftir ljósmyndarana? Náðu þeir, og jafnvel fyrir tilviljun, nokkrum góðum myndum, en voru annars bara þokkalegir iðnaðarmenn? Eða lögðu þeir mikinn metnað í sköpunina, stefndu að því að skapa einstæð myndverk? Það eru slíkir gripir sem við viljum sjá, myndir sem láta okkur staldra við og benda: svona var þetta og enginn gat sýnt það betur.”

Í vali sínu á ljósmyndurum og myndum þeirra beinir Einar Falur einkum sjónum að manninum, mannlífi og hinu manngerða í umhverfinu. Hann segir að ekki sé þó hægt að líta fram hjá því að hér hefur ætíð búið fátt fólk í stóru og margbrotnu landi, og náttúru- og landslagsljósmyndun hefur skipað stærri sess hér en víðast hvar. „Ljósmyndavélin gerir það sama á Íslandi og annarsstaðar. Þetta er aðeins skráningartæki. Það eru afstaða og sýn ljósmyndarans á heiminn sem skipta öllu máli.”

Ljósmyndirnar á sýningunni í Listasafninu á Akureyri eru í eigu Ljósmyndasafns Íslands í Þjóðminjasafninu, Ljósmyndasafni Reykjavíkur, Morgunblaðsins og ljósmyndaranna. Sýningin er gerð í sérstöku samstarfi við bókaútgáfuna Sögur ehf. og Þjóðminjasafn Íslands. Sýningin stendur til 18. október. Nánari upplýsingar veitir Hannes Sigurðsson, forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri, í síma: 461-2610 / 899-3386. Netfang: hannes@art.is.

Listasafnið á Akureyri er opið alla daga nema mánudaga frá kl. 12-17. Ókeypis aðgangur í boði Akureyrarbæjar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband