Laugardagsleiðsögn í Listasafninu á Akureyri

large_nh2a0563

Laugardaginn 4. nóvember kl. 15-15.30 verður boðið upp á leiðsögn í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi um sýningar Rúrí, Jafnvægi-Úr Jafnvægi, og Friðgeirs Helgasonar, Stemning. Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, tekur á móti gestum og fræðir þá um sýningarnar og einstaka verk. Aðgangur er ókeypis.

Á sýningu sinni leggur Rúrí listina á vogarskálar. Vogarskálar vega sögu mannkyns og jarðar, vega tíma, vega vægi mismunandi gilda, til dæmis hagkerfi á móti vistkerfi, eða vægi huglægra gilda. Verkið er innsetning og er samsett úr fjölda eininga.

Rúrí (f. 1951) hefur um árabil safnað skálavogum og vigtum frá ýmsum tímum. Vigtarnar eru margvíslegar að gerð en byggja allar á jafnvægi. Vogir og ýmis önnur mælitæki eins og klukkur, hnattlíkön og landakort eru módel af þeim heimi sem við þekkjum og mynda hluta innsetningarinnar. Hin sterka tilvísun vogarinnar setur spurningarmerki við ójafnvæga afstöðu milli t.d. hagkerfa og vatnsforða jarðar, stríðs og friðar. (Christian Schoen; Fragile Systems, Nordatlantens Brygge, Copenhagen, 2016)

Rúrí hefur starfað að myndlist frá 1974. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölmörgum sýningum í Evrópu, Asíu og N-Ameríku og þau má finna í íslenskum og erlendum söfnum auk þess sem útilistaverk eftir hana hafa verið sett upp bæði á Íslandi og erlendis. Rúrí var fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum 2003 þar sem verkið Archive – Endangered Waters vakti mikla athygli. Frekari upplýsingar má finna á ruri.is.

Stemning þjóðveganna fönguð

Friðgeir Helgason (f. 1966) flutti ungur til Bandaríkjanna. Hann lagði stund á kvikmyndagerð í Los Angeles City College í Hollywood 2005-2006, þar sem ljósmyndun fangaði huga hans. Hann stundaði ljósmyndanám við sama skóla frá 2006 til 2009 og hefur haldið fjölda ljósmyndasýninga í Bandaríkjunum og á Íslandi.

„Ljósmyndirnar á þessari sýningu voru teknar á árunum 2008-2013 þegar ég þvældist um þau svæði sem mér þykir vænst um: annars vegar á Íslandi og hins vegar í Louisiana í Suðurríkjum Bandaríkjanna,“ segir Friðgeir. „Myndirnar voru allar teknar á Kodakfilmu sem ég prentaði í stækkara upp á gamla mátann. Það jafnast fátt á við að keyra stefnulaust um þjóðvegi með gamla góða Pentaxinn og slatta af filmu í skottinu. Stoppa í vegasjoppum, fá sér í gogginn og spjalla við innfædda. Skynja andrúmsloftið og taka ljósmynd þegar tækifæri gefst. Þessi sýning á að fanga þá stemningu.“

listak.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband