Stefán Boulter sýnir í Gallerí Gróttu

16426107_582040621993259_5152467945880988461_n

Sýningaropnun Stefáns Boulter í Gallerí Gróttu - Fimmtudag 9. febrúar kl. 17:00
Stefán Jóhann Boulter var um nokkurra ára skeið lærlingur og aðstoðarmaður hins virta og umdeilda norska listamanns Odds Nerdrum og bera verk hans þess glöggt vitni. Stefán opnar sýninguna Stjörnuglópar í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 9. febrúar kl. 17.

Megin uppistaða sýningarinnar er myndröð eða fjölskylda af verkum, sem hafa verið unnin á síðustu tveimur árum. Grunnstef þeirra eru rauðmáluð andlit kvenna sem virðast vera á hreyfingu og beina sjónum sínum í átt að himinhvolfinu. Rauði liturinn hefur margvíslega táknræna skírskotun, en er einnig þekktur sem litur lífsins, hugrekkis og viljastyrks. Þannig búa verk Stefáns yfir táknmyndum, sem eru frásagnarlegs eðlis og byggja á persónulegri reynslu og þekktum, fornum minnum.

Hugleiðingar um náttúruna eru Stefáni ofarlega í huga og endurspeglast í dýrum, viðveru hluta og áru þeirra. Stefán hefur víða leitað fanga við gerð verkanna en þau eru meðal annars innblásin af verkum listmálarans George Catlin ( 1796-1872 ) sem ferðaðist meðal innfæddra í Norður Ameríku snemma á 19. öld og málaði fólkið sem byggðu álfuna áður en heimsálfan var öll numin Evrópubúum. Þessi horfni heimur hefur löngum vakið forvitni listamannsins allt frá barnæsku, er hann ungur gruflaði í bókum föður síns.

Stefán Jóhann Boulter er fæddur í Reykjavík árið 1970. Hann lærði grafíska hönnun í Tempe, Arizona í Bandaríkjunum, var við listnám í Flórens á Ítalíu og varð síðar aðstoðarmaður Odds Nerdrum í Noregi og á Íslandi. Stefán hefur sýnt í listasöfnum og galleríum bæði hér heima og erlendis, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Stefán er búsettur á Akureyri og kennir með reglulegu millibili við Myndlistarskólann á Akureyri.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband