Ólöglegi innflytjandinn – var Nína Tryggvadóttir kommúnisti og hættuleg Bandaríkjunum?

large_nina-tryggvadottir-vefur

Þriðjudaginn 31. janúar kl. 17-17.40 verður sýnd í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi upptaka frá Listasafni Íslands af fyrirlestri Hallgríms Oddssonar, blaðamanns og hagfræðings, Ólöglegi innflytjandinn – var Nína Tryggvadóttir kommúnisti og hættuleg Bandaríkjunum? Í fyrirlestrinum rekur hann baráttu Nínu fyrir landvistarleyfi í Bandaríkjunum. Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð Listasafnsins, Þriðjudagsfyrirlestrar. Aðgangur er ókeypis. 

Á 5. áratug síðustu aldar flutti Nína Tryggvadóttir til New York í Bandaríkjunum og skapaði sér nafn sem myndlistarkona. Þar kynntist hún þýsk-ættaða vísinda- og listamanninum Al Copley. Þau giftu sig árið 1949 og allt leit út fyrir að ungu hjónin kæmu sér fyrir á Manhattan, umkringd skapandi vinum í hringiðu listasenunnar. En það sem þau héldu að yrði praktísk afgreiðsla á formsatriðum, þegar Nína ætlaði að snúa til baka til New York eftir dvöl á Íslandi, varð fljótt að eldvegg sem aðskildi þau um árabil. Á Íslandi töldu ákveðnir aðilar að Nína væri kommúnisti og áður en yfir lauk teygði málið anga sína djúpt inn í bæði íslenskt og bandarískt stjórnmálakerfi.

Hverjir voru þessir óvildarmenn Nínu? Er barnabókin Fljúgandi fiskisaga kommúnískur áróður sem beint er gegn bandarískum stjórnvöldum? Var Nína kommúnisti? Hvernig áhrif hafði álagið vegna aðskilnaðarins og langvarandi baráttu á líf og listamannsferil Nínu? Hallgrímur reifar þessar og fleiri spurningar og rekur einstaka baráttu Nínu og Al fyrir sameiningu fjölskyldunnar í Bandaríkjunum.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Myndlistaskólans á Akureyri, Gilfélagsins, Menntaskólans á Akureyri, Myndlistafélagsins og Háskólans á Akureyri. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Páll Björnsson, Katinka Theis og Immo Eyser, Rebekka Kuhnis, Aðalsteinn Þórsson, Susan Singer og Ingibjörg Sigurðardóttir.

www.listak.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband