Cistam sýnir á Bókasafni Háskólans á Akureyri

james-copy

Cistam er listamannsnafn James Earl Ero Cisneros Tamidles, sem er 25 ára gamall listamaður og parkourþjálfari á Akureyri. Hann er fæddur á Filippseyjum en flutti hingað til lands með móður sinni þegar hann var 6 ára og hefur búið hér síðan. Hann gekk fyrst í Hrafnagilsskóla, síðan í Oddeyrarskóla og lauk svo stúdentsprófi frá MA 2011. Hann stundaði jafnframt nám í Myndlistaskólanum á Akureyri og brautskráðist úr fagurlistadeild 2015.

Cistam hefur vinnustofu á þriðju hæð í Rósenborg, var áður á efstu hæð Listasafnsins. Hann hefur tekið þátt í mörgum sýningum og átt verk víða. Hann gerði spreylistaverk í Gilinu á Akureyrarvöku 2014 og hélt þá líka einkasýningu í MA. Hann hefur einnig átt vegglistaverk á Hjalteyri og sýndi ásamt Jónínu Björgu Helgadóttur í MA 2015. Þá tók hann þátt í samsýningunni Sköpun bernskunnar 2016. Þá er ótalið að hann hefur leyft teikniáráttunni að blómstra við að gera skopmyndir í útskriftarbækur framhaldsskólanna, Carminu og Minervu, á árunum 2010-2016.

Samhliða listinni hefur James lagt mikla áherslu á hreyfingu á borð við parkour og segir þá  íþróttaiðkun hafa verið sér mikill innblástur ásamt tölvuleikjum, teiknimyndum og myndasögum.
Í þessari sýningu er hann að prófa sig áfram með olíumálningu og viðfangið hans eru norðurljósin. Hann málar landslag eftir ljósmynd og norðurljósin sjálf eftir upplifun, þar sem þau eru síbreytileg á næturhimninum.

Sýningin stendur til 31. október 2016 og er opin á opnunartímum bókasafnsins, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga kl. 8:00 – 16:00 og þriðjudaga og fimmtudaga kl. 8:00 – 18:00. Lokað um helgar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband