Ómyndir í Deiglunni

omyndir_web.jpg

Laugardaginn 10. nóvember opnar, á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar á Akureyri, sýning á verkum eftir listamennina Ástu Fanney Sigurðardóttur, Matthías Rúnar Sigurðsson og Victor Ocares. Sýningin ber yfirskriftina Ómyndir og opnar í Deiglunni í Listagili klukkan 15.
Vinnuheiti sýningarinnar var að rusla saman sýningu, því rýmið stóð autt og listamennirnir með nægan efnivið í sýningu. Þeir tefla mestmegnis fram teikningum og skissum, með hráa uppsetningu að leiðarljósi. Hjá þeim vaknaði sú spurning hvort hráleikinn væri boðlegur; hvort skissur og teikningar, hinar svokölluðu ómyndir, séu sýningarhæf verk. En mögulega skipta umgjörð og framsetning engu máli. Ómyndirnar tala sínu máli og í hverri þeirra blundar óheftur heimur listamannsins. Myndirnar vísa til drauma, veraldar ímyndunar og möguleika, sem komast hvergi annars staðar fyrir.

ÁSTA FANNEY SIGURÐARDÓTTIR
,,Svo læt ég töfrajöfra stikla milli augasteinanna, grafa vendi í enni þitt og teikna í hvel mynstur sem svæfir tímana og þú heyrir hvíslað í bæði eyrun þó enginn sé nálægur nema ómennskur hvalur á blaði“.
Ásta Fanney útskrifaðist úr myndlistardeild Listaháskóla Íslands vorið 2012.
Hún fæst einkum við blöndum ljóða og teikninga og súrrealískar samsetningar.
Ásta sér um listamannarekna sýningarrýmið Kunstschlager í félagi við fjóra aðra listamenn en það opnaði s.l. sumar á Rauðarárstíg 1, í Reykjavík. Þar gefst fólki kostur á að sjá sýningar og verk eftir unga, upprennandi listamenn.
 
MATTHÍAS RÚNAR SIGURÐSSON
 „Ég teikna mikið og hef gert frá því ég man eftir mér. Nú er það orðið
þannig að ég nota yfirleitt skrúfblýant, því á honum er oddurinn
alltaf beittur og strokleðrið, sem hægt er að skrúfa upp og niður,
nota ég líka mikið. Myndirnar sem ég geri koma úr mínum innri heim. Ég
lít á myndirnar sem gróður og hlutverk mitt er að láta hann vaxa. Ég
sæki í einbeitingu og tímaleysi og þannig líður mér best. Ég vil engan
æsing eða óþarfa flækjur. Verkin mín vekja í mér óviðjafnanlega gleði
sem ég finn hvergi fyrir annars staðar”.Matthías er á þriðja ári í myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
 
 
VICTOR OCARES
Victor er hafsjór heilabrota og sýður saman hugmyndir úr ýmsum áttum. Hann hefur unun af því að leita svara innan heimspekinnar, vísindanna og annara fræðigreina sem hafa að geyma undarlegar ráðgátur og möguleika. Það sem hann tínir saman úr spekinni, sýður hann svo saman við hughrifin sem kvikna innan frá. Þar er heimur sem einnig geymir dularfullar gátur sem þarfnast svara og úrvinnslu. Afraksturinn gæti skilað sér í tónverki, í formi skúlptúra, teikninga eða hvernig sem honum þykir best að sýna fram á upplifun sína og heilabrot. Victor er á þriðja ári í myndlistardeild Listaháskóla Íslands.
 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband