Björg Eiríksdóttir opnar sýningu í Artóteki

naering-u_769_r-myndbandsverki-2009.jpg

Næsta laugardag,  4. febrúar kl. 15  opnar  sýning á verkum Bjargar Eiríksdóttur myndlistarmanns, í Artóteki á 1. hæð Borgarbókasafns Reykjavíkur.

Sýningin í Artótekinu er sjötta einkasýning Bjargar og þar sýnir hún málverk, myndband, textíl og svífandi skúlptúr. Flest verkanna hefur Björg sýnt áður á Akureyri en nú teflir hún saman nokkrum verkum þar sem hún eltir innsæið. Öll verkin fela í sér langan tíma og í þeim er talað um að horfa á sig, hringiðu, munstur, mat og óbærilegan léttleika.

Björg Eiríksdóttir lauk myndlistarnámi frá Fagurlistadeild Myndlistaskólans á Akureyri árið 2003. Hún hefur einnig lært hugmyndasögu og siðfræði við Háskólann á Akureyri og stundar nú almennt meistaranám við sama skóla og tengir það myndlistarkennslu. Björg lauk B.Ed. prófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1991.

Björg hefur unnið við myndlist frá því að hún lauk námi í faginu árið 2003.
Hún hefur einnig kennt til margra ára og síðustu átta ár myndlistagreinar við Verkmenntaskólann á Akureyri. Sjálf telur hún þær greinar sem hún lagði stund á í Kennaraháskóla Íslands, líffræði og kristin fræði, hafa áhrif á myndlist sína. Má glögglega sjá þessi áhrif í verkum Bjargar þar sem skynjun og nánd eru orð sem koma upp í hugann þegar verk hennar eru skoðuð.
Hún veltir fyrir sér manneskjunni sem lífveru, líkama hennar og hinu innra lífi.

Björg hefur einnig verið sýningarstjóri og hafði umsjón með gestavinnustofu Gilfélagsins 2006-2007. Árið 2009-2010 hlaut Björg styrk frá Eyþingi vegna samstarfsverkefnis og frá Akureyrarbæ vegna sýningar 2005. Björg er félagsmaður í Sambandi íslenskra myndlistarmanna og í Myndlistarfélaginu.

Artótekið leigir út og selur íslenska myndlist til einstaklinga og fyrirtækja. Hægt er að skoða verkin á staðnum eða á vefsíðunni www.artotek.is.

Sýningin stendur til 11. mars.
Opið er mánudaga – fimmtudaga kl. 10-19, föstudaga kl. 11-18 og um helgar kl. 13-17

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband