Kristinn G. Jóhannsson opnar sýningu í Mjólkurbúðinni

attachment_1133007.jpg

Kristinn G. Jóhannsson opnar málverkasýninguna "MANNABYGGÐ MEÐ STRÖNDUM" í
Mjólkurbúðinni Listagili laugardaginn 4. febrúar kl. 14

Kristinn G. Jóhannsson um sýninguna:
,,Ég hefi einatt leitað yrkisefna í nánasta umhverfi mínu.  Undanfarin ár
hefi ég gengið til litgrasa heima á Akureyri , ort um brekkurnar í bænum
með flúri og fagurgala. Vorbrekkur, vetrarbrekkur, haustbrekkur og hvað nú
allt hét.  Hér kveður við allt annan tón þegar hugurinn hvarflar til fyrri
heimkynna undir bröttum hlíðum við sjó.  Vatneyri undir Brellum og
Ólafsfjarðarhorn undir Tindaöxl.  Þessi verk eru þó uppspuni eins og vera
ber en sækja þræði  þangað sem búseta fólks er með ströndum fram. Í þeirri
mannabyggð var  gott að vera".

Kristinn G. Jóhannsson (1936) stundaði listnám  á Akureyri, í Reykjavík og
Edinburgh College of Art, Skotlandi.

Hann efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954 en sýndi fyrst í
Reykjavík , Bogasal Þjóðminjasafnsins, 1962 og sama ár tók hann fyrsta
sinni þátt í Haustsýningu Fím (Félagi íslenskra myndlistarmanna) í
Listamannaskálanum. Hann hefur síðan verið virkur á sýningarvettvangi .

Af einkasýningum má nefna sýningu í Háhól Akureyri  1980, Kjarvalsstaðir
1988 , Fím Reykjavík 1989,1990 og 1991,  Listasafnið Akureyri 2001, Hús
málaranna , Rvík, 2002 og 2003.

Kristinn  hefur tekið þátt í fjölda samsýninga t.d. hjá  Fím 1962, 1985,
1987, Norðan 7, Kjarvalsstöðum, 1982,  Exsept 84 ,Listasafni ASÍ ,
Samstaða Listaskálanum Hveragerði 1999,  Akureyri í myndlist, Listasafninu
Akureyri 2001 og Vorsýning í Húsi málaranna , Rvík 2002. Síðast sýndi hann
með Guðmundi  Ármann grafíkverk hjá “Íslenskri grafík” og í Hofi á s.l. ári
og nú á dögunum héldu þeir sýningu í boði Listasalar Mosfellsbæjar.

Kristinn hefur gert teikningar og vatnslitamyndir í fjölda bóka og má
nefna nýjar útgáfur af bókum Nonna , Jóns Sveinssonar, auk mynda í
þjóðsögur s.s. Búkollu og Gilitrutt.

Málverkasýning Kristins G. Jóhannsonar stendur til 19.febrúar og eru allir
velkomnir.

Mjólkurbúðin er opin laugardaga og sunnudaga milli kl.14-17 og eftir
frekara samkomulagi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband