Rými málverksins í Listasafninu á Akureyri

image_1130466.jpg

Rými málverksins
14. janúar - 17. mars 2012

Laugardaginn 14. janúar kl. 15 opnar í Listasafninu fyrsta sýningin á vegum Sjónlistamiðstöðvarinnar. Sýningin nefnist Rými málverksins og er samsýning tólf ungra myndlistarmanna sem eiga það sameiginlegt að takast á við sögu og arfleifð málverksins í listsköpun sinni.

Á sýningunni getur að líta þverskurð þeirra fjölbreyttu hræringa sem eiga sér stað í samtíma málverki, þar sem margslungnum áhrifum er umbreytt og kollvarpað í gjöfulu samtali við ólíka miðla og tækni. Það er engu er líkara en að sú afhelgun sem átt hefur sér stað á málverkinu sem miðli, hafi opnað honum nýja, fjölbreytta og áður óþekkta möguleika til könnunar á veröldinni.

Á sýningunni eru ný málverk sem flest eru gerð sérstaklega af þessu tilefni og sýna vel þann þrótt, leikgleði og áræði er einkennir málverk samtímans, ásamt því að varpa skemmtilegu ljósi á þær fjölbreyttu birtingarmyndir sem málverkið hefur tekið á sig á undanförnum misserum, þar sem fjölþætt vinnubrögð og vísanir hafa valdið straumhvörfum á miðlinum jafnt í efnis-, tækni- og hugmyndafræðilegu tilliti.

Listamennirnir sem þátt taka í sýningunni eru: Arna Óttarsdóttir, Áslaug Íris Katrín Friðjónsdóttir, Bjarni Þór Pétursson, Davíð Örn Halldórsson, Gunnar Már Pétursson, Halldór Ragnarsson, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Jeannette Castioni, Kristín Rúnarsdóttir, Logi Bjarnason, Solveig Pálsdóttir og Þorvaldur Jónsson. Sýningarstjóri er Einar Garibaldi Eiríksson.

Verk listamannanna eru unnin úr margskonar efnivið, þar sem hefðbundnar aðferðir málverksins skarast á við ólíka miðla, aðferðir og tækni. Þau beita innsæi sínu og ímyndunarafli til framlengingar á möguleikum miðilsins og þannig opna þau honum ný svæði vitundar og skilnings þar sem allir möguleikar eru opnir.

Við hæfi er að ný Sjónlistamiðstöð hefji starfsemi sína með sýningu á nýjum straumum í íslensku málverki. Á sýningunni er sleginn nýr tónn í íslenskri myndlist og fram stígur kynslóð listamanna er vinnur að endurskilgreiningu málverksins í nútímasamhengi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband