Þórarinn Blöndal með listamannsspjall og sýningarlok í Flóru

toti_bondal_1117576.jpg

Þórarinn Blöndal - listamannsspjall
fimmtudaginn 27. október klukkan 20
- í Flóru - Listagili á Akureyri


Sýningu Þórarins Blöndals myndlistamanns Guli skúr 8 lýkur laugardaginn 29. október, en tveim dögum áður eða fimmtudaginn 27. október verður boðið upp á spjall við listamanninn í Flóru. Sýning Þórarins þar hefur verið opin gestum og gangandi síðan á Akureyrarvöku í sumar og hefur fjöldi fólks komið að sjá og upplifa verkið. Þau sem ekki hafa enn komið geta nýtt þetta tækifæri sem listamannsspjallið er til að missa ekki af sýningunni. Um leið segir Þórarinn frá vinnu sinni, en viðmælandi hans verður Hlynur Hallsson myndlistamaður og listrænn ráðunautur í Flóru. Spjallið hefst klukkan 20.

Um verkið Guli skúr segir Þórarinn:
“Í geymslum má finna allt það sem maður leggur til hliðar og hugsar sér að nota síðar. Við flutning minn á vinnustofu minni fór ég í gegnum allt mitt dót og sorteraði. Setti allt í kassa og merkti og lagði af stað með mitt hafurtask. Í nýjum híbýlum mínum syðra fylgdi bílskúr og nefndi ég hann Gula skúr og þar er mín vinnustofa. Rýmið er sirka tíu sinnum rúmir þrír metrar. Gengið inn að austanverðu og einnig eru stórar dyr að norðan. Hillur eru allan vesturvegginn og gott vinnuborð við suðurvegg.

Fyrirferðarmiklir á gömlu vinnustofunni voru vísar að óljósum hugmyndum, grunur um lausnir en óklárað. Sumu snyrtilega raðað í kassa og sorterað en á stundum mikil óreiða. Nokkrar hugmyndir höfðu dagað uppi og gleymst en dúkkuðu nú upp og vöktu upp gamla maníu. En sumt átti aldrei að lifa nema í kössum og geymslum og ekki hugsað til annars brúks. Einkennilega mikið af dóti sem hafði safnast upp og er nú í Gula skúr. Þessar óljósu hugmyndir og vísar að verkum eru til sýnis í Flóru.

Þórarinn Blöndal er fæddur á Akureyri 25. október 1966. Hann stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri, Myndlista- og handíðaskóla Íslands og fór svo til Academiie van Beeldende Kunst í Rotterdam, Hollandi. Ásamt því að halda sýningar sjálfur hefur Þórarinn staðið fyrir ýmsum listviðburðum og tekið virkan þátt í menningarstarfi á Akureyri. Þá er hann einn af stofnfélögum Verksmiðjunnar á Hjalteyri og er í stjórn hennar. Þórarinn hefur komið að ýmsum verkefnum tengdum söfnum víða um land, bæði sem hönnuður og sýningastjóri. Undanfarna vetur hefur hann kennt myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri. Þórarinn er meðlimur í Dieter Roth Academy.

Flóra er verslun, vinnustofa og viðburðarstaður Kristínar Þóru Kjartansdóttur félagsfræðings og garðyrkjukonu. Listrænn ráðunautur og kaffibarþjónn staðarins er Hlynur Hallsson myndlistamaður. Áhersla staðarins er á nýtingu, endurnýtingu, verkmenningu og sköpun. Sýningarrýmið í Flóru á sér merkilega forsögu því þar rak Snorri Ásmundsson International Gallery of Snorri Ásmundsson með góðum árangri í lok síðustu aldar.

Sjá meira um Flóru á
http://floraflora.is
http://www.facebook.com/flora.akureyri
Viðburður á Facebook

Heimasíða Þórarins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband