Myndlistarfélagið ályktar vegna ráðningar forstöðumanns Listasafnsins

images.jpg
 
Aðalfundur Myndlistarfélagsins, haldinn í Sal Myndlistarfélagsins 
17. október 2011, samþykkti svohljóðandi ályktun.

Í byrjun nóvember 2010 átti stjórn Myndlistarfélagsins fund með stjórn Akureyrarstofu. Þar var m.a. fjallað um þá óvissu sem ríkt hefur í Listagilinu með tilkomu Hofs og niðurskurðar á fjárframlögum til skapandi lista. Stjórn Myndlistarfélagsins taldi að skilgreina þyrfti hlutverk Listagilsins upp á nýtt sem og hlutverk Menningarmiðstöðvarinnar í Listagili. Á þessum fundi lagði Myndlistarfélagið fram þá tillögu að mótuð yrði skýr stefna um framtíð og hlutverk Listagilsins. Var því vel tekið af stjórn Akureyrarstofu og óskaði stjórnin eftir framtíðarsýn þeirra sem störfuðu í Gilinu. Í kjölfarið var stofnaður samstarfshópur sem fékk það hlutverk að safna upplýsingum um þá starfsemi sem fyrir er í Gilinu og móta framtíðarsýn. 

Það var niðurstaða samstarfshópsins að hlúa þyrfti að þeirri einstöku starfsemi sem fram fer í Listagilinu með því að efla samvinnu og samstarf einstaklinga og stofnana. Með samþættingu og hagræðingu mætti bæta skilvirkni hinna opinberu stofnana og með hærri fjárframlögum til grasrótarstarf mætti auðga listalífið á markvissan hátt.

Samstarfshópurinn skilaði skýrslu til Akureyrarstofu síðastliðið vor. Niðustöður vinnunnar endurspegla þá umræðu sem átti sér stað innan þessa hóps frá því að verkefninu var ýtt úr vör. Eftirfarandi tillögur um Listasafnið á Akureyri eru meðal áhersluatriða:

Endurskoða þarf rekstur Listasafnsins m.a. með það að markmiði að Akureyri verði miðstöð myndlistar á landsbyggðinni. Setja þarf saman hóp sem samanstendur af myndlistarmönnum, kjörnum fulltrúum Akureyrarbæjar og völdum aðilum sem koma að menningarlífi í bænum til að móta hugmyndir um stefnu Listasafnsins. Í stefnunni þarf m.a. að koma fram hvernig safnið hyggst standa að kaupum og varðveislu listaverka, hvernig það hyggst sinna rannsóknarskyldu sinni sem og fræðsluskyldu. Tryggja þarf að safnið starfi í samræmi við núgildandi lög og reglur um listasöfn svo sem safnalög nr. 106/2001 en þar stendur m.a. „ En safn hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar“.

Til að tryggja frjótt starf og fjölbreytni innan safnsins þarf forstöðumaður að verða búsettur á Akureyri og ráðningartími hans verði ekki lengri en fimm ár en þó með möguleika á tveggja til þriggja ára framlengingu.

Tryggja þarf aðgengi að listaverkaeign bæjarins t.d. gegnum heimasíðu sem einnig væri hægt að nota til safnakennslu og kennslu í grunnskólum bæjarins.

Skrá skal sögu myndlistar markvisst með áherslu á landsbyggðina og gæti það verið hluti af rannsóknarskyldu safnsins.

Efri hæð Listasafnsins er skilgreind sem stækkunarmöguleiki fyrir safnið. Setja þarf fram áætlun um áframahaldandi vinnu við uppbyggingu safnsins og tímasetja opnun efri hæðarinnar. Þar yrði rými fyrir fasta sýningu, bókasafn, aðstaða fyrir fræðslustarf og safnabúð.

Marka þarf safninu sérstöðu. Sérstaða safnsins gæti falist í sérstakri áherslu á barnamenningu og að safnið yrði gert að móðursafni myndlistar á landsbyggðinni í samstarfi við Listasafn Íslands.

Sjónlistarhátíðin verði fastur liður í starfsemi safnsins, sem tví- eða þríæringur.

Akureyrarstofa hefur nú endurráðið forstöðumann Listasafnsins, sem búsettur er í Reykjavík og hefur verið forstöðumaður Listasafnsins á Akureyri í næstum tólf ár. Ráðningartíminn er fimm ár með mögulegri framlengingu. Það bendir ekki til þess að vilji sé fyrir hendi til að endurnýja og breyta, þvert á móti er þetta ávísun á óbreytta stöðu - ráðamenn eru væntanlega sáttir við ástandið eins og það er og ekki ginkeyptir fyrir breytingum. Samningsferlið hefur staðið lengi yfir og er nú loks til lykta leitt. Ekki með framtíðahagsmuni myndlistar - listagils að leiðarljósi heldur eigin hagsmuni og samtryggingu. Auglýsingaferlið var augljóslega sýndarleikur Akureyrarstofu. Myndlistarfélagið harmar metnaðarleysi Akureyrarstofu og átelur harðlega ófagleg vinnubrögð við ráðningu forstöðumannsins.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband