Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Arnar Ómarsson sýna í Safnahúsinu á Húsavík

kindur_700.jpg


Réttardagur 50 sýninga röð

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir og Arnar Ómarsson sýna í Safnahúsinu á Húsavík, 2. sept. - 31. okt. 2011


Sýningin opnar föstudaginn 2. sept. kl. 17.00 og stendur til 31. okt.
Sýningin verður opin sunnudaginn 4. sept. kl.13.00 - 16.00 annars er Safnahúsið á Húsavík opið virka daga kl.10.00 - 16.00.
Athugið að það er aðeins klukkustundar akstur frá Akureyri til Húsavíkur.


“Að kvöldi réttardags” er 32. sýningin í 50 sýninga röð á verkum Aðalheiðar. Sýningarnar verða settar upp víða um heim á tímabilinu júní 2008 til júní
2013 undir yfirskriftinni "Réttardagur 50 sýninga röð". Tímabilið er á milli fjörutíu og fimm ára og fimmtugs afmælis listakonunnar en tilefnið er sá siður Aðalheiðar að standa fyrir sýningum á skemmtilegum tímamótum. Útgangspunktur sýninganna er dagurinn þegar fé er safnað af fjalli, upphaf nýs tímabils, menning og alsnægtir.

Aðalheiður dregur í verkum sínum upp mynd af samfélagi í tilraun til að minna okkur á hvaðan við komum og hver við erum. Sjálf segist hún leitast við að endurgera eftirminnileg augnablik úr eigin lífi en ýmsar mannlífsmyndir hafa alla tíð verið viðfangsefni hennar. Verkin eru einskonar brú milli veruleika og ímyndunar í samfélagi sem er of upptekið til að staldra við og njóta.

Í Safnahúsinu á Húsavík fjallar listakonan um kyrðina sem leggst yfir þegar féð bíður örlaga sinna, og bændur varpa mæðunni eftir göngur og smölun.

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir fæddist á Siglufirði 23.júní 1963 og bjó þar til 1986, þá fluttist hún til Akureyrar. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri 1989-93 og hefur síðan unnið ýmis störf á sviði myndlistar ásamt því að vera athafnasamur myndlistamaður. Árið 2000 hóf Aðalheiður þátttöku í Dieter Roth akademíunni og mun halda þeirri samvinnu áfram.Vinnustofa og heimili Aðalheiðar er í Freyjulundi, 601 Akureyri. Sími: 462-4981 / 865-5091. adalheidur@freyjulundur.is www.freyjulundur.is
Verk Aðalheiðar eru skúlptúrar og lágmyndir unnar úr timbri og fundnum hlutum. Listakonan raðar saman timburbútum svo úr verða lifandi manneskjur, dýr og hlutir sem tengjast aðstæðum hverju sinni. Þrátt fyrir að efniviðurinn sé oft óheflað afgangstimbur og yfirbragð verkanna grófgert hvílir yfir þeim fínleiki, næmni og hlýja. Henni tekst að gæða efnivið, sem sumir myndu kalla rusl, lífi og heilla áhorfendur með hrífandi verkum. Aðalheiður vinnur gjarnan að list sinni í samstarfi við aðra listamenn, og að þessu sinni Arnar Ómarsson.

Arnar Ómarsson lauk bacelor gráðu við Listaháskólann í Lundúnum nú í vor og hefur verið búsettur þar síðastliðin þrjú ár. Hann hefur tekið þátt í fjölda sýninga þar ytra og einnig í Danmörku, hér á Íslandi og Þýskalandi. Arnar heldur úti síðunni www.arnaromarsson.com

Eyþing styrkir sýninguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband