Opnanir í Safnasafninu

 

Laugardaginn 7. maí kl. 14 verða opnaðar margar nýjar sýningar í Safnasafninu Svalbarðsströnd.

threnning

Þrenningarsjálfsmynd Sölva Helgasonar: Hreinlífur, Skírlífur, Dagbjartur. Þjóðminjasafn Íslands. Þjms. 8839
 
Ég er gull og gersemi,
gimsteinn elskuríkur.
Ég er djásn og dýrmæti,
Drottni sjálfum líkur.
 
Í Vestursal er sýning á myndverkum Sölva Helgasonar (1820 – 1895).
Sölvi Helgason, eða Sólon Íslandus eins og hann kallaði sig líka, er tvímælalaust einn af áhugaverðustu alþýðulistamönnum sem þjóðin hefur alið, heillandi utangarðsmaður í lífshlaupi sínu og listsköpun.
Flakkari, fræðimaður og listamaður, en líka kenjóttur sérvitringur sem fór á svig við mannanna lög og reglur. Hann ferðaðist um landið með allt sitt hafurtask á bakinu, samanbrjótanlegt borð, bækur og málunargræjur, gisti á bæjum og skildi stundum eftir blómaflúraða mynd í þakkarskyni.
Er sýningin á verkum Sölva unnin í samstarfi við Þjóðminjasafn Íslands sem geymir eitt stærsta safn mynda eftir Sölva, en einnig eru nokkur verk fengin frá Landsbókasafninu og Héraðsskjalasafni Skagfirðinga.
Þessi sýning er þáttur í verkefninu Söfn í söfnum, þar sem verk úr safneign eins safns eru sýnd í öðru safni, til að varpa ljósi á menningarsöguleg tengsl safnanna.
 
Í Austursal er sýning á verkum Katrínar Jósepsdóttur, eða Kötu saumakonu, þær eru fengnar að láni frá Listasafni Akureyrar í tengslum við verkefnið Söfn í söfnum, en 2. júlí mun svo opna sýning Safnasafnsins í Listasafni Akureyrar.
 
veggmynd
Veggmynd máluð með blaðgrænu eftir Elsu Dórótheu Gísladóttur.


Í Svalbarðsstrandarstofu er innsetning Elsu Dórótheu Gísladóttur, en hennar sýning teygir sig út í gróðurreitinn við hlið Safnasafnsins, sem fagnar 100 ára afmæli í ár. Verk Elsu Dórótheu fjallar um gróður jarðar og lífsorkuna og er að hluta unnin með íbúum sveitarfélagsins og skólabörnum. Á opnunardaginn mun Elsa Dóróthea planta eplatrjám.
 
Í Norðursölum sýnir Hreinn Friðfinnsson innsetningu með bergkristöllum,  steingervingum og sérstakri, syngjandi tíðniskál, Andrea Maack sýnir teikningar og Erla Þórarinsdóttir sýnir olíumálverk og granítskúlptúra.
 
 
Í Langasal sýnir Ragnhildur Stefánsdóttir innsetningu með verkum úr gifsi, gúmmíi og silíkoni, form sem byggja á líkama mannsins og líffærum.
 
 
 
Aðrir sýnendur eru Úlfar Sveinbjörnsson með útskorna fugla, Guðný Guðmundsdóttir með klippimyndir, Atli Viðar Engilbertsson með fólk úr pappa, Helgi Björnsson með tálgað fólk og húsdýr, Gloría López með útsaum, Björn Guðmundsson með útskorið og málað fólk, Hálfdán Ármann Björnsson með birkifólk og nemendur úr Hrafnagilsskóla sýna blómaskúlptúra undir áhrifum frá Sölva Helgasyni.
 
Í endurgerðri verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar verða sýndar hannyrðir eftir Jóhönnu Níelsdóttur og Jóhönnu Bjarnadóttur, en margt áhugaverðra muna leynist í hirslum verslunarinnar sem forvitnilegt er að skoða.
Að venju er svo sýning á skúlptúrum Ragnars Bjarnasonar, úrvali brúða úr Brúðusafninu og fjöldi annarra gripa úr safneign, í nýstárlegum myndheimum þar sem blandað er saman ólíkum hlutum úr fjölbreytilegum efnum svo úr verður ein heild.
 
Safnasafnið er opið daglega yfir sumarmánuðina frá 14 – 17, leiðsögn ef óskað er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband