Stjórn Myndlistarfélagsins mótmælir 50% niðurskurði Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna

box_983369.jpg


Á erfiðum tímum sem þessum er menningin mikilvægur þáttur í uppbyggingu þess samfélags sem við viljum skapa. Hún er tæki sem við getum notað til breytinga og vaxtar. Fyrir 20 árum síðan fór hópur áhugafólks um menningu af stað með framsæknar hugmyndir og nýja sókn. Listagilið varð til. Þar var áður mikill iðnrekstur á vegum Kaupfélags Eyfirðinga sem hafði flutt starfsemi sína. Sennilega er þetta eitt mesta framfaraskref í menningarmálum Akureyrarbæjar. Hugmyndir spruttu úr grasrótinni og urðu að veruleika með dyggri aðstoð bæjaryfirvalda. Allir vildu verkefninu vel og lögðu fjölmargir fram krafta sína og byggðu upp Gilið. Síðan hefur margt runnið til sjávar og er nú öflug listastarfsemi í Listagilinu.

En til þess að listin geti þjónað hlutverki sínu í okkar samfélagi sem uppspretta nýrra og frumlegra hugmynda, þarf hún frelsi til að þróast. List á ekki bara að veita ánægju, og vekja aðdáun, það er einnig hlutverk hennar að vera ögrandi, spyrja spurninga, koma á óvart og benda á það sem við hefðum annars ekki komið auga á, eða viljum jafnvel ekki koma auga á. Grundvöllur nýsköpunar og öflugs listalífs er að sem flestir taki þátt í menningarlífinu. Listin á stóran þátt í því að gera bæjarlífið spennandi, áhugavert og skemmtilegt.

Mikilvægt er að styrkveitingar bæjarins til listalífsins taki mið af því að mörkin milli listforma og ólíkra menningarheima eru í sífelldri endurskoðun. Við teljum það lykilatriði og hlutverk bæjaryfirvalda í menningarlífi að vera í góðum tengslum við grasrótina og þá sem stunda hefðbundnari listsköpun. Auk þess að styðja verkefni sem hafa sannað gildi sitt og fundið sinn farveg, þarf bærinn að hlúa að grasrótar- og tilraunastarfsemi, sem oft er vísirinn að því sem koma skal. Til þess að listalíf bæjarins geti blómstrað þarf einnig að vera fyrir hendi hentug vinnu- og sýningaraðstaða á viðráðanlegum kjörum fyrir yngri sem eldri listamenn. Þar þjónar Gilið mikilsverðu hlutverki sem staður viðburða og sköpunar.

Stjórn Myndlistarfélagsins lýsir yfir áhyggjum sínum vegna skerðingar Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna og öðrum styrkjum til menningarmála og listaverkakaupa. Við teljum brýnt á tímum sem þessum að efla frumkvæði og sköpunarkraft með öllum tiltækum ráðum.  Þá er mjög athyglisvert  að skoða sáttmála meirihlutaflokkana í ljósi niðurskurðarins.

Leiðarljós meirihlutaflokkanna í menningarmálum er menningarstefna sem gildir til ársins 2008. Markmiðið er að Akureyri verði fyrirmynd annarra sveitarfélaga í menningarmálum með stuðningi ríkisvaldsins, atvinnumennska listamanna verði efld og fjölbreytni í menningar- og listastarfsemi aukin. Vilji er til að tryggja jafnan aðgang íbúa að menningarstarfsemi og sérstök áhersla lögð á þátttöku barna. Sérstök verkefni á kjörtímabilinu eru:

  • Við endurnýjun samnings við ríkið um menningarmál frá áramótum 2006 – 2007  verður lögð áhersla á aukin framlög ríkisins m.a. vegna reksturs menningarhúss og Gásaverkefnisins auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands, Leikfélags Akureyrar, Amtsbókasafnsins og Listasafnsins.
  • Safnastarfsemi í bænum verður efld og söfnin gerð  aðgengilegri, bæði með nútímatækni, margmiðlun og opnunartíma. Jafnframt verður hugað að uppbyggingu safna í Hrísey.
  • Framlög í Menningarsjóð verða aukin sem og vægi fastra rekstrarsamninga við einstaklinga og félagasamtök.. Samvinna við frjáls félagasamtök verður aukin, t.d. með umsjón og rekstri skýrt afmarkaðra verkefna, s.s. Listasumars, Akureyrarvöku og annarra viðburða. Framlag bæjarins í Húsverndarsjóð verður aukið til að hvetja til uppbyggingar og endurgerðar gamalla húsa
  • Lögð verður aukin áhersla á kynningarmál Akureyrarbæjar og tækifæri nýtt sem gefast þegar stórir viðburðir eru á lista- eða íþróttasviðinu eða í öðrum greinum afþreyingar. Stofnanir sveitarfélagsins og félög, sem eru samningsbundin því á einn eða annan hátt, eiga að nýta sér sameiginlegar kynningarleiðir og fá þannig aukinn slagkraft.
  • Vinabæjarsamstarf Akureyrar verður nýtt betur til að auka viðskiptatengsl, koma á fyrirtækjastefnumótum og gera samanburðarrannsóknir á búsetuskilyrðum og lífsgæðum íbúa.
  • Árlega verða sett upp  umhverfislistaverk í sveitarfélaginu í samvinnu við skapandi einstaklinga og samtök.
  • Samstarf menningarstofnana, listamanna og grunnskóla verður eflt og fé veitt í þróunarstarf á sviði sköpunar í grunnskólum. Kannaðir verða möguleikar á að halda Alþjóðlega barnamenningarviku að vori til, fyrst árið 2008.


Samt og þrátt fyrir þetta hefur komið til skerðingar á starfslaunum listamanna og öðrum styrkjum til myndlistar og listaverkakaupa. Starfslaun listamanna Akureyrarbæjar eru 190.000 þús á mánuði í formi verkatakagreiðslna og hafa verið hingað til greiddir 12 mánuðir til tveggja listamanna. Til samanburðar eru listamannalaun sem eru greidd af ríkinu 266.737 kr.  Nú á að skera þetta niður í 6 mánuði og aðeins einn listamaður hlýtur launin. Við erum öll meðvituð um stöðu mála í dag og skiljum vel að einhversstaðar þurfa að bregða hnífnum á. En við verðum að passa okkur á því að drepa ekki niður frumkvæði og viljan til framkvæmda. Akureyrarbær hefur unnið sér nafnið menningarbær og við viljum öll tryggja að svo verði áfram. En þetta eru því miður skýr skilaboð til þeirra listamanna sem búa á Akureyri. Stjórn Myndlistarfélagsins mótmælir 50% niðurskurði Akureyrarbæjar á starfslaunum listamanna.


Virðingarfyllst

Stjórn Myndlistarfélagsins


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband