Aðkomumaður: fyrirlestur listnámsbrautar VMA í Ketilhúsinu

Joris Rademaker
 
Föstudaginn 5. febrúar kl. 14.50 í Ketilhúsinu mun Guðrún Pálína Guðmundsdóttir flytja fyrirlestur um myndlistamanninn og kennarann Joris Rademaker. Sýning á verkum hans stendur yfir í Listasafninu á Akureyri.

Guðrún Pálína er starfandi myndlistarmaður og kennari á Akureyri. Hún hefur um árabil starfrækt Gallerí+ í Brekkugötu 35 á Akureyri ásamt Joris Rademaker. Hún nam myndlist í Svíþjóð og Hollandi en hefur mestmegnis starfað á Akureyri síðan.

Í fyrirlestrinum verður fjallað um þróun listar hollenska myndlistarmannsins Joris Rademaker og þau áhrif sem flutningur til Íslands hafði á list hans. Fyrirlesturinn er í tengslum við yfirlitssýningu hans „Aðkomumaður“, sem nú stendur yfir í Listasafninu á Akureyri. Joris verður einnig viðstaddur og talar um hugmyndafræði verkanna og vinnuferlið.

Joris vinnur oftast verk sín í seríum og vinnur með mismunandi þema t.d. form púsluspils eða skapalón úr auglýsingum. Hann hefur einnig unnið með matvæli eins og hnetur, spaghetti og kartöflur. Einnig hefur hann notað fundna hluti og notað tannstöngla í sína skúlptúra. Oftast vinnur hann með andstæður ljóss og skugga. Hreyfingin og rýmið er aðal uppistaðan í verkum Joris, óháð efnismeðferð. Hann bæði málar myndir og býr til skúlptúra og innsetningar.

Fyrirlestrarnir eru skipulagðir af kennurum á listnámsbraut Verkmenntaskólans á Akureyri í samvinnu við Listasafnið á Akureyri og Menningarmiðstöðina í Grófargili.
 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband