Kristinn G. Jóhannsson sýnir í Jónas Viðar Gallery

kristinng.jpg

Laugardaginn 16 janúar kl. 15.00 opnar
Kristinn G. Jóhannsson málverkasýningu í
Jónas Viðar Gallery í listagilinu á Akureyri.

Þér og þínum er boðið.

Kristinn G. Jóhannsson (1936) nam myndlist á Akureyri, í Reykjavík og í
Edinburgh College of Art, Skotlandi.
Hann efndi til fyrstu sýningar sinnar á Akureyri 1954 en sýndi fyrst í
Reykjavík í Bogasal Þjóðminjasafnsins 1962 og sama ár tók hann í fyrsta
sinn þátt í Haustsýningu Fím í Listamannaskálanum. Hefur síðan verið
virkur á sýningavettvangi.
Kristinn varð stúdent frá MA fyrir rúmri hálfri öld og lauk kennaraprófi
1962 og starfaði síðan við kennslu og skólastjórn á Patreksfirði,
Ólafsfirði og Akureyri í tæpa fjóra áratugi.
Hann hefur nú velt af sér opinberum reiðingi fyrir nokkru og hefur
vinnustofur á Akureyri þar sem hann starfar að list sinni , eða eins og
hann segir sjálfur: "Þar er ég að etja saman litum, einkum litbrigðum
jarðarinnar, og læt á reyna hvort nægi til málverks."
Kristinn hefur gert vatnslitamyndir í nýjar útgáfur af sögum Jóns
Sveinssonar, Nonna, og einnig í þjóðsögur s.s. Búkollu og Gilitrutt auk
teikninga í fjölda annarra bóka.

Kristinn fylgir sýningunni svona úr hlaði:

"Ég er enn genginn í brekkur. Sýndi ykkur árið 2006, í Ketilhúsinu, sumrið
í brekkunum upp af Fjörunni og hét "Málverk um Búðargil og brekkurnar".
Hér, hjá Jónasi Viðari, sýndi ég ykkur fyrir ári "Haustbrekkur", höfgan
gróður að syngja sitt síðasta með trega , flúri og fagurgala.
Nú hefur snjóað yfir allt það litskrúð en brekkurnar eru þarna enn og
húsin undir rótum þeirra og enn er ég að fást við litbrigðin , sem verða
af samspili þess sem er og uppspunans sem þarf við gerð málverks.
Þið eruð að fylgjast með hvernig fram vindur bragnum um brekkurnar í
Innbænum og þessa sýningu , sem er í beinu framhaldi af hinum fyrrnefndu,
ætla ég að kalla "Vetrarbrekkur" til aðgreiningar. Held hér áfram samtali
við nánasta umhverfi mitt og nálgast það í endurtekinni leit að einhverju
sem nefna mætti persónulega túlkun, hvort á einstaka stað auðnist mér að
hitta á einhverskonar klaufaskap eða tiktúrur sem nægi til að úr verði
sjálfstæð sýn og dugi til málverks. Það kann að vera borin von.
En hvað sem því líður eru hér "Vetrarbrekkur" eins og ég sá þær ekki og ef
þið þekkið þær í sjón er það til merkis um að mér hafi mistekist með
öllu."

Jónas Viðar
sími: 8665021
Heimasíða: http://www.jvs.is
Jónas Viðar Gallery: http://www.jvs.is/jvgallery.htm


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband