Hjördís Frímann opnar myndlistarsýningu í Mjólkurbúðinni

17917505_774695162689758_3257051168363132486_o

Hjördís Frímann opnar myndlistarsýningu í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 22. apríl 2017 klukkan 14 til 17 og eru allir hjartanlega velkomnir. Sýningin er einnig opin frá 14 til 17 sunnudaginn 23. apríl og helgina 29. og 30. apríl.
Á sýningunni er Hjördís með innsetningu með rúmlega þrjátíu teikningum sem allar eru unnar út frá einni og sömu teikningunni, andlitsmynd af stúlku eftir hana sjálfa.
Hjördís er myndlistarmaður og leikskólakennari, fædd á Akureyri 1954 og flutti á heimaslóðir árið 2008. Hún lauk myndlistarnámi frá Museum of Fine Arts í Boston árið 1986 og hefur málað síðan, mest með akrýl, en einnig í olíu. Hjördís er spunamálari og yfir verkum hennar er einhver ævintýrakenndur blær. Litagleðin er alltaf til staðar og leikur með form og liti, en teikningin er jafnan sterkur þáttur í málverkum hennar. Þetta er hins vegar fyrsta sýning hennar sem er alfarið helguð teikningum. Teikningarnar á þessari sýningu eru allar unnar út frá einni einfaldri andlits teikningu, sem hún færir í mismunandi búning og nýtir meðal annars tölvu- og prenttækni í leik með útfærslur.

https://www.facebook.com/events/835914809899614


Sköpun bernskunnar 2017 og UPP opna í Listasafninu á Akureyri

18076785_1451313668223804_3539466292098367229_o 18076917_1451314951557009_9143220628983238850_o

Laugardaginn 22. apríl kl. 15 verða tvær sýningar opnaðar í Listasafninu, Ketilhúsi: Sköpun bernskunnar 2017, samsýning listamanna, skólabarna og leikfangasýningarinnar í Friðbjarnarhúsi, og Upp, útskriftarsýning listnáms- og hönnunarbrautar VMA. Síðarnefnda sýningin er einnig sett upp í Deiglunni. 

Þetta er fjórða sýningin undir heitinu Sköpun bernskunnar. Hún er sett upp til þess að örva skapandi starf og hugsun skólabarna á aldrinum tveggja til sextán ára. Þátttakendur hverju sinni eru börn, starfandi listamenn og Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi. Sköpun bernskunnar er því samvinnuverkefni í stöðugri þróun og er hver sýning sjálfstæð og sérstök.

Sýningin hefur vakið verðskuldaða athygli og er einstök hvað varðar listrænt samtal myndlistarmanna og barna. Þemað að þessu sinni er fjaran í víðum skilningi.

Þátttakendur í ár eru leikskólarnir Tröllaborgir og Lundarsel, grunnskólarnir Brekkuskóli og Giljaskóli, Leikfangasýningin í Friðbjarnarhúsi og listamennirnir Hekla Björt Helgadóttir, Magnús Helgason, Marina Rees og Samuel Rees. Sýningarstjóri er Guðrún Pálína Guðmundsdóttir.

Þriggja ára samstarf

Sýningar á lokaverkefnum nemenda hafa lengi verið fastur liður í starfsemi listnáms- og hönnunarbrautar Verkmenntaskólans á Akureyri. Sýningarnar eru tvær yfir árið og annars vegar settar upp í lok vorannar og hins vegar í lok haustannar. Þetta er þriðja árið í röð sem þær eru haldnar í samstarfi við Listasafnið á Akureyri.

Við undirbúning slíkra sýninga velja nemendur sér verkefni eftir áhugasviði þar sem þeim gefst tækifæri til að kynna sér nýja miðla eða dýpka skilning sinn á þeim sem þeir hafa áður kynnst.

Að baki verkanna liggur hugmynda- og rannsóknarvinna og leita nemendur víða fanga í eigin sköpunarferli, allt eftir því hvað hentar hverri hugmynd og þeim miðli sem unnið er með. Nemendur fá eina önn til að vinna að lokaverkefnum sínum og uppsetningu sýningar í samtali og samvinnu við leiðsagnarkennara og samnemendur þar sem frumkvæði, hugmyndaauðgi og öguð vinnubrögð eru lögð til grundvallar.

Nemendur hönnunar- og textílkjörsviðs:
Anton Örn Rúnarsson
Birna Eyvör Jónsdóttir
Elva Rún Kristjánsdóttir
Hrafnhildur Ósk Birgisdóttir
Kamilla Sigríður Jónsdóttir
Karitas Fríða W. Bárðardóttir

Nemendur myndlistarkjörsviðs:
Andri Leó Teitsson
Ármann Ingi Þórisson
Eva Mist Guðmundsdóttir
Fanný María Brynjarsdóttir
Sandra Wanda Walankiewicz
Sindri Páll Stefánsson
Valgerður Þorsteinsdóttir

Upp stendur til 30. apríl en Sköpun bernskunnar 2017 til 28. maí. Opið þriðjudaga-sunnudaga kl. 12-17.
Aðgangur er ókeypis.

listak.is


Bloggfærslur 20. apríl 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband