Hrafnkell Sigurðsson sýnir í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði

17039393_1246342538775682_4794456371749041160_o

Laugardaginn 4. mars 2017 kl.14.00 opnar Hrafnkell Sigurðsson sýningu í Kompunni, Alþýðuhúsinu á Siglufirði með myndröðina “ Urban mountains “. Sýningin er hluti af listahátíðinni Skafl sem fram fer í og við Alþýðuhúsið 3. til 5. mars.
Sýning Hrafnkels er opin daglega kl. 14.00 – 17.00 þegar skilti er úti og stendur til 19. mars.
www.hrafnkellsigurdsson.com

Hrafnkell Sigurðsson (1963)

Hrafnkell var í gamla mynd- og handskólanum árin 1982 – 86 og þaðan lá leiðin í Jan Van Eyck Akademie, Maastricht, Hollandi. 1990 lauk hann einnig MFA frá Goldsmiths College í London. Fyrsta einkasýning hans var í hinu víðfræga Slúnkaríki á Ísafirði en mikill heiður þótti fyrir ungan listamann að sýna þar á þessum árum. Það var þó ekki í faðmi vestfiskra fjalla sem landslagið varð að leiðarljósi í verkum Hrafnkels.
„Í Hollandi uppgötvaði ég landslagið í póstkortum og fundnum myndum. Kannski hefur það snúist um söknuð að einhverju leyti án þess að ég gerði mér endilega grein fyrir því. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að fara frá litla Íslandi um einhvern tíma, sakna þess og skynja aðeins betur stærð heimsins. Í Hollandi byrjaði ég að leika mér með landslagshefðina og hef gert það síðan. Ég mun líka gera það áfram vegna þess að rætur mínar eru í landslaginu og verkin mín leita þangað.“

Í verkum sínum fjallar Hrafnkell um tengsl náttúru og manns. Þar spinnast saman þættir úr rómantík og módernisma sem á stundum vísa til ritúala. Hið skíra yfirbragð sem virkar í fyrstu fjarlægjandi gefur verkunum nálægð. Yfirborð umhverfist í innri heima og í meðförum listamannsins breytist óreiðan í samhverfu. Hin rómantíska sýn á hið upphafna sem einkennist af samfellu ógnar og heillunar tekst á við hið hversdagslega sem birtist í formi líkamans, en hann er hvorttveggja í senn, fulltrúi óreiðu og jafnvægis. Segja má að líkaminn sé miðpunktur myndbirtinga Hrafnkells, allt frá snjófjöllum og tjöldum til nýbygginga og ruslapoka. Það er þó ekki fyrr en í myndbandsverkunum sem hann kemur fram nakinn og auðsveipur, fulltrúi þeirra ólíku afla sem knýja verk listamannsins áfram.

Í ljósmyndaverkum sínum fjallar Hrafnkell Sigurðsson um ímyndir náttúru og hins manngerða. Ljósmyndir af snjósköflum vísa til rómantískrar landslagsmyndahefðar, utan að þessar fjallamyndir eru til marks um mannleg ummerki innan borgarmarka. Þannig er hefðin útfærð og unnin og heimfærð upp á nútímaveruleika borgarbúans.

https://www.facebook.com/events/142511411085312


Einar Falur Ingólfsson og Sigtryggur Bjarni Baldvinsson í Listasafninu á Akureyri

17097236_1396441473711024_6089876027496331391_o  16998091_1395744800447358_8484987801668277184_n

Laugardaginn 4. mars kl. 15 verða sýningar listamannanna Einars Fals Ingólfssonar, Griðastaðir, og Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk, opnaðar í Listasafninu, Ketilhúsi.

Sýningin Griðastaðir er úrval ljósmyndaverka úr fjórum tengdum seríum sem Einar Falur hefur unnið að á undanförnum áratug. Svissneski sýningarstjórinn Christoph Kern valdi verkin á sýninguna úr myndröðunum Griðastaðir, Skjól, Reykjanesbrautin og Sögustaðir. Í verkunum tekst Einar Falur á við manninn og íslenska náttúru; við náttúruöflin, hvernig mennirnir reyna að lifa í og með náttúrunni, laga hana að þörfum sínum, verjast henni á stundum en jafnframt leita í henni skjóls. Verkin eru öll tekin á 4 x 5 tommu blaðfilmu.

Ljósmyndaverk Einars Fals hafa á undanförnum árum verið sýnd á einka- og samsýningum í söfnum og sýningarsölum á Íslandi, meginlandi Evrópu og í Bandaríkjunum. Hann er með BA-gráðu í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og MFA-gráðu í ljósmyndun frá School of Visual Arts í New York. Einar Falur starfar sem myndlistarmaður, rithöfundur og blaðamaður og verður með listamannaspjall á opnun kl. 16.30.

Málverkin á sýningu Sigtryggs Bjarna Baldvinssonar, 360 dagar og málverk, eru annars vegar „randamyndir“ unnar með endurunnum gvasslitum Karls Kvaran og hins vegar olíulitaverk þar sem myndefnið er sindrandi eða merlandi vatnsfletir.

Ljósmyndaverkið 360 dagar í Grasagarðinum var upphaflega unnið fyrir Listvinafélag Hallgrímskirkju. Kveikjan að verkinu er ævi og örlög Hallgríms Péturssonar, en það hefur þó mun víðtækari skírskotanir. Verkið samanstendur af um 80 ljósmyndum teknum á 360 daga tímabili í litlum skrúðgarði í Brighton á Englandi og fjallar um hringrás efnis í lífríkinu og þá eilífð og endurnýjun sem skynja má í henni.

Sigtryggur Bjarni stundaði myndlistarnám á Akureyri, í Reykjavík og Frakklandi. Hann hefur haldið yfir 30 einkasýningar og finna má verk hans í öllum helstu listasöfnum landsins. Hann verður með listamannaspjall á opnun kl. 16.30.

listak.is

https://www.facebook.com/events/415093835518763

https://www.facebook.com/events/901145993360076


Ólafur Sveinsson opnar sýningu í Mjólkurbúðinni

17038890_10154265681337231_7838678552041159298_o

Ólafur Sveinsson opnar málverkasýninguna „Óhlutbundið almætti" í Mjólkurbúðinni í Listagilinu á Akureyri laugardaginn 4.mars kl. 14.

Sýningin ber yfirskriftina „Óhlutbundið almætti" og eru verkin á sýningunni unnin á síðastliðnum árum. Hið óhlutbundna almætti er tilvísun í þá óbeisluðu ofurkrafta sem blunda í hinu óhlutbundna, abstrakt listinni. Í málverkunum ræður litagleði og frelsi ríkjum sem reyna að rata hinn vandfarna stíg hins óhlutbundna. Máttur listarinnar og nauðsyn eru ótvíræð, sjón eru sögu ríkari.

Ólafur Sveinsson er fæddur í Reykjavík 1964 og nam hann myndlist við Myndlistaskólann á Akureyri ásamt myndlistanámi í Lathi í Finnlandi. Auk þess fór hann í kennaranám í Háskólanum á Akureyri. Ólafur hefur verið ötull í sýningarhaldi, haldið einkasýningar hér á landi og einnig nokkrar í Kaupmannahöfn og tekið virkan þátt í samsýningum.

Sýningin ,,Óhlutbundið almætti" stendur frá 4.-12. mars og er opin föstudag til sunnudags frá kl. 14-17.


Bloggfærslur 2. mars 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband