Alana LaPoint sýnir Töfruð djúp / Conjured Depths í Listasafninu á Akureyri

16602079_1375614795793692_4534379537205419962_o

Laugardaginn 11. febrúar kl. 15 opnar Alana LaPoint sýninguna Töfruð djúp / Conjured Depths í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi. LaPoint er að mestu leyti sjálfmenntaður listamaður sem hefur haldið fjölmargar einkasýningar og tekið þátt í samsýningum á heimaslóðum sínum í Vermont í Bandaríkjunum á síðustu tíu árum. Alana vann undir leiðsögn abstraktmálarans Galen Cheney 2007-2009.

„Þetta landslag sem má sjá á sýningunni varð til vegna löngunar til að tjá þá hrifningu sem ég upplifi þegar ég stend í fjöruborðinu,“ segir LaPoint. „Frá því sjónarhorni er ég ákaflega meðvituð um samtengingu alheimsins. Um ímyndunarafl mitt leika lausum hala sögur af fólki og lífverum sem lifa og deyja í þessu vatni og fylla mig bæði af tilfinningu fyrir smæð minni, og óviðjafnanlegri friðsæld. Ég reyni að miðla skynhrifunum gegnum þessi málverk og gera þau aðgengileg áhorfendum. Efni til listsköpunar, ein og sér, veita mér mikinn innblástur því möguleikarnir eru svo margir. Linnulaust kanna ég eiginleika litarefna og málningar og elti uppi nýjar aðferðir og tækni. Þessi óseðjandi forvitni og fróðleiksfýsn veitir mér innblástur, jafn takmarkalausan og hafið.“

Sýningin stendur til 26. febrúar og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17. Leiðsögn um sýningar Listasafnsins er á fimmtudögum kl. 12.15-12.45. Aðgangur er ókeypis. 

listak.is


Stofnfundur Vina Listasafnsins á Akureyri

16463421_1369573573064481_5076779037185342155_o

Miðvikudaginn 8. febrúar kl. 17-18 verður stofnfundur Vina Listasafnsins á Akureyri haldinn í Listasafninu, Ketilhúsi. Á fundinum geta áhugasamir velt fyrir sér hlutverki og tilgangi slíkra samtaka og rætt hugmyndir sín á milli. Stefnt er á að meðlimir geti komið með hugmyndir að fyrirlestrum, málþingum og annarri dagskrá auk þess að geta aðstoðað við sérstaka viðburði á vegum safnsins.

Dagskrá fundarins:


Heiða Björk Vilhjálmsdóttir, fræðslufulltrúi, verður með stutta leiðsögn um sýningar á verkum Nínu Tryggvadóttur og Georgs Óskars og segir jafnframt frá fræðslustarfinu.

Rósa Kristín Júlíusdóttir segir frá sambærilegri starfsemi Listasafna á Norðurlöndunum, Ítalíu og í Bandaríkjunum.


Hlynur Hallsson, safnstjóri, segir frá starfsemi Listasafnsins, fyrirhuguðum framkvæmdum og framtíðarmöguleikum.

Umræður og hugmyndavinna.

Aðild að Vinum Listasafnsins mun kosta 2.500 kr. árlega en 2.000 kr. fyrir 18 ára og yngri, 67 ára og eldri og námsmenn. Aðild felur jafnframt í sér:

- Árskort í Listasafnið á Akureyri
- Gjöf frá Listasafninu
- Frían aðgang að Hönnunarsafni Íslands og Gljúfrasteini, húsi Halldórs Laxness
- Afslátt af sýningarskrám og af vörum í fyrirhugaðri safnbúð
- Sérstakar leiðsagnir um sýningar og kynning á dagskrá og viðburðum á vegum safnsins.

Þau sem vilja gerast stofnfélagar í Vinum Listasafnsins en komast ekki á fundinn geta haft samband við Þorbjörgu Ásgeirsdóttur, safnfulltrúa í bobba@listak.is og skráð sig í hópinn.

listak.is


Stefán Boulter sýnir í Gallerí Gróttu

16426107_582040621993259_5152467945880988461_n

Sýningaropnun Stefáns Boulter í Gallerí Gróttu - Fimmtudag 9. febrúar kl. 17:00
Stefán Jóhann Boulter var um nokkurra ára skeið lærlingur og aðstoðarmaður hins virta og umdeilda norska listamanns Odds Nerdrum og bera verk hans þess glöggt vitni. Stefán opnar sýninguna Stjörnuglópar í Gallerí Gróttu fimmtudaginn 9. febrúar kl. 17.

Megin uppistaða sýningarinnar er myndröð eða fjölskylda af verkum, sem hafa verið unnin á síðustu tveimur árum. Grunnstef þeirra eru rauðmáluð andlit kvenna sem virðast vera á hreyfingu og beina sjónum sínum í átt að himinhvolfinu. Rauði liturinn hefur margvíslega táknræna skírskotun, en er einnig þekktur sem litur lífsins, hugrekkis og viljastyrks. Þannig búa verk Stefáns yfir táknmyndum, sem eru frásagnarlegs eðlis og byggja á persónulegri reynslu og þekktum, fornum minnum.

Hugleiðingar um náttúruna eru Stefáni ofarlega í huga og endurspeglast í dýrum, viðveru hluta og áru þeirra. Stefán hefur víða leitað fanga við gerð verkanna en þau eru meðal annars innblásin af verkum listmálarans George Catlin ( 1796-1872 ) sem ferðaðist meðal innfæddra í Norður Ameríku snemma á 19. öld og málaði fólkið sem byggðu álfuna áður en heimsálfan var öll numin Evrópubúum. Þessi horfni heimur hefur löngum vakið forvitni listamannsins allt frá barnæsku, er hann ungur gruflaði í bókum föður síns.

Stefán Jóhann Boulter er fæddur í Reykjavík árið 1970. Hann lærði grafíska hönnun í Tempe, Arizona í Bandaríkjunum, var við listnám í Flórens á Ítalíu og varð síðar aðstoðarmaður Odds Nerdrum í Noregi og á Íslandi. Stefán hefur sýnt í listasöfnum og galleríum bæði hér heima og erlendis, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. Stefán er búsettur á Akureyri og kennir með reglulegu millibili við Myndlistarskólann á Akureyri.


Bloggfærslur 8. febrúar 2017

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband