Ragnheiður Harpa Leifsdóttir með Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu

14525028_1242389062449600_1278000692562077291_o

Þriðjudaginn 11. október kl. 17-17.40 heldur Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, sviðshöfundur, Þriðjudagsfyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi, undir yfirskriftinni „Þetta er allt eins og klukknahljómur úr djúpinu“. Í fyrirlestrinum fjallar hún um tilurð verka sinna og veitir innsýn í starfsaðferðir sínar sem sviðshöfundur og lýsir hugmyndafræðinni að baki þeim. Einnig mun hún ræða um sína áhrifavalda og það sem henni þykir nauðsynlegt í sköpun. Aðgangur er ókeypis.

Ragnheiður Harpa lauk B.A. námi úr Listaháskóla Íslands 2011 og lagði stund á sambærilegt nám í University of Dartington 2010. Hún hefur starfað á ýmsum sviðum leikhúss og myndlistar, samið, sett upp og tekið þátt í fjölda gjörninga, leiksýninga og innsetninga bæði á Íslandi og erlendis. Af verkum hennar má nefna Söng kranans, sem tilnefnt var til Grímunnar 2016, Skínöldu, samstöðugjörning með ljósi fyrir UN Women, og Flugrákir: „… og veröldin var sungin fram“, lokaverk Listahátíðar 2014. Ragnheiður Harpa stundar nú framhaldsnám í ritlist við Háskóla Íslands. Hún hefur skrifað útvarpsleikrit, gefið út smásögur og vinnur nú að ljóðahandriti sem verður frumflutt á ljóðahátíð í Istanbúl í haust.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Gilfélagsins, Verkmenntaskólans á Akureyri, Myndlistarfélagsins og Háskólans á Akureyri og er öllum opin. Á meðal annarra fyrirlesara vetrarins eru Margrét Elísabet Ólafsdóttir, listfræðingur, Ásdís Sif Gunnarsdóttir, myndlistarkona, Almar Alfreðsson, vöruhönnuður, Pamela Swainson, myndlistarkona, Gústav Geir Bollason, myndlistarmaður og Lárus H. List, formaður Myndlistarfélagsins.


Bloggfærslur 9. október 2016

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband