Aðalheiður S. Eysteinsdóttir sýnir í SALT VATN SKÆRI

11045304_10203936260583662_2272476602808533137_n

Næstkomandi Laugardag 14. mars kl. 16.00 opnar Aðalheiður S. Eysteinsdóttir innsetningu í verkefnarýminu SALT VATN SKÆRI Kaupvangsstræti Akureyri.

Verkið sem sýnt er ber yfirskriftina Blái flygillinn og var gert fyrir sýninguna Píanó á Listasafni Íslands sumarið 2014.

Nú gefst Norðlendingum og gestum færi á að skoða verkið.


Blái flygillinn.
Heimsmyndin kom til sjávarþorps eins og Siglufjarðar með sögum, myndum og varningi sem sjómenn færðu heim og bú oftast fyrir jól.
Árið 1969 var faðir minn sjómaður á síðutogaranum Hafliða, Vanalegt var að sigla með aflann á markaði erlendis, og var stefnan tekin á Bremenhafen í Þýskalandi.
Við heimkomu fögnuðu fjölskyldur ekki aðeins heimilisföður heldur líka ilmandi rauðum eplum, dósaskinku, kalkún í jólamatinn, Ficher skíðum með stálköntum og vatteruðum skíðagöllum, 8 mm. kvikmyndum og í þetta tiltekna skipti, litlum bláum tréflygli.
Ég var 6 ára og hafði aldrei séð eins ævintýralegan hlut. Flygillinn var um 35 cm. á breidd og hafði eina og hálfa áttund sem hljómaði eins og í alvöru hljóðfæri. Þegar nánar var skoðað, kom í ljós gullin harpa og fóðraðir klossar tengdir lyklaborðinu. Undir flyglinum voru fingursverir og álíka langir viðkvæmir fætur sem lyftu hljóðfærinu aðeins frá jörðu.
Ég ákvað að verða píanóleikari.
Árin liðu og þrátt fyrir píanókennslu um fjögurra ára skeið hef ég ekki enn náð því markmiði að nota mér hljóðfærið á annan veg en til að njóta færni annarra. En tónlist hefur gefið mér hugarró og verið gjöful uppspretta hugmynda.
Fyrir tæpum þremur árum var ég svo heppin að eignast yndislegan lítinn viðarlitaðan flygil, sem stendur nú á vinnustofunni minni og bíður þess að fimmtug konan láti drauma sína rætast.

https://www.facebook.com/events/1574414956130730


Jan Voss - Með bakið að framtíðinni í Listasafninu á Akureyri

large_tour-de-trance-small_janvoss

Laugardaginn 14. mars kl. 15 verður opnuð í Listasafninu á Akureyri sýning á verkum þýska myndlistarmannsins Jan Voss, Með bakið að framtíðinni.

Spurningin „hvað er mynd?“ er undirliggjandi þáttur í viðfangsefnum Jan Voss. Þó að óhefðbundnar vinnuaðferðir hans hafi stöku sinnum kallað fram svipleiftur þess sem gætu hafa verið svör þá hefur leit hans – sem spannar ólíka miðla – ekki bent á neitt umfram það sem væri speglun af einhverju öðru.

Jan Voss er fæddur 1945 í Þýskalandi og búsettur í Amsterdam. Sem ungur listamaður vann hann við að teikna teiknimyndasögur sem hann prentaði sjálfur og gaf út. Hann gekk síðar til liðs við félaga sína þær Henriëtte van Egten og Rúnu Thorkelsdóttur og síðastliðin 30 ár hafa þau í sameiningu rekið hina einstöku jaðar bókaverslun Boekie Woekie en þar eru seldar bækur eftir listamenn.

Í tilefni sýningarinnar kemur út á vegum Listasafnsins á Akureyri og Boekie Woekie í Amsterdam vönduð bók eftir Jan Voss, With the Back to the Future sem gefin verður út á ensku.

Ávörp á opnuninni flytja Hlynur Hallsson safnstjóri og Thomas H. Meister sendiherra Þýskalands á Íslandi auk þess sem Norðanpiltar koma fram af þessu tilefni.

Listamannaspjall með Jan Voss verður í Listasafninu fimmtudaginn 19. mars kl. 17 - 17.45. Leiðsögn um sýningarnar í Listasafninu / Ketilhúsinu er alla fimmtudaga kl. 12.15.

Sýningin Með bakið að framtíðinni stendur til 10. maí og er opin þriðjudaga til sunnudaga kl. 12-17.

https://www.facebook.com/events/1007516015943089

http://www.listak.is


Katrín Erna Gunnarsdóttir með Þriðjudagsfyrirlestur

11044534_904170649604778_2851458748442615442_n

Listasafnið á Akureyri, Ketilhús.

Þriðjudagsfyrirlestur

Katrín Erna Gunnarsdóttir: Áður fyrr seinna meir.

Þriðjudaginn 10. mars kl. 17 mun myndlistarkonan Katrín Erna Gunnarsdóttir halda fyrirlestur í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi undir yfirskriftinni Áður fyrr seinna meir/Before In The After. Í fyrirlestrinum fjallar Katrín um lokaverkefni sitt frá LHÍ 2012 sem hún tengir við persónulega þróun sína í listsköpum og ræðir hvernig „ein lítil hugmynd getur haft gríðarleg áhrif á mann í langan tíma og jafnvel gefið tóninn fyrir feril manns sem heild“.

Auk Listaháskóla Íslands nam Katrín við Myndlistaskólann í Reykjavík og Chelsea School of Art and Design, í Bretlandi. Hún er einnig útskrifuð úr BA námi í listfræði og almennri trúarbragðafræði frá Háskóla Íslands.

Þetta er áttundi Þriðjudagsfyrirlestur ársins og sem fyrr fara þeir fram í Listasafninu á Akureyri, Ketilhúsi á hverjum þriðjudegi kl. 17. Aðgangur er ókeypis.

Fyrirlestraröðin er samvinnuverkefni Listasafnsins á Akureyri, Verkmenntaskólans á Akureyri, Háskólans á Akureyri og Myndlistaskólans á Akureyri. Aðrir fyrirlesarar vetrarins eru María Rut Dýrfjörð, Jón Páll Eyjólfsson og Hildur Friðriksdóttir.

https://www.facebook.com/events/414270212068620

http://www.listak.is


Bloggfærslur 9. mars 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband